- Advertisement -

Svindlar Elkem á skattinum?

…vegna ofangreindra atriða séu vaxtatekjur vantaldar um 4 milljarða á Íslandi.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Eigendakeðja Elkem á Íslandi rekur sig í gegnum Noreg, Luxemborg og á ská til Hong Kong. Eignarhaldið endar síðan í kínversku völundarhúsi.
Aðaleigandi norska fyrirtækisins Elkem ASA með meira en 58% hlut er Bluestar Elkem International. Lögheimilið er á lágskattasvæðinu Luxemborg án starfsemi í landinu. Fyrirtækið á sér systur og nánast alnöfnu sem heitir Bluestar Elkem Investment með lögheimili í Hong Kong. Endanlegur eigandi systranna er síðan China National Bluestar Group.

LuxLeaks og SwissLeaks opinberaði hvernig alþjóðafyrirtæki tóku skattlagningu í eigin hendur. Tóku beinlínis völdin af þjóðþingum. Með sýndarviðskiptum og sýndarlánum var hagnaði sveiflað til og frá þar til hann endaði á núllskattasvæði eða þar um bil. Upprunalönd verðmætasköpunarinnar stóðu uppi með stórlega skertar skatttekjur sem kallaði á niðurskurð til samfélagsmála. Tilflutningur hagnaðar varðar tröllvaxnar fjárhæðir, skrilljónir. Sumir kalla þetta mesta skattaþjófnað mannkynssögunnar.

Skuld við móðurina er á 9% vöxtum á meðan dóttirin í Hvalfirði lánar móðurinni á núll vöxtum.

Aðalvettvangur undanskotanna er Luxemborg. Þar er aðeins 1% skattur lagður á vaxtatekjur af sýndarlánum sem ganga með ákveðnum hætti fram og til baka innan sömu fyrirtækjakeðju. Það sama á við um hvar sölutekjur ákveðinna fyrirtækja eru skráðar og þar hefur Írland komið mikið við sögu. Þannig gátu alþjóðafyrirtæki fært hagnað yfir á lágskattasvæði til að lágmarka skattgreiðslur og jafnvel núlla þær úr bókum sínum.
Þegar ársreikningar Elkem á Íslandi eru skoðaðir koma athyglisverðir hlutir í ljós. Í reikningum er að finna lán í báðar áttir til móðurfélagsins Elkem ASA. Skuld við móðurina er á 9% vöxtum á meðan dóttirin í Hvalfirði lánar móðurinni á núll vöxtum. Þannig er hagnaður fluttur úr landi og skattgreiðslur lækkaðar.
Undanfarinn áratug hafa heimsvextir legið í og rétt yfir 0%. Þetta endurspeglaðist í nýloknu skuldabréfaútboði ríkisins þar sem skuldabréfalán fékkst með 0,122% vöxtum. Hér munar 74 falt á þeim vöxtum sem móðirin rukkar og það sem ríkið fær. Ekkert réttlætir þennan ógurlegar mun.

Rúllandi lán Elkem á Íslandi til tengdra aðila eru há. Að jafnaði hefur lánið numið 7,4 milljörðum á þessu 6 ára tímabili ef miðað er við 8 vikna greiðslufrest viðskiptakrafna. Í árslok 2017 voru viðskiptaskuldir komnar í 11 milljarða þegar árssala var rúmlega 16 milljarðar. Á ferðinni eru alls ekki venjubundnar viðskiptakröfur með fjögurra til tólf vikna greiðslufrest. Verður að líta á stóran hluta sem langtímalán í dulargervi viðskiptaskuldar. Eðlilegt er að lánið beri jafnháa vexti og móðirin krefur dótturina um eða 9%.

Sjálfur hef ég rýnt ársreikninga Elkem á Íslandi fyrir tímabilið 2012-2017. Niðurstaða mín er að vegna ofangreindra atriða séu vaxtatekjur vantaldar um 4 milljarða á Íslandi. Síðan má reikna sér það til að almenningur hafi orðið af 800 milljónum í skatttekjur án refsiálags frá skattinum. Með öllum refsiálögum togar fjárhæðin sig upp fyrir 1,2 milljarða. Allt eru þetta tekjur sem nota mátti í rekstur sjúkrahúsa eða til að lækka skatta á almenning svo dæmi sé nú tekið. Rök má færa fyrir því að hagurinn hafi á endanum skilað sér í völundarhúsið í Kína.

Ég vil ekkert fullyrða, en háttalag Elkem á Íslandi fer samkvæmt mínum skilningi gegn þremur grunnreglum skattaréttar.
Þetta háttalag Elkem hefur viðgengist í mörg ár og spurja verður hvort þetta sé með velvild og vitneskju skattrannsóknarstjóra?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: