- Advertisement -

Þetta kom sjálfum mér á óvart!

Ég legg til átaksverkefni sem heitir „Borgaralaun fyrir alla atvinnulausa í tvö ár“ og hver og einn fái 450.000 krónur á mánuði fyrir skatta.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Á mynd 1 má sjá hvernig atvinnuleysi þróaðist yfir sex ára tímabil í kringum fjármálahrunið. Fyrstu rúmlega tvö árin eftir hrunið í október 2008 mynduðust þrír atvinnuleysistoppar og er tindurinn í mars 2010 hæstur. Þarna glataðist dýrmætur tími af ýmsum óviðráðanlegum ástæðum, en einnig komu til rangar hagstjórnarákvarðanir stjórnvalda. Stjórnvöldum skorti nútímalega nálgun á aðsteðjandi vanda. Kerfið var fast í gamaldags lausnum sem tók langan tíma að vinna sig í gegnum hagkerfið. Fyrir vikið þá tapaðist dýrmætur tími og kostnaður vegna atvinnuleysis varð meiri en efni stóðu til. Tindarnir þrír á myndinni og jafnvel sá fjórði segja sögu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hvað er þá til ráða?

Í dag þá stöndum við í áþekkum sporum og því nauðsynlegt að koma í veg fyrir endurtekna atvinnuleysistinda á næstu 2-3 þremur árum. Annars mun mikið atvinnuleysi dragast á langinn. Allt stefnir í að svo verði enda lítur út fyrir að stjórnvöld ætli að endurtaka mistök hrunaáranna og grípa til gamalla og tímafrekra úrræða í hagstjórninni. Aðgerðir sem duga ekki ein og sér. Hingað til þá hafa aðgerðirnar miðast við framboðshlið hagkerfisins.

Hvað er þá til ráða? Það þarf að grípa til aðgerða sem virka strax á eftirspurnarhliðina. Þá er farsælast að horfa á neytendur sem hafa misst störfin sín. Sá hópur telur 30 þúsund einstaklinga núna í byrjun maí og þar má finna flugmenn, flugvirkja, flugfreyjur, lögfræðinga, verkfræðinga, arkitekta, leiðsögumenn og þannig telur þetta áfram. Horfa þarf á fólkið sem hóp af neytendum og fer hann brátt á bætur upp á 240 þúsund krónur á mánuði eftir skatta sem er grátlega lítið. Þetta veldur eftirspurnarsjokki í hagkerfinu enda 16 prósent alls vinnuafls þarna á ferðinni. Hættan er að niðursveiflu-spírall myndist. Ég hef verið að benda á tvær lausnir í um tvo mánuði og er önnur þeirra umræðuefni þessa pistils, borgaralaun. Ég legg til átaksverkefni sem heitir „Borgaralaun fyrir alla atvinnulausa í tvö ár“ og hver og einn fái 450.000 krónur á mánuði fyrir skatta.

Ef stjórnvöld grípa ekki til aðgerða af sama meiðinum og ég legg til þá mun atvinnuleysisferillinn mögulega fylgja sama algóritma og í hruninu. Til að sýna þetta þá hef ég teiknað upp gylta línu á mynd 2 hér að neðan. Það yrði dýrkeypt niðurstaða. Á mynd tvö þá hef ég einnig reiknað inn atvinnuleysisferil miðað við borgaralaun. Ferillinn fyrir atvinnuleysi í borgaralaunum fylgir algóritma sem ég hef sjálfur hannað út frá ákveðnum hlutfalls forsendum. Eins og sést þá er útkoman önnur og betri fyrir atvinnuleysi í landinu. Þessir þráfaldlegu tindar í hruninu myndu líklega hverfa, í það minnsta lækka sem er eftirsóknarvert.

Það sem borgaralaun hafa fram yfir gamaldags hagstjórnarúrræði er að ráðstöfunin virkar samstundis. Og einnig það sem er gríðarlega vanmetið í hagstjórn að borgaralaun vekja upp jákvæðni og bjartsýni hjá þeim sem þau þiggja í samanburð við núverandi sultarbætur. Það virkar vel á heilsu fólks og smitar út í allt hagkerfið. Áhrifanna mun ekki síst gæta innan ferðaþjónustunnar þar sem landinn mun tralla um landið í sumar og haust. Setja þarf á borgaralaun samhliða öðrum skynsömum aðgerðum.

g tek tillit til allra skattalegra áhrifa borgaralauna umfram atvinnuleysisbætur.

En eitthvað kostar að fjármagna átaksverkefni af þessum toga spyrja sumir? Ég er búinn að uppfæra fyrri útreikninga og fara mun nánar ofan í saumana á málinu og styðst við algóritmann sem ég hannaði. Ég tek tillit til allra skattalegra áhrifa borgaralauna umfram atvinnuleysisbætur, met haginn af styttri tíma sem fólk er án atvinnu og reikna með sparnaðinum sem næst í atvinnuleysisbótum vegna þess fólks sem kemst fyrr út á vinnumarkaðinn.

Í þessum útreikningum þá hef ég ekki tök á að meta sparnaðinn í heilbrigðiskerfinu af völdum þess að fólk er skemur án atvinnu en ella. Einnig rúmast ekki innan þessa pistils áhrif fátæktar á ungmenni sem og fullorðinna sem birtist til dæmis í fíknivanda, óreglu og almennum heilsubresti. Þessir þættir myndu gera niðurstöðu útreikninganna enn hagstæðari.

Verkefnið skilar hagnaði á sjötta ári upp á 1,7 milljarða. Á fyrra árinu í átaksverkefninu þá eru nettó útgjöld ríkissjóðs rétt undir 20 milljörðum og á seinna árinu tæplega 6,5 milljarðar. Þar sem ég er eingöngu að skoða fjögur ár fram í tímann þá eru tafin jákvæð efnahagsáhrif borgaralauna 14 milljarðar samtals á árum 3 og 4. Á greiðslugrunni þá þarf ríkissjóður að leggja út 27 milljarða á fyrra árinu umfram það sem Vinnumálastofnun þyrfti að greiða í óbreyttu kerfi. Á ári tvö þá nemur fjárhæðin 19 milljörðum. Ein af forsendum útreikninganna er að fólk sem kemst af atvinnuleysisskrá haldi starfi sínu í fjögur ár þar á eftir.  

Stutta svarið er nei!

Það eru einstakar aðstæður í þjóðfélaginu að taka upp tímabundin borgaralaun til að gefa hagkerfinu innspýtingu frá eftirspurnarhliðinni og aðgerðin er hagfelld eins og er með alla launamenn. Fyrir það fyrsta þá er enginn innlendur verðbólguþrýstingur til staðar nú um stundir. Verðbólga dagsins er innflutt og kemur til vegna veikingar krónunnar, sem var pólitísk ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Það er hægt að snúa þeirri þróun við ef vilji er fyrir hendi. Mikill eftirspurnarslaki er í hagkerfinu sem þessir 30 þúsund atvinnulausu einstaklingar skilja nú eftir sig. Sá slaki kemur ofan á tapaða eftirspurn erlendra ferðamanna sem gufaði upp tímabundið. Samkomulag virðist vera um það erlendis að taka muni ferðaþjónustuna tvö ár að komast á þokkalegt skrið.

Nú gætu einhverjir sagt er þá ekki best að allir fari á borgaralaun úr því þetta er svona hagfellt? Stutta svarið er nei! Við sem þjóð og skipulagt markaðshagkerfi þurfum á vöru og þjónustu að halda til að lifa af. Enn aðrir gætu sagt af hverju ekki að fara með borgaralaunin upp úr öllu valdi ef þetta er svona smart? Stutta svarið er að það gengur ekki. Jaðaráhrif borgaralauna verða neikvæð á ákveðnum punkti, hagurinn hverfur. Ég get aftur á móti alveg mælt með borgaralaunum upp á 633 þúsund krónur vandræðalaust til tveggja ára.          


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: