- Advertisement -

Þegar tiltrúin hverfur og skjálftavirkni tekur við

Á endanum þá eru það heimili landsins sem borga fyrir óstjórnina í gegnum hærra vöruverð og aukin óstöðugleika hagkerfisins.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Mikilvægasta eign þróaðra seðlabanka er trúverðugleiki. Eitthvað sem bankarnir ávinna sér. Afar erfitt er að endurheimta tiltrúna þegar hún glatast. Nauðsynlegt getur verið að fara í mannabreytingar, skipta um fólk í brúnni, til að endurheimta traustið. Lengi framan af þá var ég einn um að gagnrýna ráðningu núverandi seðlabankastjóra og skipan peningastefnunefndar. Nú fjölgar ört í hópnum, æ fleiri aðilar utan og innan fjármálamarkaðarins segja að bankinn hafi tapað trúverðugleika sínum. Álitshnekkirinn veldur því að markaðsaðilar taka ekki lengur mark á skilaboðum bankans. Það er grafalvarleg staða. Afleiðingin er að stefna og ákvarðanir bankans ná illa fram að ganga, jafnvel ekki. Þannig er staðan núna varðandi langtímavexti. Þeir hafa verið á uppleið á sama tíma og stefna bankans er að ná þeim niður. Æ dýrara verður fyrir bankann að framkvæma peningastefnuna. Á endanum þá eru það heimili landsins sem borga fyrir óstjórnina í gegnum hærra vöruverð og aukin óstöðugleika hagkerfisins.

Vandamálið er að ekki er samræmi milli orða og efnda. Framganga bankans minnir óneitanlega á söguna um smaladrenginn sem kallar úlfur úlfur í leik sínum. Þegar úlfurinn raunverulega kemur og drengurinn kallar úlfur þá hlustar engin. Það er þó fleira sem veldur tapaðri tiltrú. Seðlabankastjóri telur að hann þurfi sífellt að svara allri gagnrýni á bankann. Honum finnst í barnaskap sínum að hann þurfi að eiga síðasta orðið. Orðaskak bankastjórans veldur því að orð hans vega sífellt minna í umræðunni. Þau eru útvötnuð. Verst er þó að hann sakar gagnrýnendur bankans um þekkingar- og kunnáttuleysi. Enginn fótur er fyrir ósmekklegheitunum. Upp til hópa þá eru gagnrýnendurnir vel menntaðir hagfræðingar með góða reynslu. Það er nánast hægt að stóla á það að ef einhver gagnrýnir bankann að þá mætir seðlabankastjóri í viðtal hjá fjölmiðlum í tilraun til að eiga þetta barnalega síðasta orð. Hann heldur ranglega að hann sé í einhverri væntingarstjórnun þegar hann segir aðra vera voða vitlausa. Um er að ræða tilraun til þöggunar til að stöðva málefnalega gagnrýni.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Efnahagslegir almannahagsmunir eru í húfi.

Gagnrýnin á ekki bara rætur að rekja til skorts á samræmi milli orða og efnda eða barnaskaparins að vilja eiga síðasta orðið. Bankinn hleypur einnig miklu hægar en aðrir þróaðir seðlabankar. Vextir eru hærri á Íslandi, magnbundin uppkaup á skuldabréfamarkaði eru vart mælanleg og bankinn misnotar gjaldeyrisforðann til að halda uppi fölsku gengi á krónunni. Síðan heykist bankinn á að beita aðal vopninu þegar kemur að krónunni. Allt þetta dregur úr samkeppnishæfni landsins og lengir í viðsnúningi hagkerfisins. Fórnarkostnaðurinn mælist í milljarðatugum. Áleitin er sú spurning af hverju færsætisráðherra horfir hljóð hjá þrátt fyrir meint sjálfstæði bankans. Efnahagslegir almannahagsmunir eru í húfi.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: