
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Svo er það hitt að hún er fyrrverandi aðstoðarmaður fjármálaráðherra og á að vita að spítalinn hefur búið við vanfjármögnun í áraraðir.

Svanhildur Hólm hjá Viðskiptaráði var með yfirlæti í Silfri helgarinnar. Sagðist vilja vita hvað hefði breyst á Landspítalanum frá því svínaflensan geisaði fyrir 12 árum og þá átti spítalinn ekki í vandræðum með faraldurinn. Orðrétt sagði hún „En núna í hvert sinn sem að smitum fjölgar örlítið þá fer allt í baklás og farið að benda að hér verði komið á einhverju neyðarstigi“. Farsóttarnefnd Landsspítalans átti ekki í neinum erfiðleikum með að svara vandlætingu Svanhildar samanber hér að neðan. Svanhildur hefði betur kynnt sér málið áður en hún settist á háhest í sjónvarpi allra landsmanna. Svo er það hitt að hún er fyrrverandi aðstoðarmaður fjármálaráðherra og á að vita að spítalinn hefur búið við vanfjármögnun í áraraðir.
„Hvers vegna þessir faraldrar eru bornir saman er óljóst enda ólíku saman að jafna. Fjölmargt kemur þar til en þó eru eftirtaldir þættir augljósastir og á flestra vitorði sem til málanna þekkja.“:
- COVID-19 hefur staðið í 20 mánuði en faraldur svínaflensunnar var viðfangsefni á Landspítala í 75 daga.
- Svínaflensa er inflúensa sem er vel þekktur sjúkdómur en COVID-19 er nýr og áður óþekktur sjúkdómur.
- Bólusetning við svínaflensu hófst strax með góðum árangri en bólusetningar við COVID-19 hófust tæpu ári eftir að faraldurinn hófst og árangurinn er ekki jafn góður af þeim bólusetningum.
- Við svínaflensu var unnt að nota veirulyfið Tamiflu sem dró úr veikindum og kom jafnvel í veg fyrir þau. Slík lyf eru ekki fáanleg við COVID-19.
- Í svínaflensufaraldrinum lögðust um 130 sjúklingar inn á spítalann og þurftu 21 gjörgæslumeðferð. Það sem af er COVID-19 faraldri hafa 492 sjúklingar lagst inn á Landspítala og 87 þeirra þurft gjörgæslumeðferð, sumir oftar en einu sinni.
- Áhrif svínaflensunnar á samfélagið voru mun minna en COVID-19, þar sem ekki þurfti að beita rakningu, einangrun og sóttkví. Þessi staðreynd hefur umtalsverð áhrif á starfsemi Landspítala nú.
- Árið 2009 voru ríflega 900 rúm á Landspítala (285/100.000 íbúa)og 18 gjörgæslurými. Þau eru nú rúm 640 (175/100.000 íbúa)og gjörgæslurýmin 14.
- Ekki er rétt munað að ekki hafi þurft að fara í sérstakar ráðstafanir á Landspítala vegna svínaflensunnar. Starfsemi spítalans tók þeim breytingum þá sem nauðsynlegt var í farsótt eins og nú en þær stóðu aðeins yfir í fáeinar vikur, sem kann að skýra að einhverjir muni ekki þá alvarlegu stöðu sem uppi var á þeim tíma.