Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Í upphafi kóvít þá rauk skuldabréfafjárfestirinn BlueBay á dyr. Seldi öll íslensku skuldabréfin sín og flutti tugir milljarða króna úr landi. Ástæðan var vaxandi áhætta og lágir vextir. Jafnvægið milli arðsemi og áhættu riðlaðist við veiruna og lækkandi vexti. Óréttlætanlegt var að geyma fé á Íslandi að mati sjóðsins. Sjóðsstýringarfyrirtækið kaus öryggið og færði peningana yfir á traust myntsvæði. Sem sagt, BlueBay var ekki tilbúið að deila örlögum með Íslendingum ef engin var hagnaðarvonin.
Þetta er dæmigerð hegðun alþjóðlegra fjárfesta og hrægamma, en hún er skynsamleg út frá hagsmunum eigenda fjármagnsins, sem BlueBay höndlar með. Fjárflutningarnir voru aftur á móti ógn við stöðugleika íslensku krónunnar og ákvað Seðlabankinn Íslands að tappa tugum milljarða króna af gjaldeyrisforðanum. Keypti bankinn því BlueBay út og sat uppi með áhættuna, sem BlueBay var að flýja. Með þessu þá jók bankinn einnig ytri áhættu þjóðarbúsins.
Nú þegar áhrif faraldursins eru frá að sinni og stýrivextir teknir til við að hækka á ný þá hefur BlueBay snúið til baka eftir öruggt skjól. Seðlabankinn tók endurkomunni fagnandi og keypti gjaldeyri fyrir tugir milljarða króna af BlueBay. Þannig gat bankinn snúið fyrri gjaldeyrissölu að hluta til við, en bankinn er í mikilli þörf að umbreyta um tvö hundruð milljörðum króna aftur yfir í gjaldeyri eftir mikil markaðsinngrip undanfarin misseri.
Þessi mynd sýnir að núverandi skipan gjaldmiðlamála gengur ekki upp. Ef tugir BlueBay fyrirtækja kæmu til Íslandi þá væri vonlaust að viðhalda efnahagslegu jafnvægi því gengi krónunnar yrði eins og Jó-jó. Fólk og fyrirtæki yrði ringlað og gjaldeyrisforðinn réði ekki við fjárflæðið. Á ögurstundu þá gæti þessi fámenni hópur erlendra sjóðsstjóra stigmagnað efnahagsáföll því þeir þola ekki norðangarra.
Þrátt fyrir augljósa hættu og í tilefni af endurkomu BlueBay þá fannst Innherja Vísis upplagt að ræða á ný að gera Ísland að Sviss norðursins. Hugmyndin er forn og kom fyrst fram árið 1970 þegar Jón G. Sólnes, þáverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og áður bankastjóri gamla Landsbankans, viðraði hugmyndina. Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur dustuðu síðan rikið af gölnu hugmyndinni í upphafi aldarinnar og hófu aðgerðir. Niðurstaðan varð eitt stykki fjármálahrun. Þeir sem halda úti Innherja Vísis eru augljóslega með óráði.
BlueBay kom aftur til baka eftir að hafa lokað hurðum með hvelli árið 2020 þegar Ísland var veikast fyrir. Skuldarar á Íslandi eru núna að þræla sér út fyrir bónusgreiðslur til starfsmanna BlueBay um leið og það er ljóst að tilgangur vaxtahækkana á Íslandi er ekki einungis til að vinna gegn verðbólgu. Tilgangurinn er einnig að skapa tækifæri fyrir Seðlabankann til að vinda ofan af rangri og ólöglegri notkun gjaldeyrisforðans. Með auknu áhuga erlendra fjárfesta á íslenskum skuldabréfum þá gefst bankanum kærkomið tækifæri til að redda sér út úr ógöngunum. Ég þykist finna þef af andrúmslofti fyrirhruns áranna með þeirri viðbót að gerendurnir eru komnir með tangarhald á Seðlabanka Íslands. Það þekkist hvergi annars staðar meðal þróaðra ríkja. Ísland er fyrst og síðast.