- Advertisement -

Þúsund milljarðar króna bundnir fastir

Í dag þá flæða peningar því hindrunarlaust milli þróaðra landa.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Í öndverðu þá var stærð gjaldeyrisvarasjóðs þjóðar (myntsvæðis) ákvarðað út frá fjölda innflutnings mánaða sem forðinn var talinn þurfa þekja ef röskun yrði á alþjóða mörkuðum. Þetta átti ágætlega við þegar frelsi til fjármagnshreyfinga var takmarkað. Forðinn átti þannig að brúa hallann á viðskiptum við útlönd í tiltekinn mánaðafjölda til að tryggja innflutning nauðsynjavöru svo hagkerfi stöðvist ekki alveg. Kemur það þá í hlut gjaldeyrisforðans að fjármagna viðskiptahalla við útlönd. Með auknu frelsi í milli landa viðskiptum þá jókst frelsi fjármálamarkaða samhliða. Í dag þá flæða peningar því hindrunarlaust milli þróaðra landa. Flæðið er aftur á móti ekki endilega í samræmi við þjóðarhagsmuni um jöfnuð í vöru- og þjónustuviðskiptum. Þróunin leiddi af sér ný úrlausnarefni í milli landa viðskiptum því stórfelldir tilflutningar á peningum geta valdið fjármálakreppu ef tilteknar aðstæður eru uppi. Austur Asíukreppan undir lok síðustu aldar er skólabókardæmi um þannig ástand.

Athyglin færðist því einnig yfir á fjármagnsjöfnuð þjóða. Eftir fjármálakreppuna í austur Asíu þá varð það viðmið víða tekið upp að gjaldeyrisforði þurfi jafnframt að þekja erlendar skammtíma skuldbindingar þjóðar til að fleyta henni í gegnum fjármálakreppu. Það var einkum vond reynsla Suður Kóreu af kreppunni og lamandi kröfur Alþjóða gjaldeyrissjóðsins sem jók á forðasöfnun þjóða. Þetta átti alveg sérstaklega við um Asíuþjóðir því þær áttu ekki nægilegan hljómgrunn innan Alþjóða gjaldeyrissjóðsins vegna valdaójafnvægis innan stofnunarinnar. Asíuþjóðir tóku því málin í eigin hendur til að auka þjóðaröryggi. Rannsóknir hafa nefnilega leitt í ljós að þjóðir sem höfðu nægilegan gjaldeyrisforða urðu síður fyrir gjaldmiðlaárás og gátu staðist fjármálakreppu betur. Í fjármálahruninu á síðasta áratug þá sannaði reglan um nægan gjaldeyrisforða sig aftur. Það dugar þó ekki eitt og sér því aðrir efnahagsþættir þurfa að vera í innbyrðis jafnvægi.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Er nú svo komið að margar þjóðir stilla sig inn á að eiga ríflegan gjaldeyrisforða til að mæta tímabundnum viðskipta- og fjármagnshalla. Nú orðið þá hafa sumar þjóðir bætt því við að gjaldeyrisforðinn þurfi einnig að þekja erlenda fjárfestingarþörf innlendra aðila. Þessi þáttur er þó lúxusvandamál í heildarsamhenginu. Þróunin í átt að digrum gjaldeyrisforða er hröð og hefur hann sem dæmi meira en ellefu faldast á öldinni á Indlandi. Stærð ísraelska forðans vekur athygli fyrir stærð sína og vöxt samanber mynd 1 sem fylgir. Íslenski forðinn er um 30 prósent af landsframleiðslunni. Norski og danski forðinn eru um 20 prósent landsframleiðslunnar og sá sænski í kringum 11 prósentin. Varasjóður Nýsjálendinga er ekki nema 6 prósent af stærð hagkerfisins. Gjaldeyrisforði Evrópusambandsins er síðan rétt undir 8 prósentum af landsframleiðslu evru svæðisins. Bandaríkin reka lestina með minnsta forða veraldar samanber mynd 2.

Íslenski varasjóðurinn mælist brátt þúsund milljarðar í krónum talið ef fram fer sem horfir. Ef Ísland væri aðili að meginstraums gjaldmiðli, evru eða dollar, þá myndi losna um stóran hluta forðans.

Uppsöfnun gjaldeyrisvaraforða er orðið sjálfstætt heimsvandamál enda er hún víða komin í hreinar ógöngur. Margar þjóðir misnota síðan forðann miskunnarlaust til inngripa á gjaldeyrismarkað til að viðhalda falskri gengisskráningu. Svo ég haldi mig við Asíu þá eru Ísraelar og Indverjar iðnir í þessum efnum. Geipilegur afgangur á viðskiptum við útlönd margra asískra þjóða er til vitnis um ranga skráningu gjaldmiðla út frá þessu sjónarhorni. Og vart þarf að hafa orð á erjum Bandaríkjanna og Kína varðandi gengisskráningu Kínverja. Til eru lönd með forða langt yfir 100 prósentum af landsframleiðslunni og má þar helst nefna Sviss. Einstök staða Svissneska frankans í heiminum sem öryggisskjól á ögurstundum hefur leitt til þess að landið þarf að geta brugðist við öfgafullu og hröðu streymi gjaldeyris til og frá landinu. Gjaldeyrisinngrip er aftur á móti eigingjörn aðgerð því verið er að varpa vandanum yfir á framtíðarkynslóðir. Þess vegna er skynsamlegt að tengjast meginstraums gjaldmiðli. Gengismálin verða öll bæði einfaldari og minna mikilvæg. Þetta er ein af ástæðum þess að nánast öll heimsviðskipti fara fram í evrum eða dollar.

Þó ofvaxnir gjaldeyrisvarasjóðir geti hjálpað þjóðum á krepputímum og aukið öryggi þeirra þá er tilvist þeirra ekki án áhættu fyrir heiminn og fórnarkostnaður einstakra þjóða getur verið mikill. Seðlabankar heimsins vista nefnilega forðann gjarnan í upprunalandi forðans og þar leikur dollarinn aðalhlutverkið. Þetta ásamt sérlega rúmri peningamálastjórn Bandaríkjanna hefur leitt til offramboðs lánsfjár. Það hefur síðan alið af sér eignabólur. Fjármálahrunið á síðasta áratug rekur einmitt uppruna sinn til sprunginnar fasteignabólu og vafasamra skuldabréfavafninga tengdum fasteignaviðskiptum.

Þó gjaldeyrisvarasjóðir veiti ríkjum tiltekið skjól gagnvart fjármálakreppu og annarri vá þá er um að ræða eignir sem bera mjög lága ávöxtun, jafnvel neikvæða. Fjárfesting í innviðum gefur aftur á móti mun meira af sér. Hér er því um vonda ráðstöfun á opinberu fé að ræða. Aðild Íslands að meginstraums gjaldmiðli myndi losa hundruð milljarða króna eins og hlutföllin á mynd 2 sýna. Einnig myndi skjólið frá meginstraums gjaldmiðli vera margfalt meira, en um það snýst málið í heild sinni.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: