Fréttir

Þingmenn vilja lögleiða heimabrugg

By Miðjan

September 11, 2019

„Með frumvarpi þessu er lagt til að bann við framleiðslu áfengis til einkaneyslu með gerjun verði afnumið,“ segir í frumvarpi nokkurra þingmanna.

Í greinargerðinni segir sem dæmi: „Þótt færa mætti rök fyrir því að sá hluti ákvæðisins sem bannar framleiðslu áfengis til einkaneyslu sé í reynd dauður bókstafur stendur eftir að ákvæðið er enn þá í lögum og í þokkabót mjög skýrt. Lítil almenn meðvitund um bannið ásamt þeirri staðreynd að athæfið er hvort tveggja samfélagslega viðurkennt og viðgengst óáreitt veikir hins vegar stöðu borgarans gagnvart geðþóttaákvörðunum yfirvalda. Það væri afar óæskilegt ef yfirvöld tækju skyndilega upp á því að framfylgja banninu enda væri það ósanngjarnt gagnvart þeim einstaklingum sem hefðu haft með höndum framleiðslu áfengis til einkaneyslu, og hefðu þangað til starfað í góðri trú um að hegðan þeirra væri ekki bönnuð að lögum.“

Flutningsmenn bruggmálsins eru; Helgi Hrafn Gunnarsson, Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Jón Þór Ólafsson, Smári McCarthy, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þorsteinn Víglundsson og Inga Sæland.