- Advertisement -

Þegar fíflunum fjölgar, þá hvað?

Hér ræðst hann bæði að fólki og samtökum og segir það aldrei bregðast vondum málstað.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Það hefur löngum verið sagt að þegar fíflunum fjölgar í kringum mann að þá þurfi viðkomandi að líta í eigin barm, hugsa málin betur. Jafnvel, bara að byrja á því að hugsa. Einn slíkur skrifar reglulega leiðara í áróðurspésa Helga Magnússonar. Í dag þá er leigupenninn Hörður Ægisson mættur með skítadreifarann. Mokar hann yfir þá sem ekki deila með honum skoðun á sölunni á eignarhlut í Íslandsbanka. Kallar hann skoðanir þeirra heimskulegar, hættulegar og ósvífnar. Segir hann þá sem eru honum ósammála vera dragbíta án þess að útskýra hvað hann á við. Hér ræðst hann bæði að fólki og samtökum og segir það aldrei bregðast vondum málstað. Getur verið að fíflin í kringum Hörð séu orðin of mörg?

Sjálfur rökstyður hann ekki sína eigin skoðun umfram það að við eigum víst að búa í öðrum heimi en fyrir 10-12 árum, allt væri svo öruggt. Þessu var einnig haldið fram fyrir einkavinavæðingu bankanna í upphafi aldarinnar. Hörður lætur alveg hjá líða að fjalla um að hér á landi hefur ríkt fjármálastöðugleiki, sem án alls vafa hefur lagt hornsteininn að efnahagslegri endurreisn landsins frá fjármálahruni. Árangurinn náðist þrátt fyrir eignarhald ríkisins. Tiltrú almennings til fjármálakerfisins er vaxandi þó enn sé langt í land. Þrátt fyrir ávinning umliðinna ára þá vill Hörður fara í spretthlaup við að selja hlut í bankanum frekar en að kjósa um það í haust að vel íhuguðu máli. Hans rök eru „af því bara“.

Þar hefur samkeppni banka milli landa stóraukist.

Hann slettir fram þeirri fullyrðingu að önnur Evrópu ríki hafi fyrir löngu hafið þá vegferð að losa um eignarhlut í sínum bönkum. Í þessu samhengi þá fjallar hann ekki um að víðast erlendis þá ríkir alvöru samkeppni á bankamarkaði ólíkt íslensku fákeppninni. Þetta á alveg sérstaklega við um banka sem starfa innan evrusvæðisins. Þar hefur samkeppni banka milli landa stóraukist. Síðan sleppir hann einnig að fjalla um að víða nýtti ríkisvaldið tækifærið til að endurskipuleggja banka í opinberri eigu. Má til dæmis nefna Royal Bank of Scotland, en ríkið á í dag, ef ég man rétt, yfir 62 prósent hlut í fyrirtækinu. Markvisst hefur verið unnið að því að minnka bankann til að efla samkeppnina og draga úr kerfisáhættu. Undanfarin tvö ár hefur viðskiptavinum bankans til dæmis verið boðnar myndarlegar fjárgreiðslur ef þeir færa viðskipti sín annað. Áætlun breska ríkisins um að losa um eignarhlut sinn einkennist síðan af langtímahugsun og er ætlunin að losa um eignarhlutinn á löngu tímabili eða allt til ársins 2024. Þar í landi þá láta menn ekki kosningar trufla ferlið. Fólkið fær að tjá sig og hefur gert það nú þegar í nokkrum kosningum. Á Íslandi þá einkennir æðibunugangur allar fyrirætlanir til að koma í veg fyrir að landsmenn fái að segja hug sinn í kosningunum í haust.

Svo ég taki annað dæmi þá ríkir mikil samkeppni á bankamarkaði í Þýskalandi og eru svæðisbundnir sparisjóðir og samvinnubankar sterkir í öllum landshlutum. Stóru bankarnir tveir, Commerzbank og Deutsche bank, eru í vandræðum vegna glórulausrar áhættusækni. Í dag þá á þýska ríkið 15 prósent hlut í Commerzbank og ekki fyrirséð í náinni framtíð að hægt verði að losa um hlutinn. Þar óttast menn að það geti laðað fram áhlaup á bankann hjá viðskiptavinum. Hörður á allt undir sínum yfirboðurum, hann er leigupenni eins og sagði. Og talandi um yfirboðara þá er ritstjóri Fréttablaðsins hann Jón Þórisson. Hann stýrði VBS fjárfestingabanka sem fór á skallann þrátt fyrir að hafa fengið 26 milljarða króna neyðarlán frá íslenska ríkinu. Fréttablaðið er ekki marktækt né málefnalegt!    


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: