- Advertisement -

Svona gerðist það

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Á einu ári vex mánaðarlegur fjöldi kaupsamninga um 86 prósent eins og sýnt er á myndinni. Það samsvara um 11 þúsund kaupsamningum eða 917 samningum á mánuði í hreinan vöxt. Það var gósentíð hjá fasteignasölum.

Myndin sýnir þróun í fjölda kaupsamninga á fasteignamarkaði árið 2019 og til ágústloka 2021. Fram að lóðréttu línunni þá er markaðurinn stöðugur, bláa línan nokkuð flöt. Lóðrétta línan endurspeglar síðan 18. mars 2020 þegar Seðlabanki Íslands ákvað á einni nóttu að afnema allan sveiflujöfnunarauka vegna yfirreiðar kóvít-19. Útlánageta bankanna var aukin um 12,5 prósent aðeins örfáum vikum eftir að aukinn var hækkaður. Þetta samsvarar 350 milljarða króna innspýtingu sem kom samhliða sögulega lágum stýrivöxtum.

Fyrstu tvo mánuðina á eftir þá dragast umsvif fasteignamarkaðarins saman, en þegar byrjað er að slaka á sóttvörnum innanlands og bankastofnanir farnar að átta sig betur á nýfengnu fé hefst sögufrægt geimflug. Á einu ári vex mánaðarlegur fjöldi kaupsamninga um 86 prósent eins og sýnt er á myndinni. Það samsvara um 11 þúsund kaupsamningum eða 917 samningum á mánuði í hreinan vöxt. Það var gósentíð hjá fasteignasölum. Skálað var í bleikt kampavín enda sala þess ekki meiri síðan fyrir fjármálahrun.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Seðlabankinn hefur ekki gengist við eigin hagstjórnarmistökum.

Með aðgerðum Seðlabanka þá lækkaði greiðslubyrði nýrra lána að jafnaði um 30 prósent samhliða auknu aðgengi að lánsfjármagni. Hver sem vill getur séð það í hendi sér að verð á fasteignamarkaði gat ekki annað en rokið upp við ríkjandi aðstæður og hefur það staðið undir helmingi verðbólgunnar. Aðgerðir Seðlabankans komu ofan í þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að heimila skattfrjálsa notkun séreignasparnaðar og taka upp hlutdeildarlán fyrstu íbúðarkaupenda. Heimahristur kokteillinn er ástæða þess að verðbólgan er hærri en víðast annars staðar í kringum okkur eða 4,4 prósent. Á sama tíma er bólgan ekki nema 2,2 prósent í Danmörku.

Seðlabankinn hefur ekki gengist við eigin hagstjórnarmistökum. Þess í stað hefur seðlabankastjóri ítrekað reynt að skella skuldinni á Reykjavíkurborg. Sagt hana ekki brjóta upp nægilega mikið byggingarland. Framkvæmdastjóri umsvifamikils byggingafyrirtækis hafnar þessu í nýlegu blaðaviðtali. Segir lóðaframboð viðunandi og hafi verið síðustu misseri.

Samkvæmt Húsnæðis og mannvirkjastofnun (HMS) og Hagstofunni þá var óuppfyllt íbúðaþörf á landinu öllu á bilinu 3.200 til 4.850 íbúðir í upphafi árs. Í fröken Reykjavík einni þá eru 3.500 lóðir tilbúnar undir byggingarframkvæmdir, en verktakar halda að sér höndum. Síðan segja sömu opinberu aðilar að fram til ársins 2040 sé þörfin á nýjum íbúðum að meðaltali 1.900 íbúðir á ári. Í samhenginu þá hefur seðlabankastjóri aldrei orð á því að Kópavogsbær búi við mikinn lóðaskort eða það að fjármálaráðherra hefur haldið að sér höndum með Keldnalandið um langt árabil í einhverju stríði við meirihluta borgarinnar. Þannig að árásir seðlabankastjóra á borgina eru farnar að líkjast ómálefnalegu einelti Sjálfstæðisflokks og Vigdísar Hauksdóttur.

Þegar maður skoðar greiningar og spár HMS og Hagstofunnar á óuppfylltri íbúðaþörf þá var offramboð á húsnæði eftir fjármálahrun og fram til ársins 2016 þegar jafnvægi komst á. Síðan þá hefur byggst upp umfram eftirspurn. Í þessu sambandi þá má ekki gleyma leigu á Airbnb íbúðum og fjölgun íbúa sem hvoru tveggja ýtti undir aukna íbúðaþörf. Þegar fór um að hægjast ásamt uppgufun Airbnb markaðarins og yfirreiðar kóvít-19 þá breyttust aðstæður hratt. Ýmsir seldu sínar íbúðir sem hugsaðar voru fyrir skammtímaleigu til ferðamanna enda tekjugrundvöllurinn horfinn. Þetta allt hefur minnkað íbúðaþörfina um 2.000 íbúðir undanfarin tvö ár.

Gylfi Zoëga.
Það er því ánægjulegt að sjá Gylfi Zoëga meðlim peningastefnunefndar Seðlabankans stíga nú fram og lýsa því yfir að verðhækkanir á fasteignamarkaði séu ákvörðunum bankans að kenna.

Um 60 prósent fjölgunarinnar eru erlendir ríkisborgarar sem tengjast að miklu leyti sveiflukenndri ferðamennsku og byggingariðnaði. Ekki er útilokað að hluti erlenda vinnuaflsins hafi ákveðið að snúa aftur heim því íbúðaþörfin minnkaði hratt eins og sagði. Efnahagsþróunin undanfarin ár er ekki á ábyrgð Reykjavíkurborgar. Hér er heldur ekki um séríslenskt fyrirbrigði að ræða. Ábyrgðin á hárri íslenskri verðbólgu verður aftur á móti aldrei tekin af Seðlabanka Íslands því bankinn tók rangar ákvarðanir sem byggði á vitlausu stöðumati. Seðlabankastjóri verður einfaldlega að horfast í augu við staðreyndir. Sama var upp á teningnum eftir fjármálahrunið þegar enginn gekkst við hroðanum. Þá var víst allt útlendingum að kenna.

Það er því ánægjulegt að sjá Gylfi Zoëga meðlim peningastefnunefndar Seðlabankans stíga nú fram og lýsa því yfir að verðhækkanir á fasteignamarkaði séu ákvörðunum bankans að kenna. Syng ég nú ekki lengur einsöng í gagnrýni minni. Hvað ætli seðlabankastjóri segi núna? Ég hygg að útskýringar hans verði af sama sauðahúsinu og þegar hann sagði 6 sekúndur í fjármálahrun að hlutirnir væru að lagast. Seðlabankastjóri var skipaður af Katrínu Jak.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: