- Advertisement -

Trúir Halldór Benjamín eigin blekkingum?

Það segir okkur að tilnefningar Samtaka Atvinnulífsins byggja ekki á faglegu mati.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að Halldór Benjamín, áróðursstjóra Samtaka atvinnulífsins, trúi eigin rangfærslum. Þær eru einfaldlega of margar til að geta talist afsakanlegar eða falla undir fávisku. Fræg er bábiljan, sem hann og fjármálaráðherra halda uppi, að það hafi vantað 300 milljarða í hagkerfið í fyrra vegna faraldursins. Staðreyndin er að hagkerfið minnkaði um 104 milljarða króna. Núna skrifar Halldór Benjamín grein í Samherjablaðið, Moggann, þar sem hann fjallar um lífeyrissjóði landsmanna. Hann breytir ekki út af vana sínum og er með frjálslega tjáningu.

Á einum stað segir orðrétt „Skipulag við val stjórnarmanna hjá báðum tilnefningaraðilum (innskot greinarhöfundar: átt er við ýmis samtök atvinnulífsins og launþegahreyfingar) tryggir jafnvægi milli kynja, þekkingu og reynslu stjórnarmanna. Þeir fara í gegnum umsóknarferli þar sem hæfni þeirra er metin af óháðum aðilum“. Síðan á víst hæfasti aðilinn að vera fundinn að sögn Halldórs Benjamíns. Þetta er auðvitað hreinræktuð þvæla hvað hagsmunasamtök fyrirtækja varðar. Ekki þarf að skoða nema til dæmis einn lífeyrissjóð og tilnefningu Samtakanna í hann, Lífeyrissjóð verslunarmanna, til að hrekja yfirlýsingu mannsins.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Fremst á garði Lífeyrissjóðs verslunarmanna er ísdrottningin Guðrún Hafsteinsdóttir.

Fremst á garði Lífeyrissjóðs verslunarmanna er ísdrottningin Guðrún Hafsteinsdóttir. Hún er í prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum. Miðað við mikilvægi sjóðsins og stærð þá hefði maður haldið að Guðrún væri með mastergráðu í fjármálahagfræði eða fjármálaverkfræði til að tryggja faglega þekkingu á rekstri fjárfestingasjóða. Eitthvað sem er flókið fyrirbrigði. Báðar greinarnar veita sérmenntun á þessu sviði. Guðrún er með grunn-menntun í mannfræði og diplóma í jafnréttismálum. Síðan kann hún auðvitað að blanda og selja íspinna.

Ekki er langt síðan að Neytendastofa úrskurðaði að ákvörðun stjórnar sjóðsins, í tveggja ára formannstíð Guðrúnar, að hækka vexti á tilteknum íbúðalánum væri ólögmæt. Sjóðurinn þurfti að afturkalla ákvörðun sína. Úrskurðurinn er ekki bara mikill álitshnekkir fyrir Guðrúnu heldur einnig tilefni til að endurskoða tilnefningu hennar. Guðrún situr enn í stjórn sjóðsins og hefur aftur tekið við formennsku eins siðspillt og það nú er.

Nú þegar Guðrún hefur ákveðið að taka þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins ásamt ólögmætum verkum sínum þá er fullt tilefni til að hún víki sæti. Þeir sem bera ábyrgð á sjóðunum geta ekki verið með slíkan úrskurð á bakinu ásamt því að vasast í stjórnmálum. Lífeyrissjóðir eru ópólitískar stofnanir. Halldóri Benjamín og Guðrúnu finnst ekki nauðsynlegt að Guðrún víki. Það segir okkur að tilnefningar Samtaka Atvinnulífsins byggja ekki á faglegu mati. Þar ræður hvort þú ert innmúraður og innvígður Sjálfstæðismaður öllu. Frásögn Halldórs um annað er hrein blekking, jafnvel hans eigin hugarburður! Að Sjálfstæðisflokkurinn sé farinn að teygja anga sína inn í stjórnir Lífeyrissjóða kallar á að kerfinu verði breytt. Sjóðfélagar eiga sjálfir að fara með atkvæðarétt þegar kemur að kosningu í stjórnir lífeyrissjóða. Klíkubræður Sjálfstæðisflokksins eiga ekkert erindi hér.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: