- Advertisement -

Sveltistefnan hrunin

Úrelt efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar mun verða þjóðarbúinu dýrkeypt.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Í mörgum pistlum hér á Miðjunni þá hef ég sett fram málefnalega og hvassa gagnrýni á hagstjórnina. Sér í lagi í veirufaraldrinum. Það var ekki til vinsælda fallið hjá ýmsum. Rétttrúnaðurinn sagði víst að ekki mætti rugga bátnum, höggva skarð í samstöðu þjóðarinnar á fordæmalausum tímum. Réttmæt gagnrýnin var aftur á móti sett fram í von um að það næði eyrum stjórnvalda svo hægt yrði að beygja af rangri leið. Það mistókst.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Áhyggjur mínar snéru einkum að því að sérhagmunagæsla ríkisstjórnar Katrínu Jak myndi kosta okkur aukna verðbólgu, langvinnt atvinnuleysi og að lengri tíma tæki fyrir hagkerfið að ná fyrri stöðu. Nú er svo komið að verðbólga og atvinnuleysi er miklu meira á Íslandi en allt í kringum okkur. Við bætist að OECD, Efnahags- og framfarastofnunin, spáir að það muni taka Ísland mun lengri tíma að ná slagkrafti sínum til baka en önnur þróuð hagkerfi. Eða 45 mánuði frá upphafi faraldursins samanber myndin.

Ég hef tíðum vísað til myndarlegra efnahagsaðgerða bandarískra stjórnvalda, en OECD spáir að það taki Bandaríkin aðeins 18 mánuði að ná fyrri skriðþunga. Rétt fyrir ofan eru frændur okkar á Norðurlöndum. Sérstaka athygli mína vekur síðan árangur Nýja Sjálands samanber græna súlan á myndinni. Áætlað er að það taki eyjuna aðeins 24 mánuði að jafna sig efnahagslega. Ég nefni Nýja Sjáland vegna líkinda hagkerfisins við það íslenska. Úrelt efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar mun verða þjóðarbúinu dýrkeypt ef ekki verður snúið á rétta braut. Verið er að draga ofureymdina á langinn. Um þessa óstefnu verður kosið í haust.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: