- Advertisement -

Sviss í sérflokki, en af hverju?

Jóhann Þorvarðarson:

Leikáætlun bankans gekk ekki upp og hefur frankinn verið í samfelldum styrkingarham gagnvart evru síðan árið 2007 samanber myndin, með einni mikilvægri undantekningu þó.

Verðbólga í Sviss mældist 3 prósent í október samanborið við 10,7 prósent á evrusvæðinu. Nærfelldur fjórfaldur munurinn er skyndilegt rof á jákvæðri fylgni verðbólgu myntsvæðanna tveggja frá árinu 2010. Orsakirnar eru af þrennum toga.

Svissneski frankinn er þrautavaramynt og plumar sig ætíð vel í ófriði og alþjóðlegum erfiðleikum. Af þessum ástæðum hefur stefna Svissneska seðlabankans (SNB) verið að bjóða upp á núll eða neikvæða stýrivexti til að fæla frá ofstreymi erlends fjármagns inn í landið. Samhliða þá hefur bankinn verið tíður gestur á gjaldeyrismarkaði, sem kaupandi að evrum og bandarískum dollar. Tilgangurinn var að vinna gegn styrkingu frankans enda ógnaði hún samkeppnishæfni útflutningsgreina. Leikáætlun bankans gekk ekki upp og hefur frankinn verið í samfelldum styrkingarham gagnvart evru síðan árið 2007 samanber myndin, með einni mikilvægri undantekningu þó.

Í janúar árið 2015 þá breytti SNB um stefnu og hætti að verja tiltekið gengi frankans gagnvart evrunni. Við það styrktist frankinn um 17 prósent á svipstundu miðað við gengisskráningu Evrópska seðlabankans. Þetta gekk til baka á þremur árum, en frankinn hefur síðan árið 2018 styrkst um 20 prósent. Þó SNB hafi gert sitt til að vinna gegn styrkingu frankans þá sannast enn og aftur hið kunna að markaðurinn nær alltaf sínu fram að endingu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Skyndileg stefnubreyting varð hjá bankanum í júní á þessu ári þegar vextir voru óvænt hækkaðir.  Stýrivexti fóru úr -0,75 prósentum í -0.25 prósent.  Leikurinn var endurtekinn í september þegar bankinn hækkaði vexti um 0,75 prósentustig. Samhliða þessu þá tilkynnti bankinn að nú væri hægt að nota digran gjaldeyrisvarasjóðinn til að kaupa Svissneska franka. Umpólunin endurspeglar áhyggjur bankans að tamin verðbólgan geti farið á skrið ef ekki á stökk. Nú má víst frankinn bara styrkjast eins og enginn sé morgundagurinn. Síðan á þjóðhátíðardag Íslendinga þá hefur frankinn styrkst um 7 prósent þegar mest lét í lok september. Á sama tíma hefur verðbólga lækkað um 0,5 prósentustig.

Eins og með ranga skráningu íslensku krónunnar þá mun röng skráning svissneska frankans ekki gera annað en að tefja hið óumflýjanlega, sem er að verðbólgan ríður bara hægar og seinna yfir því allar myntir munu að endingu endurspegla efnahagslegan raunveruleika. Gjaldeyrisinngrip er ákveðin tegund af sjálfselsku því verðbólguvandanum er í raun hent yfir á axlir æskunnar. Inngripslönd eru tímabundið að flytja verðbólgu út til annarra landa. Það er skammgóður vermir. Svona hegðun getur framkallað gjaldeyrisstríð, sem stóru vestrænu hagkerfin sigra ætíð. Þannig að eigingirnin getur sprungið í andlit Svisslendinga.

Önnur orsök lágrar verðbólgu í Sviss á rætur að rekja til orkunotkunar landsins, en um 54 prósent orkunnar er annað en jarðeldsneyti. Þessu er öfugt farið á evrusvæðinu þar sem 60 prósent orkuneyslunnar er uppruninn í jarðeldsneyti. Þriðju orsökin tengjast síðan ólíku vægi ýmissa vara og þjónustu í vörukörfu Sviss við útreikning neysluverðsvísitölunnar. Orka fær til dæmis aðeins 3,5 prósent vægi á meðan vægið er 9,5 prósent í samræmdri vísitölu evrusvæðisins. Annar vöruflokkur sem hækkað hefur mikið í verði er matvara og fær hún 12,6 prósent vægi í Sviss á meðan vægið á evrusvæðinu er 21,8 prósent. Ég kann ekki aðrar skýringar á misræminu en að neysluvenjur Svisslendinga séu aðrar en hjá þjóðum evrusvæðisins.

Til lengri tíma litið og þegar verð á orku og matvælum tekur að lækka þá munu leikar jafnast því minna næmi Sviss gagnvart verðbreytingum þessarar tveggja vöruflokka virkar nefnilega í báðar áttir. Síðan mun veikari franki spila stórt hlutverk og þrýsta verðlagi í Sviss upp á við, jafnvel þó ekki komi til gjaldeyrisstríðs.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: