- Advertisement -

Svörtuloft sokkin í sæ og ríkisstjórnin með

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Sú uppsafnaða umfram verðbólga frá því í ágúst 2019 sem ríkir á Íslandi í samanburði við önnur Norðurlönd og víðar er beint rakin til mistaka Seðlabanka Íslands. Hjá því er ekki hægt að líta og er birtingarmyndin skýrust þegar horft er til verðhækkana á fasteignamarkaði. Öflugir fjárfestar og byggingaraðilar spila inn á mistökin og halda stórum byggingarlóðum í gíslingu og fara sér hægt. Byggja eftir eigin þörfum og stýra fasteignaverði upp á við til að gulltryggja eigin gróða. Fyrir vikið þá hefur Seðlabankinn tapað trúverðugleikanum. 

Í stað þess að axla ábyrgð og hleypa nýju fólki að bankanum þá hella stjórnendur hans olíu á verðbólgubálið með því að hækka stýrivexti ítrekað og snarlega. Hóta síðan að hella enn meiri olíu á bálið. Að sögn bankans þá er vaxtahækkunum fyrst og síðast ætlað að slá á verðhækkanir fasteigna, en við núverandi aðstæður þá mun þetta auka á vandann. Fjárfestar og byggingaraðilar munu bregðast við með því að hægja á nýbyggingum og það leiðir til enn meiri verðþrýstings upp á við og vegur á móti vaxtahækkunum. Stöðumat bankans er enn og aftur rangt. Hræðilega rangt.

Ef við lítum eingöngu til 12 mánaða verðbólgu þá er Ísland ekki í miklum sérflokki með 7,2% bólgu og ekki heldur hvað verðbólguvæntingar varðar. Samt eru stýrivextir á Ísland langtum hærri en þekkist allt í kringum okkur og á Nýja Sjálandi samanber myndin. Bláa súlan endurspeglar ríkjandi verðbólgu og sú gula stýrivextina. Þið sjáið að hlutfallið milli verðbólgu og vaxta er tæplega tvöfalt á Íslandi á meðan það er sexfalt í Noregi, fimmfalt á Nýja Sjálandi og tæplega tuttugu og fimmfalt í Svíþjóð. 

Þú gætir haft áhuga á þessum

Seðlabankinn og ríkisstjórn Íslands heykjast á að gangast við hinum raunverulega vanda og svara spurningunni af hverju Ísland þarf að bera miklu hærri vaxtabyrði en aðrar þjóðir. Til viðbótar hagstjórnarmistökum Seðlabankans þá skortir krónuna einfaldlega trúverðugleika og smæð hennar veldur að litlar fjármagnshreyfingar leiða til mikilla breytinga á genginu. 

Hækkandi vöxtum er ekki eingöngu ætlað að slá á verðbólguna heldur einnig að laða að erlent fjármagn því aukin verðbólga veikir gengi krónunnar. Almenningur og fyrirtæki eru þannig að greiða erlendum aðilum aukinn gróða í gegnum háa íslenska vexti og um leið halda uppi fölsku gengi. Íslenskar ráðstöfunartekjur lækka fyrir vikið og má í raun segja að Íslendingar séu að þræla sér út fyrir erlenda aðila og mistök Seðlabankans.    

Mikilvægt er að ný ríkisstjórn taki við völdum og að sigurstranglegt landslið verði valið til að stjórna Seðlabankanum. Aðeins þannig er hægt að endurreisa trúverðugleika bankans. Samhliða þá verður ný ríkisstjórn að taka höndum saman með sveitastjórnum og leggja til nýtt byggingarland. Fara þarf í stórt átaksverkefni um nýbyggingar því við erum að horfa á alvarlegan markaðsbrest. Ef ekki, þá mun það bitna á hagvexti framtíðarinnar og atvinnuleysi vaxa. Það er nefnilega svo að grundvöllur sjálfbærs hagvaxtar er hreyfanleiki vinnuafls, en húsnæðisskortur vinnur gegn hreyfanleikanum. Atvinnutækifærin fara þá einfaldlega úr landi ef málið verður ekki leyst með hraði. Núverandi ríkisstjórn hefur mistekist hrapalega. Og hér er enginn stöðugleiki þrátt fyrir falskar yfirlýsingar fjármálaráðherra þar um.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: