- Advertisement -

Þetta hættulega fólk verður að stöðva

Verið er að grafa undan því skipulagi sem byggst hefur upp á meira en 100 árum.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Sú framkoma sem stjórnendur Icelandair sýndu Flugfreyjufélagi Íslands (FFÍ) á dögunum er alvarlegri atburður en margur gerir sér í hugarlund og þú gætir verið næstur í röðinni. Endanleg niðurstaða gæti orðið fjöldagjaldþrot og alvarlegt bakslag hagkerfisins til langs tíma. Samþykki FFÍ kjarasamninginn undir þeim hótunum að annars muni Icelandair semja við eitthvað annað stéttarfélag fyrir lægri laun þá er komið illkynja fordæmi. Framkoma Icelandair var studd Samtökum atvinnulífsins og sá félagsskapur hefur sýnt að hann svífst einskis til að ná sínum markmiðum um launakjör sem duga engum til framfærslu. Litið verður á þetta nýja útspil sem árangursríkt leikkerfi ef FFÍ samþykkir og notað miskunnarlaust gagnvart öðrum kvennastéttum. Þetta er fordæmi um hvernig á að sundra þollitlum stéttarfélögum og brjóta niður samtakamáttinn. Þessi óhuggulega skammsýni örfárra tindáta á vegum auðvaldsins ber feigðina með sér. Verið er að grafa undan því skipulagi sem byggst hefur upp á meira en 100 árum. Nú er tími fyrir flugfreyjur og þjóna að hnykla baráttuvöðvann því þjóðin stendur með ykkur þó forsætisráðherra sé bara slakur upp á fjöllum á ögurstundu alþýðunnar.

Komið hefur fram hjá FFÍ að laun flugfreyja og þjóna með áratuga starfsreynslu sé vel undir meðallaunum í landinu sem voru 527 þúsund krónur á síðasta ári. Það táknar að reyndu freyjurnar eru kannski með 470 þúsund krónur á mánuði fyrir skatta, jafnvel minna. Þetta telja milljóna karlarnir vera ofrausn. Með kröfu Icelandair um aukið vinnuframlag þá er einfaldlega verið að lækka tímakaupið á tímum þegar verðbólga stefnir í 4,5 prósent. Og hvert leiðir þetta? Jú sjáðu til, Samtökin munu spila þetta leikkerfi aftur og aftur í kjarasamningum framtíðar því sigurtilfinningin er ósvikin. Með sömu rökum og að flugfreyjur séu með of há laun þá má segja að allar stéttir á Íslandi séu með of há laun í samanburði við láglaunalöndin í kringum okkur. Við verðum því að spyrja hvar þessi hildarleikur auðvaldsins endar því þeir eru svo skammsýnir. Horfa bara á næstu milljóna bónusgreiðslu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Með stjórn eins og nú er við völd þá verður skorið niður að beini.

Kaupmáttur launþega mun minnka jafnt og þétt. Eftirspurn í hagkerfinu fellur. Langvarandi niðursveiflu-spírall tekur völdin. Vanskil stökkbreytast, virði húsnæðis fellur, afskriftir lífeyrissjóða og banka vaxa stórum skrefum, atvinnuleysi vex upp í prósentatölur sem mælist í tugum, tekjur hins opinbera hríðfalla. Með stjórn eins og nú er við völd þá verður skorið niður að beini. Álag á heilbrigðiskerfið verður í veldisvexti og ekki hægt að fletja kúrfuna út. Fátækt breiðist út og dánartíðni fer upp. Ekki síst hjá ungu fólki. Og öll þessi áhætta er til að bjarga einu flugfélagi svo sömu kennitölurnar geti átt félagið.

Mitt persónulega mat er að taka verður örlög alþýðunnar úr höndum þessara óábyrgu punga með því að þjóðnýta Icelandair. Fyrirtækið er hvort sem er tæknilega gjaldþrota og fer að óbreyttu á hausinn í mars á næsta ári! Fyrirtækið má síðan selja eftir nokkur ár. Núverandi ríkisstjórn hefur því miður ekki vit til að stíga þetta skref. Það er því kærkomið að stutt er til næstu Alþingiskosninga og þá snýr alþýðan vörn í sókn. Nýir vendir sópa allra best!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: