- Advertisement -

Það sér í botn bankabókar Icelandair

Neytendur hafa eftir allt saman val um það með hverjum er flogið!

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Lausafjárhlutfall Icelandair hefur hrakað um 44 prósent frá árinu 2015 samanber meðfylgjandi mynd. Í lok júní þá stóð hlutfallið í 0,4. Það þýðir að ef til rekstrarstöðvunar kæmi þá gæti  fyrirtækið eingöngu greitt 40 prósent af skammtímaskuldum án þess að selja langtíma eignir. Ef ekki hefði komið til greiðslu vegna sölu á 75 prósent hlut í Icelandair Hotels upp á 6,3 milljarða, miðað við gengi dollars í lok júní, þá hefði lausafjárhlutfallið verið aðeins 0,33. Ég læt vera að meta þær bætur sem Icelandair hefur fengið frá Boeing verksmiðjunum vegna Max 737 vélanna því ársreikningur fyrir árið 2019 eða milliuppgjör yfirstandandi árs upplýsa ekki hvernig bæturnar greiðast inn. Þetta er óglöggt nema mér hafi yfirsést. Ég vil samt láta þess getið að um einskiptigreiðslu er að ræða upp á 100 milljónir dollarar. Forráðamenn Icelandair vonast þó til að fá auknar bætur síðar, en sú von er meira svona fugl í skógi. Á árinu 2019 þá gaf fyrirtækið út nýtt hlutafé fyrir 5,5 milljarða króna á gengi þess tíma. Þannig að núverandi sjóðsstaða er að myndarlegum hluta fé sem kemur ekki frá rekstri. Ástandið er því afar óburðugt. Til að gæta að sanngirni þá má búast við að þetta hlutfall batni yfir tímabilið frá júlí til loka september eins og gerist árlega. Batinn verður þó væntanlega hlutfallslega minni en oft áður vegna ástandsins í veiruheimum. Svo kemur veturinn og hlutfallinu hraka aftur.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þessi erfiða staða sýnir sig vel í afkomutölum Icelandair Group fyrir sama árabil. Uppsafnað tap áranna mælist vera 29 milljarðar á gengi dollars við lok júní síðastliðinn. Þetta er svo til sama upphæð og Icelandair Group stefnir á að safna í komandi hlutafjárútboði. Sem sagt, nýju hlutafé er ætlað að borga upp uppsafnað tap undanfarið fimm og hálft ár.

Ég hef í annarri grein sýnt fram á að eigið fé Icelandair Group sé í námunda við 6 prósent af allri fjármögnun samanber þetta hér Icelandair Group með loftfimleika. Eigið fé gæti jafnvel verið neikvætt þar sem virði flugvéla og hótela í heiminum hefur bæði lækkað og seljanleiki er annar en fyrir Covid-19. Flugvellir heimsins er fullir af ónotuðum flugvélum og hótel illa nýtt nú um stundir. Þannig að óvissa ríkir um verðmæti helstu langtíma eigna Icelandair. Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að forráðamenn Icelandair hafa ekki það úrræði að selja frá sér langtíma eignir til að forðast gjaldþrot nema þá á niðursettu verði. Í góðærinu þá tók það til dæmis um tvö til þrjú ár að að selja lungann frá sér af Icelandair Hotels.

Síðan eru það Max 737 vélarnar, sem Icelandair á nóg af. Þær eru sérstakt verkefni. Hér þarf ekki einungis að gera vélarnar öruggar og koma í loftið heldur þarf að ávinna tiltrú neytenda. Á endanum þá eru það neytendur sem ráða örlögum Max vélanna. Ég er ansi hræddur um að neytendur verði ekki í löngum röðum eftir því að fljúga með Max vélum. Þessi skortur á tiltrú neytenda mun nýtast keppinautum sem fljúga Airbus flugvélum. Þannig að það er ekki auðvelt viðfangs fyrir Icelandair að fá neytendur til að fljúga með Max 737 vélunum. Neytendur hafa eftir allt saman val um það með hverjum er flogið! Framkoma félagsins í garð Flugfreyjufélags Íslands hefur síðan væntanlega dregið úr hollustu landans gagnvart Icelandair. Að síðustu þá er það óvissan með ferðavilja neytenda almennt til næstu ára vegna veirunnar.

Það er svo sem ekki allt á erfiðu hliðina fyrir Icelandair. Lánardrottnar gera sér vel grein fyrir því að helstu eignum félagsins verður ekki auðveldlega komið í verð annars staðar. Viðkomandi hafa því tvo kosti. Annað hvort að lengja vel í gjalddögum langra lána eða gerast hluthafar. Ég hygg að síðari kosturinn sé miklu raunhæfari og hyggilegri. Þetta kemur allt fljótlega í ljós, en það er næsta víst að áhættan og óvissan hefur aldrei verið meiri í fluggeiranum og ferðaþjónustu almennt. Þetta þurfa stjórnvöld að hafa hugfast áður en stórar ákvarðanir eru teknar!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: