
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Páll er eins og hvert annað lubbamenni sem hirðir ekki um aðalatriði, sem er að þeir sem glíma við andleg veikindi eru ekki endilega alltaf og ætíð veikir.
Skrif Páls Vilhjálmssonar um veikindi verðlaunablaðamannsins Helga Seljan eru ekki einungis rætin og fordómafull. Þau eru einnig hatursfull, ósmekkleg og heimskuleg. Mesta af öllu þá eru þau særandi fyrir alla sem glíma við andleg veikindi.
Páll er eins og hvert annað lubbamenni sem hirðir ekki um aðalatriði, sem er að þeir sem glíma við andleg veikindi eru ekki endilega alltaf og ætíð veikir. Ekki frekar en sá sem fær svæsna tannpínu, nýrnasteina eða haldinn er áfengissýki ef leitað er lækninga. Menn verða fullfrískir á ný.
Páll segir í bloggi sínu að Helgi Seljan hafi sýnt „einkenni þráhyggju“ árið 2012 þegar Samherja-Seðlabankamálið kom upp. Og þegar Samherja-Namibíumálið kom upp þá átti Helgi mögulega að vera haldinn „stórmennskubrjálaði“ vegna þess að gallaðar siðareglur voru honum ekki að skapi. Talar Páll síðan undir rós þegar hann fullyrðir að Helgi búi mögulega ekki yfir „heilbrigðri dómgreind“. Um leið og Páll vindur sér undan rósinni fullyrðir hann að „geðveikur Helgi“ hafi „víðtækt dagskrárvald“ á RÚV.
Gífuryrði Páls eru ekki studd neinum sönnunargögnum og varpa því kastljósinu á Pál sjálfan. Spyrja verður hvort Páll hafi verið sjálfrátt þegar hann skrifaði óhróðurs-bloggið? Ef ekki þá er til lækning fyrir vitstola Pál. Ætti Grímur Atlason framkvæmdastjóri Geðhjálpar að geta leiðbeint Páli hvernig best er að bera sig að. Hafi Páll ekki verið vitstola þá er það alvarlegra mál og enga hjálp að fá.