- Advertisement -

Þyrnirósarsvefn fjármálaráðherra

Nú er flokkurinn að herja á heilbrigðiskerfið gegn vilja stórs meirihluta almennings.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Sjálfstæðisflokkurinn hefur oft auglýst fyrir Alþingiskosningar „báknið burt“ án þess að skilgreina hvað nákvæmleg er átt við. Það er látið hanga í loftinu að það sé einhver opinber rekstur sem á að vera voða vondur og eigi ekki að vera á hendi ríkisins. Sumir kalla „báknið burt“ einkavæðingu og enn aðrir einka-vinavæðingu. Augljóst dæmi er einkavæðing bankanna í upphafi aldarinnar. Annað dæmi sem átti að leiða til aukinnar hagkvæmni og úrbóta var niðurlagning Þjóðhagsstofnunar. Nú er flokkurinn að herja á heilbrigðiskerfið gegn vilja stórs meirihluta almennings.

Í stað Þjóðhagsstofnunar þá fengum við stærra bákn. Hagstofan hefur belgst út á þessu sviði og sama má segja um fjármálaráðuneytið. Síðan eru við með Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Seðlabanka Íslands. Ýmis verkefni aðilanna skarast með einum eða öðrum hætti. Þegar allt kemur til alls þá var niðurlagning Þjóðhagsstofnunar ekki grundvölluð á hagrænum og faglegum forsendum heldur var aðgerðin afsprengi vanstillingar innan Sjálfstæðisflokksins. Þegar upp er staðið þá eyðum við hlutfallslega meiru í hag-greiningar en á dögum Þjóðhagsstofnunar. Menn geta síðan deilt um hvort spá- og greiningarhæfnin hafi tekið framförum, en það er ekki efni pistilsins.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Seðlabanki Íslands er stofnun sem sprungið hefur út langt umfram þarfir þjóðarinnar. Það sést best þegar maður ber saman stöðugildin, sem sinna seðlabankastarfsemi bankans, við fjölda stöðugilda hjá öðrum seðlabönkum á Norðurlöndum. Vert er að taka fram að ég tel ekki til þá starfsmenn sem vinna að fjármálaeftirliti hjá íslenska bankanum. Á hinum Norðurlöndunum þá eru það aðskildar stofnanir sem sinna þessu eftirliti. Á mynd 1 sem fylgir þá set ég stöðugildin í hlutfall við mannfjölda hvers lands. Íslenski bankinn turnar frændur okkar. Og spyrja má hvort bankinn sé orðinn að bákni þar sem urmull aukakílóa flæðir um.

Sjálfum finnst mér samanburðurinn við Seðlabanka Noregs áhugaverðastur. Sá íslenski er nærri 200 prósent stærri en Seðlabanki Noregs á mælikvarðann sem notaður er. Og það þrátt fyrir að Seðlabanki Noregs stýri olíusjóði Norðmanna, Government Pension Fund Global. Á ferðinni er einn stærsti fjárfestingarsjóður veraldar sem talinn er eiga 1,5 prósent af öllum skráðum hlutabréfum í heiminum. Samtals segist sjóðurinn eiga í um 9.000 fyrirtækjum vítt og breitt um veröldina fyrir utan önnur verðbréf og fasteignir. Ef ég dreg starfsmenn olíusjóðsins frá, enda ekki um seðlabankastarfsemi að ræða, þá er íslenski seðlabankinn 600 prósent stærri en sá norski samanber mynd 2. Þessi munur verður ekki útskýrður með ólíku hlutverki bankanna.  

Mikill starfsmannafjöldi hjá Seðlabanka Íslands er á vakt Sjálfstæðisflokksins þar sem núverandi fjármálaráðherra og formaður flokksins hefur ýmist haft málefni bankans beint eða óbeint á sinni könnu síðan árið 2013. Það er því ótrúverðugt að rekast á auglýsingu með mynd af ráðherranum þar sem stendur „Burt með báknið!“. Nær væri að ráðherrann útskýri eigin þyrnirósarsvefn fyrir kjósendum.

Seðlabankinn er svo sem ekki eina stofnunin niður við Arnarhól, sem vaxið hefur ótæpilega á vakt Sjálfstæðisflokksins. Hin er dómstólakerfið þar sem dómarar Hæstaréttar vita ekki hvað þeir eiga að gera dagana langa vegna verkefnaskorts. Svo eirðarlausir eru þeir að meirihluti dómara sækir í launuð störf utan réttarins til að maka krókinn. Það loðir við Sjálfstæðisflokkinn að vilja báknið burt á sama tíma og þeir sjálfir belgja kerfið út.  


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: