- Advertisement -

Til varnar Þorgerði Katrínu

Kjarninn í tjáningu formannsins var einmitt sá að krónan er sérstakt efnahagsvandamál.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Eins og Morgunblaðið gerði af vanþekkingu í Staksteinum föstudagsins.

Í vikunni var gerð ósmekkleg  og ómálefnaleg atlaga að tjáningu formanns Viðreisnar, sem fjallaði um háa verðbólgu á Íslandi í samanburði við samkeppnislönd og íslensku krónuna. Í stað þess að koma með málefnaleg gagnrök var ráðist á manneskjuna. Til að bæta gráu ofan á svart var eiginmaðurinn dreginn inn í málið út af alls óskyldu máli. Þetta er gjarnan háttur manna sem sjálfir hafa vondan málstað að verja. Manna sem þola ekki að aðrir deili ekki sömu skoðun og þeir sjálfir. Ekki voru persónulegar árásir látnar duga heldur var  rangfærslu bætt út í mykjuna til að þétta dritið. Fullyrt var að Evrulandið glími við verðhjöðnun og sagt að það sé verra en verðbólga. Það fyrra er rangt og það síðara veltur á efnahagsaðstæðum, rót verðlækkunar. Ekki er hægt að fullyrða út í loftið um þetta eins og Morgunblaðið gerði af vanþekkingu í Staksteinum föstudagsins.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Á myndinni sem fylgir má sjá að verðbólga innan Evrusvæðisins er 0,76 prósent samkvæmt nýjustu tölum þrátt fyrir verðlækkanir þrjá mánuði í röð. Í Svíþjóð þá er bólgan 0,3 prósent og 0,4 prósent í Danmörku. Turninn á myndinni er íslenska verðbólgan sem stendur í 3,5 prósentum og stefnir allt árið í 4 prósent bólgu. 

Þegar ég skoða tölur fyrir einstaka mánuði ársins þá hafa öll samanburðarlöndin sýnt verðhjöðnun milli einhverja mánaða á árinu. Það gerðist til dæmis á Íslandi í janúar þegar verð lækkaði um 0,74 prósent. Síðan er engin verðbreyting í nóvember samkvæmt ný birtum tölum Hagstofunnar.  Verð var svo til óbreytt í Bandaríkjunum í maí mánuði og það sama á við um Svíþjóð. Verðlag lækkaði síðan um 0,4 prósent í apríl í Svíþjóð. Svona rekur þetta sig áfram og er rangt að skoða örstutt tímabil við mat á verðbólgunni og alhæfa síðan út frá því. Engum datt til dæmis í hug að tala um verðhjöðnun á Íslandi eða annars staðar þegar einstakir mánuðir vísuðu suður. Mogginn aftur á móti er mjög hugmyndaríkur. Allskonar vitleysa er kokkuð upp ef það bara hentar áróðrinum, hefndarþorstanum gagnvart þeim sem ekki hafa réttar skoðanir.

Rökleysingjarnir vildu rakka evruna og formanninn niður.

Árásarmenn formanns Viðreisnar sáu sig alveg sérstaklega knúna til að draga evruna inn í umræðuna án þess að nefna aðra gjaldmiðla til samanburðar. Áróðurinn átti nefnilega að vera sem mest krassandi, skítt með staðreyndir og allar heildarmyndir. Rökleysingjarnir vildu rakka evruna og formanninn niður. Á endanum gerir þetta ekki annað en að varpa ljósi á dónaskap höfundar Staksteina.

Um verðlag má hafa mörg orð eins og þau að einstakar aðstæður í heiminum á árinu hafi haldið verðbólgunni niðri. Það á aftur á móti ekki við um Ísland og þar veldur veik íslensk króna miklu. Kjarninn í tjáningu formannsins var einmitt sá að krónan er sérstakt efnahagsvandamál. Eitthvað sem ekki er hægt að hrekja vegna þess að staðreyndirnar tala sínu máli. Að verðbólga erlendis sé vel tamin getur verið merki um virka samkeppni, sem kemur neytendum vel. Það er eitthvað sem Mogginn vill ekki ofan á sitt brauð að því er virðist. Ef verðhjöðnun á sér annan uppruna en í virkri samkeppni og heilbrigðri efnahagsstjórn þá geta aftur á móti komið upp vandamál. Sú staða er ekki upp núna. Væri hún uppi þá myndu gjaldeyrismarkaðir heimsins henda íslensku krónunni fyrir róða eins og gerðist í Fjármálahruninu. Þá hrundi krónan og verðbólga fór yfir 18 prósent og var há í nokkur ár.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: