- Advertisement -

Styrmir dylgjar, hótar og yfirgefur sannleikann!

Þar sem dylgjurnar virka ekki er farið í hræðsluáróður.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Styrmir Gunnarsson er ekki háloflegur maður. Það er öðru nær. Hann þolir ekki að hans ryðbrunna sverð virkar ekki á kynslóðirnar sem koma á eftir honum. Þær deila almennt ekki skoðunum öldungsins á orkupakkanum.

Skrif Styrmis á opinberum vettvangi verða æ örvæntingafyllri og grófari eins og þekkt er með rökþrota menn.

Styrmir Gunnarsson.
Jóhann segir: „Svarið er augljóst, hann Styrmir tilheyrir fámennum en háværum hóp sem nær ekki máli að teljast vera grasrót!“

Í lok júní hjó Styrmir út í loftið. Sagði ónafngreindan ráðherra Sjálfstæðisflokksins hringja í flokksmenn og hóta ef afstaða til orkupakkans væri honum ekki að skapi. Í sama vindhögginu sagði hann óbreytta þingmenn vera svefngengla.

Þar sem dylgjurnar virka ekki er farið í hræðsluáróður gagnvart forystufólkinu sem sumir kalla beinar hótanir. Segir Styrmir á heimasíðu sinni að afstaða þeirra til orkupakkans muni hafa slæmar pólitískar afleiðingar fyrir þau persónulega. Máli sínu til stuðnings vísar hann í óljósa grasrót sem ekki getur safnað undirskriftum fyrir neyðarfund. Það þarf nú ekki margar undirskriftir í það vinstrihandar verk. Afhverju ætli það sé?

Svarið er augljóst, hann Styrmir tilheyrir fámennum en háværum hóp sem nær ekki máli að teljast vera grasrót! Það er tímabært að þessi aldni meistari vindhögganna taki sönsum og hlusti á annað en sjálfs síns skjal og skrum.

Aldrei þessu vant þá fór ég í bæinn á Menningarnótt um miðjan dag. Þar tók ég og frítt föruneyti eftir Styrmi. Með honum í för var að okkur sýndist hin skæða Agnes Bragadóttir blaðakona á Mogganum. Við sem vorum saman ákváðum að skemmta okkar aðeins og fylgdumst með þessum Don Kíkótí Íslands úr fjarlægð í nokkuð langan tíma. Við héldum nefnilega að þetta væri skemmtiatriði á vegum borgarinnar.

Á endanum ráfaði hann og Agnes inn í lítð stræti milli Vallarstrætis og Veltusunds…

Ég ætlaði ekkert að segja frá þessu, en vegna þess að hann Styrmir heldur því fram á heimasíðu sinni að andstæðingar orkupakkans hafi verið um allan bæ að spjalla við fólk um þetta leiðinlega mál og að sama fólkið hafi upp til hópa verið mótfallið orkupakkanum þá skal eftirfarandi upplýst. Í fyrsta lagi, þá urðum við ekki var við að einn né neinn hafi nennt að ræða orkupakkann á þessum fallega degi. Nema það hafi verið inn í e-u skuggasundi þar sem Styrmir sjálfur króaði fólk af og neyddi til samtals. Í öðru lagi, þann tíma sem við fylgdumst með Styrmi þá talaði enginn við vindmylluhermanninn nema Agnes. Allir voru í góðu skapi í Miðbænum og veittu hinum óbrosandi Styrmi enga athygli. Á endanum ráfaði hann og Agnes inn í lítð stræti milli Vallarstrætis og Veltusunds þar sem þau skoðuðu uppdrætti af húsum sem er verið að byggja á Landsímareitnum. Við ákváðum að brosa með öllum hinum og snérum annað. 

Fólk getur dregið sýnar ályktanir um trúverðugleika frásagnar Styrmis. Það kæmi mér ekki á óvart miðað við hans málflutning í orkupakkamálinu að hann sé endanlega búinn að yfirgefa sannleikann.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: