- Advertisement -

Þegar Kári Stefánsson ruglar saman orsök og afleiðingu

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Skuldir stökkbreyttust, fjölskyldur misstu heimilin, verðbólga rauk yfir 18 prósent, hagvöxtur sunkaði, atvinnuleysi Vinnumálastofnunar fór yfir 9 prósent, grunnvextir seðlabanka þutu upp í 18 prósentin og erlend greiðslumiðlun stöðvaðist.

Sósíalistinn Kári Stefánsson hefur reynst Íslandi betur en enginn á Kóvít-19 tímum. Í raun leiddi hann þjóðina áfram í upphafi faraldursins þegar Katrín forsætisráðherra taldi mikilvægara að fara í sumarfrí en taka aðkallandi ákvarðanir. Hann á það þó til að tala hraðar en hann hugsar og er hann býsna frár í kollinum. Á dögunum þá sagði hann orðrétt í viðtali við Stundina „Ég vil endilega að við séum áfram með krónuna, sem mér þykir vænt um. Ég held að hún sé ein af ástæðunum fyrir að við komum betur út úr hruninu árið 2007 (á við árið 2008) en ella. Kári ályktar ranglega og ruglar saman orsök og afleiðingu.

Krónan er meginástæða þess að hér fór flest á verri veg í fjármálahruninu en hjá samanburðarlöndum. Krónuna skortir nefnilega alþjóðlegan trúverðugleika og féll hún því með braki og bresti. Skuldir stökkbreyttust, fjölskyldur misstu heimilin, verðbólga rauk yfir 18 prósent, hagvöxtur sunkaði, atvinnuleysi Vinnumálastofnunar fór yfir 9 prósent, grunnvextir seðlabanka þutu upp í 18 prósentin og erlend greiðslumiðlun stöðvaðist. Alþjóða samfélagið vildi ekki eiga viðskipti með krónuna. Að lokum veitti Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn Íslandi risavaxið neyðarlán, tók landið í gjörgæslu og setti í fjárhagslega sóttkví. Hér hjálpaði einnig langvarandi óstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Margir eru enn að þræla sér út úr skaðanum.

Gjaldmiðill hefur ekkert með væntumþykju að gera heldur getu til að geyma kaupmátt og auðvelda hagkvæm viðskipti milli aðila. Seinni hluti orðsins „gjaldmiðill“ endurspeglar þetta hlutverk vel. Það má aftur á móti vera að Kára þyki vænt um krónuna af persónulegum ástæðum ef hann til dæmis þiggur laun og arðgreiðslur í erlendri mynt. Býr hann þá við þann lúxus umfram alþýðuna að geta að jafnaði umbreytt sínu fé yfir í krónur þegar honum þóknast. Ef rétt reynist þá er Kári í vari fyrir íslenskum óstöðugleika og íslenskri verðbólgu. Jötunninn getur því leyft sér að vera með barnslega afstöðu til myntmála ólíkt alþýðu landsins.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: