- Advertisement -

Stóri fordómur

Fullyrðingin er ekki studd neinum hagfræðikenningum né almennu brjóstviti.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Ég hef áður sagt að fjármálaráðherra landsins sé ekki góð heimild. Hann verður oftar en gott getur talist fyrir landshag uppvís að þekkingarleysi. Nú spilar hann út kunnuglegri og rangri staðhæfingu um að einkageirinn haldi uppi opinberri þjónustu. Fullyrðingin er ekki studd neinum hagfræðikenningum né almennu brjóstviti. Þetta er eingöngu fordómur sem byggir á „við og þið“ hugsunarhætti. Við einkageirinn og þið opinberi geirinn. Svona eins og þessir hlutar hagkerfisins séu andstæðingar í ævarandi stríði. Ekkert er eins fjarri sannleikanum, kerfin spila samleik innan heildarinnar.

Innbyggt í fordóm ráðherrans er að einkageirinn njóti ekki góðs af mennta- og heilbrigðiskerfinu, rekstri hafnarmannvirkja og flugvalla svo fátt eitt sé upp talið. Sem nærtækt dæmi þá er lunginn af starfsmönnum einkageirans menntaður hjá íslenskum og opinberum skólum. Heilbrigðiskerfið er síðan að sinna starfsmönnum einkageirans þegar þeir þurfa á því að halda svo þeir geti haldið áfram að vinna sín störf. Óumdeilt er að mennta- og heilbrigðiskerfið þjónar þörfum einkageirans og fyrir þjónustuna ber að borga. Það ber einnig að greiða fyrir notkun hafnarmannvirkja, flugvalla og vegakerfisins. Það gera fyrirtækin í gegnum skattkerfið og þjónustugjöld. Skipanin liggur í augum uppi hjá öllum nema þeim sem haldnir eru sama fordóm og fjármálaráðherrann.

Frjálshyggja Sjálfstæðisflokksins.

Frjálshyggja Sjálfstæðisflokksins byggir um margt á kenningum Milton Friedmans, en hann var duglegur að segja „There ain’t no such thing as a free lunch“. Augljóst er að fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins fer villur vega þegar hann segir að einkageirinn haldi uppi opinberri þjónustu.

Opinber starfsemi er hageining sem leggur til hagvaxtarins og skilar tekjum í ríkissjóð á sama hátt og einkageirinn gerir. Að tekjur eigi sér erlendan uppruna í gegnum útflutning gerir ekki verðmætasköpun opinbera geirans minna virði fyrir vikið. Opinberi geirinn er ekki betlandi þurfalingur sem þiggur ölmusu úr hendi einkageirans heldur selur þjónustu gegn endurgjaldi. Alveg eins og veitingahús og flugfélög gera. Opinberi geirinn fær sínar greiðslur í gegnum fjárlög ríkis og sveitarfélaga að mestu, sem síðan rukka bæði einstaklinga og fyrirtæki í gegnum skattkerfið. Halda má þeim gagnrökum uppi að opinberi geirinn stuðli að samkeppnishæfari einkageira.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: