- Advertisement -

Til varnar hjúkrunarfræðingum

Já, dauðir hlutir eru ráðherranum mikilvægari en lifandi fólk!

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Bjarni á sér samverkamann í Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra.

Það hefur ekki farið fram hjá mér að Bjarni Ben fjármálaráðherra fyrirlítur fátækt fólk enda veit hann sjálfur ekki hvernig fátækt lítur út. Verk hans og endurtekin tjáning staðfestir ályktun mína. Það sem ég áttaði mig ekki alveg á fyrr en núna í vikunni er að ráðherrann fyrirlítur einnig hjúkrunarfræðinga. Í vikunni var okkur sýndur launaseðill hjúkrunarfræðings í 80% starfi í Covid-19 teymi Landsspítalans, sem er í raun 100% starf vegna ofboðslegs álags. Á honum stóð að ráðstöfunartekjur voru í námunda við 330 þúsund krónur. Mér var brugðið, en fékk loksins útskýringu á því af hverju ráðherrann fyrirlítur stétt hjúkrunarfræðinga. Þeir tilheyra nefnilega hópi fátækra, eru á sultarlaunum. Sá sem skannar inn vörur á búðarkassa er á áþekkum kjörum, þar munar alla vega mjóu. Munur á ábyrgð og kröfum um færni er samt mikill milli starfsstéttanna.

Þarna sýndi ráðherrann áður óþekktan dómgreindarskort.

Í faraldrinum kemur fyrirlitning ráðherrans enn betur í ljós. Öllum bellibrögðum hefur verið beitt til að koma í veg fyrir kjarasamninga við hjúkrunarfræðinga. Lágpunkturinn var þegar lögbann var sett á verkfall stéttarinnar. Nei, fyrirgefið mér gott fólk, lágpunkturinn var þegar álagsgreiðslur voru teknar af hjúkrunarfræðingum í miðjum faraldrinum. Aftökunni var síðar frestað vegna þrýstings, en þær skulu samt burt. Bara aðeins seinna eða þegar faraldurinn er yfirstaðinn og byrja má aftur að sparka í hjúkrunarfræðinga. Þarna sýndi ráðherrann áður óþekktan dómgreindarskort á sama tíma og fé er mokað úr ríkissjóði til einkafyrirtækja í áhætturekstri. Til fyrirtækja sem ekki er viðbjargandi. Já, dauðir hlutir eru ráðherranum mikilvægari en lifandi fólk!

En fjármálaráðherrann á sér samverkamann í Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra Vinstri grænna. Hún hefur haft mýmörg tækifæri að koma í veg fyrir það óefni sem ríkir innan stéttar hjúkrunarfræðinga og ekkert gert. Hún hefur ávallt kosið að fylgja fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins að málum vegna þess að hennar eigin valdastóll er svo mjúkur og snotur.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: