- Advertisement -

Til varnar Þorvaldi prófessor

Núna er lopinn farinn að þvælast fyrir samtökunum og kominn í flækju.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Samtök atvinnulífsins, og stundum taglhnýtingurinn Viðskiptaráðið, eru reglulega með furðuáróður um að Ísland sé fremst meðal þróaðra hagkerfa í hinu og þessu tillitinu. Æsingurinn er mestur í aðdraganda kjarasamninga. Frá stórskáldum samtakanna koma þá yfirlýsingar sem eru á pari við það besta sem Halldór Laxness sendi frá sér. Þess á milli dúkka samtökin upp þegar á fjörur þeirra reka upplýsingar sem samtökin telja henta þeirra áróðri. Þá velja þau stundum sem vettvang Fréttablaðið, sem reglulega yfirgefur sannleikann.

Í síðustu viku taldi hinn hófsami prófessor Þorvaldur Gylfason ástæðu til að rétta áróðursmynd samtakanna við með málefnalegu innleggi. Það var meira en samtökin þoldu. Í dag kom svo illa ígrundað andsvar sem er þvælulegur lopi.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Þorvaldur Gylfason.

Kjarninn í því sem prófessor Þorvaldur segir er að miðað verður við þann fjölda vinnustunda, fyrirhöfnina, sem er að baki verðmætasköpun landsins ef bera á saman meðallaun milli landa. Ef til dæmis smiðurinn ákveður að vinna tvær klukkustundir lengur á hverjum degi þá auðvitað hækka meðallaunin hans. Hann kemur vel út í samanburði við smiðinn í Portúgal sem vinnur bara sína dagvinnu. Með þennan mælikvarða sýnir Þorvaldur fram á að Ísland er neðar á lista þegar alþjóðlegur samanburður er gerður. Við vinnum lengur en aðrir til að skapa okkar verðmæti. Hér er ekkert nýtt á ferðinni þó svo að Hagstofan sé að breyta mælingum hjá sér. Í andsvari sínu þá svara samtökin þessu í engu enda hefur prófessorin rétt fyrir sér!

Það sem samtökin kjósa að gera í staðinn er að draga fram uppáhalds hagstærðina sína um að launahlutfallið í landsframleiðslunni sé hærra hér á landi en annars staðar. Núna er lopinn farinn að þvælast fyrir samtökunum og kominn í flækju. Verið er að bera saman epli og banana. Sem dæmi þá endurspeglar þessi hagstærð illa ólíka uppbyggingu einstakra hagkerfa. Sumar þjóðir eru tæknivæddari en aðrar o.sv.frv. en það er efni í aðra grein ef ég nenni. Svo getur þetta launahlutfall alveg eins sagt okkur þá sögu að atvinnulífinu sé illa stjórnað. Fyrirtækjastjórnendur eru minna færir en erlendis enda landlægt að ekki er ráðið eftir hæfni og færni í stjórnunarstöður. Laun lág og framleiðni minni vegna vinnuslita og mikillar starfsmannaveltu. Það er orsakasamband þarna á milli sem samtökin kjósa ekki að ræða.

Síðan stimpla samtökin sig út með því að vitna í hagfræðihugtakið PPP (Purchasing Power Parity) til að reyna að skjóta niður þá frásögn prófessorsins að gengið á Íslandi sé of sterkt. Án þess að ég taki afstöðu til þess hvort gengið er rétt skráð eða ekki eða fjalli um hina mörgu galla PPP-fræðanna þá er mælikvarði prófessorsins einfaldlega hin rétti ef menn hafa áhuga á samanburði um hvað mikil fyrirhöfn er að baki framleiðslunni.

Það þarf ekki að gengisleiðrétta vinnustundir út frá e-u PPP gengi og er það mikill kostur. Klukkustund á Íslandi er klukkustund á Portúgal. Út á þetta gekk grein Þorvaldar og andsvar samtakanna er bara útúrsnúningur.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: