
Jóhann Þorvarðarson:
En er það ekki einmitt tilgangur Flokk fólksins að uppræta fátækt? Hljóð og mynd fara aftur á móti ekki saman hjá flokknum. Tilvera hans hangir nefnilega saman við að fátækt sé viðvarandi.
Ég fæ tíðum aulahroll við það að hlusta á málflutning Flokk fólksins, sem hefur talað af yfirgripsmikilli vanþekkingu um vexti og verðbólgu. Flokkurinn þykist búa yfir lausnum án þess þó að skilja vandamálið. Flokkurinn hefur síðan ekki á stefnuskrá sinni það mál sem leysir vandann um háa íslenska vexti og meiri uppsafnaða verðbólgu en hjá nágrönnum okkar.

Aðild að Evrópusambandinu og upptaka evrunnar myndi ekki aðeins efla sjálfstæði landsins og áhrifamátt á alþjóðavettvangi heldur einnig bæta öryggisvarnir í efnahags- og hernaðarlegu tilliti. Þetta fengum við að reyna í kóvít-19 faraldrinum þegar það stóð tæpt að landið fengi bestu fáanlegu bóluefnin í tæka tíð og í nægu magni. Velvilji Evrópusambandsins í garð Íslands réð hér úrslitum um hversu fljótt var hægt að afnema allar sóttvarnartakmarkanir hérlendis. Ekki er þó raunhæft né hyggilegt að ætla sér ætíð að treysta á góðan hug annarra á ögurstundum landsins. Annað og uppbyggilegra þarf til.
En er það ekki einmitt tilgangur Flokk fólksins að uppræta fátækt?
Myndin sem fylgir sýnir okkur einstaklega vel hinn dýra dóm sem landsmenn borga fyrir að viðhalda minnsta gjaldmiðli veraldar þegar það er vitað að 86 prósent af heimsviðskiptum fara fram í evrum og bandarískum dollar. Vextir stóru bankanna á óverðtryggðum íbúðalánum eru í dag 7,7 prósent á meðan þeir eru að jafnaði 2,9 prósent innan evrusvæðisins samkvæmt Evrópska seðlabankanum. Hæstir eru þeir í Litháen, 4,1 prósent, og lægstir í Frakklandi, 1,9 prósent. Vaxtamunurinn verður ekki rakinn til meiri ársverðbólgu á Íslandi enda er hún áþekk í báðum gjaldmiðlasvæðunum nú um stundir. Munurinn helgast fyrst og fremst af mikilli áhættu sem fylgir krónunni, óstjórn íslenskra efnahagsmála og sérhagsmunum.
Hér er um viðmiðunartölur að ræða, en þær gefa góða mynd af því hversu djúpt er seilst í vasa íbúðakaupenda á Íslandi í samanburði við evrulöndin. Ef við værum með evruna, eins og meirihluti þjóðarinnar vill, þá væri lífið betra. Ég get fullyrt að fátækt heyrði þá sögunni til vegna góðra skilyrða þar um á Íslandi. En er það ekki einmitt tilgangur Flokk fólksins að uppræta fátækt? Hljóð og mynd fara aftur á móti ekki saman hjá flokknum. Tilvera hans hangir nefnilega saman við að fátækt sé viðvarandi. Ef hún hyrfi af sjónarsviðinu þá myndi flokkurinn gufa upp enda einsmáls flokkur í grunninn. Hér er því komin skýring á því af hverju Flokkur fólksins berst ekki fyrir upptöku evrunnar.