- Advertisement -

Svikalogn

Jóhann Þorvarðarson:

Fremstur allra í sofandahættinum er þó sjálfur fjármálaráðherra, sem reyndi í gær að selja þá hugmynd að verðbólgan á Íslandi væri í raun bara 5 prósent þegar hún er 10 prósent.


Ákveðinnar bjartsýni hefur gætt á hlutabréfa- og gjaldeyrismörkuðum beggja vegna Atlantsáls síðustu daga. Verð hafa farið hækkandi og dollarinn gefið eftir. Aðilar voru vongóðir um að verðbólga væri í rénum eða þar til í dag. Ný mæling verðbólgu í Bandaríkjunum segir að hún hafi lækkaði í 8,3%, en væntingar voru um að hún næði að fara í 8,1%.

Þegar kíkt er undir húddið þá kemur í ljós að undirliggjandi verðbólga er komin í 6,3 prósent á sama tíma og væntingar voru um lækkun niður í 5,9 prósent. Ekki var við manninn mælt og hrundu hlutabréfaverð með brestum þar vestra í dag og dollarinn sótti í sig veðrið gagnvart evrunni vegna áhættufælni. Aðal hlutabréfavísitalan í New York féll í dag um 4 prósent og NASDAQ vísitalan lækkað um 5,2 prósent. Hræringarnar eru ígildi mikilla jarðhræringa, ef ekki sprengigosa á sjávarbotni.

Ávöxtunarkrafa 10 ára ríkisskuldabréf tók stökk upp á við og stendur í rúmum 3,4 prósentum. Er krafan komin á sjaldgæfar slóðir enda búist við stórri stýrivaxtahækkun hjá Bandaríska Seðlabankanum innan tíðar. Slæmu tíðindin munu hafa keðjuverkun yfir heimsbyggðina.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Verði þetta raunin þá má búast við að stýrivextir heimsæki 10 prósentin.

Því miður hafa hagaðilar víðast hvar ranglega greint hversu rótföst og víðfeðm verðbólgan er á sama tíma og aðilarnir hafa vanmetið upprunann. Hafa jafnvel talað ástandið niður og skapað svikalogn.

Ísland hefur ekki farið varhluta af andvaraleysinu enda hafa bankar ítrekað sent frá sér ómarktækar greiningar. Fremstur allra í sofandahættinum er þó sjálfur fjármálaráðherra, sem reyndi í gær að selja þá hugmynd að verðbólgan á Íslandi væri í raun bara 5 prósent þegar hún er 10 prósent. Uppsöfnuð verðbólga frá upphafi heimsfaraldursins er síðan hvergi meiri en á Íslandi.

Sjálfur held ég mig við mína bólguspá og tel að stutt sé í að verðhækkanir mælist yfir 12 prósentum. Falli sá veggur þá er 18 prósent ársverðbólga orðin að brennidepli. Þá mun fjármálaráðherra líkast til segja að verðbreytingar séu aðeins 7 prósent og ástandið bara gott.

Verði þetta raunin þá má búast við að stýrivextir heimsæki 10 prósentin. Í miðju írafárinu þá er ljóst að stjórnvöld ráða ekki við ástandið.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: