- Advertisement -

Stórgróði Finna

Kjaramunurinn verður ekki útskýrður með neinu öðru en veikri  og ótrúverðugri krónu.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Finnar tóku upp evruna árið 2002 eftir efnahagslega aðlögun árin á undan. Frá þeim tíma þá hafa vextir á íbúðalánum lækkað niður í 1,3 prósent samanber mynd 1. Verðbólgan hefur einnig lækkað jafnt og þétt og stendur núna í 0,9 prósentum. Evran hefur án alls vafa fært finnskum almenningi miklar kjarabætur og stöðugleika. Þessi vænlega þróun var ekki tekin út með auknu atvinnuleysi. Tölfræðilegar nálgunarlínur sýna að atvinnuleysi hefur farið minnkandi jafnt og þétt. Á síðasta áratug síðustu aldar þá sló almennt atvinnuleysi hæst í 20 prósent í Finnlandi, en var komið niður í 5,6 prósent í desember 2018. Í dag í miðjum faraldrinum þá er almennt atvinnuleysi 7,8 prósent. Finnar stefna síðan á að almennt atvinnuleysi verði að jafnaði komið vel undir 5 prósent á næstu árum í venjulegu árferði. Það markmið samsvarar áætlun bandarískra stjórnvalda um atvinnuleysi þar vestra.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Finnskar hagtölur varpa skýru ljósi á hvað kjör íslenskrar alþýðu eru lök þegar kemur að íbúðarkaupum og efnahagslegum stöðugleika. Bestu kjörin nú um stundir á óverðtryggðum íbúðalánum á Íslandi eru um 3,3 prósent, en vextir eru aftur teknir til við að rísa. Árleg verðbólga er 4,3 prósent. Alla þessa öld þá hefur bólgan ætíð verið meiri á Íslandi en í Finnlandi samanber mynd 2. Almennt atvinnuleysi er síðan komið í 11,6 prósent og var á uppleið þegar síðast var mælt.

Kjaramunurinn verður ekki útskýrður með neinu öðru en veikri  og ótrúverðugri krónu. Hvoru tveggja spilar beint inn í hátt vaxtarstig. Það er því áríðandi fyrir bæði heimili og atvinnulíf að ná vöxtum niður á það stig sem þekkist í Finnlandi og víðar. Til þess þarf ósköp einfalda aðgerð. Sjálfstæðisflokkurinn fæst ekki til að ræða hana vegna dekurs við sérhagsmunagæslu og úrræðaleysis þar á bæ við stjórn landsins.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: