Greinar

Svört skýrsla um áhrif verðtryggingar fæst ekki birt

By Aðsendar greinar

November 22, 2022

Hagsmunasamtök heimilanna:

Þingmaður Flokks fólksins vitnaði í svarta skýrslu sem ekki hefur fengist birt, í ræðu sinni á Alþingi í gær.

Umrædd skýrsla var skrifuð af Dr. Ólafi Margeirssyni hagfræðingi og Jacky Mallett, lektor við Háskólann í Reykjavík, samkvæmt beiðni tólf þingmanna úr fimm flokkum. Þau skiluðu skýrslunni til félagsmálaráðuneytisins í júní í fyrra en hún hefur ekki enn fengist birt, þrátt fyrir ítrekaða eftirgrennslan Hagsmunasamtaka heimilanna.

Þingmanninn Ásthildi Lóu Þórsdóttur, sem einnig er formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, þraut þolinmæðin í gær og ákvað hún að kunngjöra tilvist skýrslunnar og vitna í kafla hennar um áhrif verðtryggingarinnar á heimilin og hagkerfið.

Samkvæmt því sem Ásthildur Lóa sagði í ræðu sinni er ljóst að skýrslan er óþægileg fyrir stjórnvöld sem hafa varið verðtryggingu á lánum heimilanna með kjafti og klóm, þrátt fyrir loforð um annað.

Einnig mælti þingmaðurinn fyrir rétti neytenda til að breyta úr verðtryggðum lánum í óverðtryggð en í þeirri ræðu komu fram sláandi niðurstöður sem sýna svart á hvítu hve mikil áhrif 3,4% hækkun verðbólgu frá ársbyrjun hefur haft á verðtryggð lán.

Almenningur á rétt á að sjá þessa skýrslu, ekki síst þegar litið er til þess hvernig fjármála- og efnahagsráðherra hefur ítrekað vísað til verðtryggðra lána sem „lausnar“ fyrir lántakendur sem ekki ráða við gríðarlegar vaxtahækkanir undanfarinna mánaða.

Þau eru ekki lausn, heldur gildra!