Greinar

Það verður nóg að gera þegar þessi ríkisstjórn fer frá völdum

By Ritstjórn

November 26, 2020

Ágúst Ólafur Ágústsson skrifar:

Í gærkvöldi var birt fjáraukafrumvarp upp á 65 milljarða kr. en fjárauki á að dekka óvænt útgjöld. Há tala en hér er ég aðeins búinn að brjóta hana upp:

  1. Um helmingur af þessari upphæð er vegna atvinnuleysisbóta. Fólk á rétt á atvinnuleysisbótum og ef atvinnuleysi er í methæðum þá verður heildarupphæð atvinnuleysisbóta há. Þess vegna var það afar furðulegt þegar félagsmálaráðherra virtist stæra sig af því að engin ríkisstjórn hefði sett jafnmikið í atvinnuleysisbætur og þessi. Þessi röksemdarfærsla er svipuð og ef forstjóri Landspítalans færi allt í einu að stæra sig af fjölda veikra sjúklinga sem merki um árangur.
  2. Einn þriðji af heildarupphæð fjáraukans er vegna tekjufallsstyrkja til fyrirtækja. Gott og vel, en ágætt er að rifja upp að við lögðum fram slíka styrki, og takið eftir…í apríl, en stjórnarflokkarnir felldu þá tillögu.
  3. Þess vegna má rekja um 80% af þessari heildarupphæð til þessara tveggja aðgerða (atvinnuleysisbætur sem bólgna út vegna aukins atvinnuleysis því atvinnusköpun hins opinbera er m.a. of lítil og til tekjufallstyrkja sem við lögðum til fyrir langalöngu).
  4. Þá er bættur í fjáraukanum að hluta til sá kostnaður sem sjúkrahús og skólar urðu fyrir vegna Covid. Gott og vel, en hvað með þann Covid kostnað sem hjúkrunarheimili hafa orðið fyrir? Eða SÁÁ? Eða hjálparsamtök, Geðhjálp og annarra sambærilegra aðila? Þessar aðilar virðast ekki fá neitt hér.
  5. Í þessum fjárauka fá sveitarfélög landsins 2,1 milljarð til að veita þeim „fjárhagslega viðspyrnu“ eins og það kallast. Þetta er eitthvað grín, held ég, enda hafa sveitarfélögin áætlað þörfina vera 50 milljarða á þessu ári og því næsta.
  6. Enn og aftur, er augljóst að stjórnin virðist helst gera eins lítið og hún kemst upp með. Í 100 djúpri kreppu þarf fjárfestingarátak að vera meira en 1% af landsframleiðslu en það er „átakið“ sem finna má í næstu fjárlögum (85% af störfum sem verða til lenda hjá körlum að mati ríkisstjórnarinnar sjálfrar).Flýting framkvæmdarverkefna á þessu ári voru 0,6% af landsframleiðslu. Viðbótin í nýsköpun á næsta ári verður 0,3% af landsframleiðslu og 0,1% í umhverfismálin. Sérstakar aðgerðir fyrir heimilin sjást vart í þessum tölum. Jæja, það verður nóg að gera þegar þessi ríkisstjórn fer frá völdum og við myndum ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokksins.