- Advertisement -

Þjóð í viðjum spilafíkils og veruleikafirringar

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Seðlabankastjóra leið vel í þessu aðstæðum, baðaði sig í sviðsljósinu við hvert tækifæri. En stormur var í aðsigi, óveður sem hann framkallaði sjálfur ásamt öðrum ákvarðanatökum bankans.

Kaupþing banki var rekinn eins og hvert annað spilavíti á árunum fyrir fjármálahrun og núverandi seðlabankastjóri var meðal æðstu stjórnenda bankans. Hann þekkir því í raun ekki annað en að líta á skuldara sem spilapeninga á rúllettuborði græðgi og spennufíknar. Annarri praktískri og marktækri starfsreynslu af fjármálamarkaði var einfaldlega ekki til að dreifa hjá þessum ritþjóf. Samt ákvað Katrín Jak og Vinstri græn um mitt árið 2019 að skipa núverandi seðlabankastjóra þegar að stýrivextir voru þá þegar byrjaðir að lækka hratt í landinu.

Tveir höfuðgallar seðlabankastjóra voru vel þekktir áður en hann var skipaður. Sá fyrri er að seðlabankastjóri býr ekki yfir spáhæfni, sem er án alls vafa mikilvægasti eiginleiki allra seðlabankastjóra. Þetta sýndi sig ítrekað í störfum hans hjá Kaupþing banka. Getuleysið náði síðan hámarki tvær sekúndur í fjármálahrun þegar hann sagði betri tíð með blóm í haga í vændum.

Hinn gallinn er að seðlabankastjóri gengst aldrei við eigin mistökum og eignar sér vinnuframlag annarra. Bandar frá sér allri ábyrgð og klínir á aðra. Nú þegar hann getur ekki lengur neitað að verðbólga hér á landi á kóvít-19 tímum er margfalt hærri hér en á hinum Norðurlöndunum þá koma skapgerðargallar hans berlega fram.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Frjáls króna við fordæmalausar aðstæður olli að mestu 3,6 prósent verðhækkunum á árinu 2020 þegar hún var vart mælanleg allt í kringum okkur eða að verðlag lækkaði.

Með stýrivexti á lóðréttri uppleið, eða því sem næst, þá segir seðlabankastjóri að gagnrýnendur bankans séu gleymnir. Muni ekki hvernig staðan var í upphafi heimsfaraldursins. Ég get ekki annað en tekið ádrepuna til mín enda hef ég verið allt að því einn um að gagnrýna ákvarðanir Seðlabanka Íslands frá upphafi faraldursins. Aðrir voru eins og klappstýrur, skott aftan á húfu seðlabankastjóra. Hann var trommaður upp eins og Ingólfur Arnarson væri endurborinn. Seðlabankastjóra leið vel í þessu aðstæðum, baðaði sig í sviðsljósinu við hvert tækifæri. En stormur var í aðsigi, óveður sem hann framkallaði sjálfur ásamt öðrum ákvarðanatökum bankans.

Ég var talsmaður þess að lækka stýrivexti alveg niður núll prósent strax í upphafi faraldursins eins og aðrir Vestrænir Seðlabankar gerðu. Sá íslenski treysti sér ekki neðar en í 0,75 prósent. Ég boðaði einnig að taka yrði krónuna tímabundið af markaði og gengi hennar fastskráð. Eða þar til heimsbyggðin áttaði sig á ástandinu og virkt bóluefni kæmi fram. Bankinn hafnaði skynseminni og ákvað að láta gjaldmiðilinn dingla í lausu lofti. Ofan í kaupið þá var allur sveiflujöfnunarauki viðskiptabankanna afnuminn.

Afnám aukans er að reynast rándýr því útlánageta viðskiptabanka jókst um rúmlega þrjú hundruð milljarða króna, eða um meira en 12 prósent, í einum vetfangi. Og það án þess að setja upp fjárgirðingar. Afleiðingin var sem stífla brysti og féð flæddi inn á fasteignamarkaðinn. Þetta er áþekkt því að spilafíkill setji alla spilapeningana á eina tölu á rúllettuborðinu og treysti svo á einstaka heppni. Veðmálið mistókst og ullu mistökin stórum hluta verðbólgunnar á árinu 2021 og fram til dagsins í dag.

Frjáls króna við fordæmalausar aðstæður olli að mestu 3,6 prósent verðhækkunum á árinu 2020 þegar hún var vart mælanleg allt í kringum okkur eða að verðlag lækkaði. Afleiðingin var að á haustmánuðum ársins 2020 hófust mestu gjaldeyrisinngrip í sögu þjóðarinnar. Redda átti málum með skítamixi. Meira en tvö hundruð milljörðum var ráðstafað úr varasjóði landsins.

Nú þegar seðlabankastjóri getur ekki lengur boðið þjóðinni upp á útúrsnúninga í umræðu um mikla verðbólgu þá vill hann færa athyglina yfir á önnur svið.

Fram að inngripunum þá var seðlabankastjóri með þá ranghugmynd að hann gæti staðið í ólöglegu markaðssamráði ásamt lífeyrissjóðum landsins. Sjóðirnir samþykktu að halda að sér höndum í gjaldeyriskaupum, en áttuðu sig fljótt á ólögmætinu og drógu sig einn af öðrum út úr lögleysunni. Þetta veðmál seðlabankastjóra mistókst eins og annað.

Síðan heimsfaraldurinn hófst þá er uppsöfnuð íslensk verðbólga komin í 10 prósent og er hún margfeldi á við það sem þekkist hjá öðrum Norðurlöndum. Það þýðir því ekkert fyrir seðlabankastjóra að tala um að þeir sem ekki voru í klappstýru liðinu séu gleymnir því gagnrýni mín er vel skjalfest. Þar kemur vel fram að ég áttaði mig vel á stöðunni samanber hagspá sem birt var um mitt ár 2020 á Miðjunni. Ólíkt Seðlabankanum og öðrum jötnum íslenskra hagspáa þá spáði ég strax á árinu 2020 að verðbólga væri á leiðinni upp í 5 prósent. Ég uppfærði síðar spánna og sagði að verðbólga stefndi í 5,5 prósent og þar á eftir í 7 prósent. Í dag þá er hún komin í 5,7 prósent og bankinn örvæntir.

Nú þegar seðlabankastjóri getur ekki lengur boðið þjóðinni upp á útúrsnúninga í umræðu um mikla verðbólgu þá vill hann færa athyglina yfir á önnur svið. Segir bankann hafa náð góðum árangri við að auka hér atvinnusköpun eða lækka atvinnuleysi. Þetta er bull enda er það ekki hlutverk bankans að halda uppi atvinnustigi. Hans helsta hlutverk lögum samkvæmt er að hafa taumhald á verðbreytingum. Lægra atvinnuleysi hélst aftur á móti í hendur við auknar tilslakanir í sóttvörnum, meiri vissu um framtíðina og aðgerðir í gegnum fjárlög. Ekkert sér íslenskt er við þá þróun.

Það verður að skipta gauknum í Seðlabankanum út ef við ætlum ekki að verða fórnarlömb Stokkhólmsheilkennisins og veruleikafirringar.

Seðlabankastjóri reynir samt að selja okkur þá hugmynd að þetta sé allt honum að þakka. Það virðist síðan gleymast í umræðunni að þegar faraldurinn skall á og landamærum landa var lokað að þá eyddu íslenskir neytendur öllu fénu innanlands sem vanalega var notað á erlendri grundu. Á móti missti landið eyðslu erlendra ferðamanna. Ef ég man rétt þá var hallinn þarna á milli neikvæður um 100 milljarða króna, sem mælist vera um 3 prósent af landsframleiðslu. Það er vel sloppið og hjálpaði til við að halda einkaneyslu og atvinnu upp. Síðan var verðmæti útfluttra fiskafurða á góðu róli. Seðlabankinn átti hér enga hlutdeild.

Hegðun seðlabankastjóra er mjög dæmigerð fyrir hann. Hann gengst ekki við ábyrgð sinni og hagstjórnarmistökum bankans. Verðbólga á Íslandi á veirutímum er miklu hærri en hjá öðrum Norðurlöndum. Hann reynir þessi í stað að eigna sér eitthvað sem aðrir eiga, alveg eins og hann gerði þegar hann varð uppvís að ritstuld við gerð skýrslunnar um fall Sparisjóðanna. Hann er háður aðdáun landans, sem hann hlaut fyrir skammvinna lækkun vaxta. Hann reynir núna að viðhalda ljómanum með því að eigna sér árangur annarra á sviði atvinnusköpunar og meintrar aukningar kaupmáttar. Alveg eins og gaukar gera sem sitja um hreiður annarra fugla. Gaukar henda nefnilega eggjum hreiðureigenda útbyrðis og verpir eigin eggjum í dulargervi. Láta síðan aðra fugla um að klekja eggjunum út og fæða ungana.

Það verður að skipta gauknum í Seðlabankanum út ef við ætlum ekki að verða fórnarlömb Stokkhólmsheilkennisins og veruleikafirringar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: