- Advertisement -

Svona færast milljarðarnir til sægreifa fyrirhafnarlaust

Allt hækkar þetta verðtryggðu lánin og færir enn meira fé frá skuldurum til lánara.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Bláa línan á myndinni og vinstri ásinn sýna þróun krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum frá upphafi árs 2019 og fram til loka ágúst mánaðar í ár. Því hærra sem bláa línan rís því veikari er krónan. Hún var stöðug í kringum 180 stig á mælikvarða gjaldeyrisvísitölunnar árið 2019, sem samsvarar 360 krónum á hvert kíló af slægðum þorski. Rauða línan og hægri ásinn sýna þetta jafnaðarverð þorskkílósins yfir tímabilið og byggir það á raungögnum. Lóðrétta svarta línan er síðan skurðpunktur við upphaf árs 2020 og markar upphaf á veikingu krónunnar. Vöxtur bláu línunnar á fyrstu 8 mánuðum ársins nemur 19 prósentum og var vísitalan komin í 212 stig.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Allt er þetta hið óeðlilegasta.

Út frá upplýsingum um þróun fiskverðs, magn útfluttra sjávarafurða og verðmæti útflutnings á fyrstu átta mánuðum áranna 2019 og 2020 er hægt að reikna út hvað vöxtur bláu línunnar mælist vera í milljörðum króna. Ef krónan hefði haldið velli í kringum 180 stig og fiskverð verið á sömu slóðum og í fyrra þá hefði útflutningur sjávarafurða á fyrstu átta mánuðum ársins gefið af sér rúma 173 milljarða króna í tekjur í stað rúmlega 196 milljarða. Hér munar 23 milljörðum og vaknar þá spurningin hvaðan auka milljarðarnir koma. Skoðun sýnir að 3 prósent tekjuaukans er vegna verðhækkana, en 97 prósent kemur frá veikari krónu. Það gera rúmlega 22 milljarða króna. Yfir allt árið þá eru fjárhæðirnar mun hærri. Og ef allt hagkerfið væri skoðað á þennan hátt þá væri tilflutningurinn frá neytendum 230 milljarða króna á ársgrundvelli miðað við umsvif efnahagsins í fyrra.  

Peningarnir detta ekki af himnum ofan, heldur koma úr vösum neytenda eins og sagði. Þeir borga fleiri krónur fyrir innfluttar vörur og fyrirtæki meira fyrir innflutt aðföng. Sjávarútvegurinn fær síðan fleiri krónur fyrir erlenda fisksölu. Millifærslan er engin tilviljun heldur afleiðingin af meðvitaðri ákvörðun Seðlabanka Íslands og ríkisstjórnarinnar um að veikja krónuna. Verið er að mylja undir sægreifa og aðra aðila sem hagnast á veikingunni. Um leið er grafið undan efnahagslegum stöðugleika, kjarasamningum og samkeppnishæfni landsins til lengri tíma litið. Umsamdar launahækkanir hafa rýrnað vegna hærri verðbólgu, sem stefnir í 4,4 prósent. Allt hækkar þetta verðtryggðu lánin og færir enn meira fé frá skuldurum til lánara.

Samtök atvinnulífsins vilja meira svona samanber grein mín Grá forneskja í Borgartúni 35“. Það getur ekki verið öfundsvert hlutverk launþegahreyfingarinnar að berjast við ósýnilegan skratta sem veiking krónunnar er. Ráðandi útflutningsöfl innan samtakanna panta bara veikari krónu ef þau fá ekki þóknanlega kjarasamninga og beita einkafjölmiðlum hiklaust fyrir vagninn. Allt er þetta hið óeðlilegasta. Áhrifin af veikari krónu og vaxandi verðbólgu vætlar hægt og sígandi inn frá öllum hliðum og spái ég að ef fram fer sem horfir þá muni krónan verða kosningamál að ári liðnu. Það er æskilegt að svo verði vegna þess að veikingin er ekki einungis slæm fyrir hagkerfið heldur leiðir hún til aukinnar misskiptingar í samfélaginu. Eitthvað sem er slæmt fyrir heilbrigðan hagvöxt og traust samfélag. Því er nauðsynlegt að ræða málefnalega aðra skipan á gjaldmiðilsmálum þjóðarinnar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: