- Advertisement -

Tuttugu fórust í mannskæðu flugslysi

Síðasta dag janúarmánaðar 1951 varð hörmulegt flugslys. Tuttugu létust, þriggja manna áhöfn og sautján farþegar.

„Á því leikur nú enginn vafi lengur, að flugvélin Glitfaxi fórst síðdegis í fyrradag, er hún hrapaði í sjó skammt frá Álftanesi,“ segir í frétt Vísis frá 1. febrúar 1951. Enn er óvitað hvað olli þessu hörmulega slysi.

Klukkan var rúmlega hálf fimm þann 31. janúar þegar að Glitfaxi hóf sig til flugs í Vestmannaeyjum. Stefnan var sett á Reykjavík. Glitfaxi var nýleg flugvél af Dakotagerð.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Um borð var þriggja manna áhöfn. Flugstjóri var Ólafur Jóhannsson, Reykjavík, Páll Garðar Gíslason, Reykjavík var aðstoðarflugmaður og Olga Stefánsdóttir, Reykjavík var flugfreyja í þessari afdrifaríku flugferð.

Farþegar voru:

Marta Hjartardóttir, Vestmannaeyjum og barn hennar, Herjólfur Guðjónsson, Vestmannaeyjum, Jón Steingrímsson, Vestmannaeyjum, Sigurjón Sigurjónsson, Vestmannaeyjum, Sigfús Guttormsson, Vestmannaeyjum, Magnús Guðmundsson, Reykjavík, Guðmann Guðmundsson Keflavík, Sigurbjörn Meyvantsson, Reykjavík, Ágúst Hannesson, Vestmannaeyjum, Páll Jónasson, Vestmannaeyjum, Þorsteinn Stefánsson, Vestmannaeyjum, Gunnar Stefánsson, Reykjavík, Guðmundur Guðbjörnsson, Arnarholti, Mýrasýslu, Ólafur Jónsson, Reykjavík, Hreggviður Ágústsson frá Norðfirði og Snæbjörn Bjarnason Vestmannaeyjum.

Í frétt Vísis segir: „Klukkan 4.35 e. h. í gær hóf Dakotaflugvélin „Glitfaxi“ sig til flugs af Vestmannaeyjaflugvelli, áleiðis til Reykjavíkur. Tuttugu og þrem mílum síðar, eða kl. 4.50, var flugvélin yfir stefnuvitanum á Álftanesi og átti þá eftir örstutt flug til Reykjavíkurflugvallar.“

Ólafur flugstjóri fékk leyfi til að lækka flugið, eins og reglur mæltu fyrir. Skömmu síðar syrti að með hríðarbyl, og var „Glitfaxa“ þá tilkynnt að ógerlegt væri að lenda eins og á stæði, en gefin skipun um, að fljúga í 4000 feta hæð út yfir Faxaflóa.

„Stuttu síðar birti til, og var þá ákveðið að reyna aðflug öðru sinni. Þá mun „Glitfaxi“ hafa verið í tvö þúsund feta hæð. Hér eftir er ekki vitað annað en að kl. 5.14 kvaðst flugsjórinn vera á leiðinni að stefnuvitanum á Álftanesi, í 700 feta hæð. Þessi tilkynning frá „Glitfaxa“ kl. 5.14 er það síðasta, sem frá honum heyrðist, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til þess að ná sambandi við hann,“ segir í frétt Vísis frá 1. febrúar, daginn eftir slysið.

Var nú sýnt, að flugvélinni hefði hlekkst á. Um kvöldið voru strax gerðir út tveir leitarflokkar. Skyldi annar fara suður á Álftanes og ganga þar á fjörur, en hann skyldi fara í Kaldársel og til fjalla þar í grennd.

Í frétt Vísis segir næst: „Strax í gærkveldi brá Jón Oddgeir Jónsson og fleiri við, og leituðu um óbyggð svæði Álftaness, Gálgahraun og Bessastaðanes, ef ske kynni að flugvélin hefði hrapað þar, en urðu einskis varir. Leituðu þeir til kl. 3 í nótt. Í morgun skipulagði flugumferðarstjórnin í samráði við Slysavarnafélagið frekari og víðtækari leit, bæði í lofti, á landi og á sjó. Um tíu flugvélar af ýmsum gerðum voru á lofti í morgun og flugu þar yfir sem helzt mátti búast við að flugvélin gæti verið. Ekki er vitað, að sú leit hafi borið árangur. Skip og bátar á Faxaflóa og hér í grennd voru einnig beðin að svipast um eftir flugvélinni.

Slysavarnafélag Íslands gerði hinum ýmsu deildum sínum hér í nágrenninu aðvart, svo sem á Kjalarnesi, á Vatnsleysuströnd, Grindavík, Sandgerði og víðar, og hefir verið skipulögð leit með sjó fram og í fjöllum. Fregnir af þeim leiðöngrum eru ekki fyrir hendi. Frá flugturninum hafa í morgun verið gerðir út einir tíu leitarflokkar, þar á meðal frá Flugbjörgunarsveitinni, tvær frá SVFÍ, 3 frá skátum og fleiri. Leita þær hvarvetna í nágrenni bæjarins og upp til fjalla, þar sem hugsanlega væri, að flugvélin væri niður komin. Leit frá Keflavík. Þá átti Vísir tal við Keflavík í morgun, en þaðan var strax gerð út sveit átján skáta og lögreglumanna frá Keflavíkurflugvelli. Leitaði hún á Vogastapa, í hrauninu og til sjávar, en varð einskis vör. Jón Oddgeir Jónsson og fleiri voru til taks í morgun með ýmislegar sjúkravörur og tæki, sjúkrabifreið og aðra bíla til þess að leggja af stað fyrirvaralaust, ef flugvélin fyndist og unnt væri að komast að henni.“

Sem fyrr segir var leitað mikið og víða. Svo fór að brak úr Glitfaxa fannst. Það var Jóhannes Snorrason flugstjóri sem sá brak á sjónum. Ljóst var að engin von væri til þess að fólk hefði lifað slysið af.

„Það má nú telja víst, að flugvélin Glitfaxi hafi farið í sjóinn einhvers staðar á svæðinu milli Álftaness og Keilisness, og allir, sem í henni voru farizt þar. Fannst á bessum slóðum brak úr gólfi flugvélar og eitt björgunarbelti, og brák á sjónum út af Hraunsnesi. Virðist allt benda til þess, að slysið hafi borið mjög skjótt að og fólkið drukknað þegar í stað,“ segir í forsíðufrétt Tímans.

Þar er frétt með þessari fyrirsögn: „Brakið tvímælalaust úr Glitfaxa.“

Varðskipið Ægir var notað við leitina og kom með brakið að landi.

„Hef fundið brak á sjónum. Það líkist krossviðarfleka, brotið á hliðum og upp úr því stendur eitthvað. Gæti verið hluti af gólfi úr flugvél.“

„Þegar er Ægir var kominn að landi var brakið, sem fundizt hafði, tekið til rannsóknar og varð niðurstaðan sú, að brakið væri tvímælalaust úr Glitfaxa. Var um að ræða tvo gólffleka, um tveggja metra langa eða rösklega það, og var annar mun mjórri en hinn. Talið er að annar hafi verið hægra megin úr gólfi flugvélarinnar, en hinn vinstra megin. Stærri flekinn var flagnaður og brotinn í annan endann og skein þar í hvítan balsavið. Við fleka þennan voru einnig brot af stólafestingum, og hluti af áklæði af einum stólnum. Björgunarbeltið, sem fannst, var með órofnu innsigli, og hafði því sýnilega ekki verið notað. Hluti þessa alla töldu flugvirkjar og flugmenn sig þekkja, að væru úr Glitfaxa, enda voru brotsár á viði og málmi alveg ný, og ekki um brak úr annarri flugvél að gera á þessum slóðum.“

Sem fyrr segir kom Jóhannes flugstjóri Snorrason fyrstur manna auga á brakið. Hann tilkynnti þegar í stað að hann sæi á tveim stöðum eitthvað í sjónum, sem gæti verið fleki úr flugvélargólfi. „Risi það á rönd upp úr sjónum, og sæi í nýlegt brotsár. Voru flök þessi út af Keilisnesi í stefnu frá Akrafjalli á Keflavík. Sendi Jóhannes svohljóðandi skeyti: „Hef fundið brak á sjónum. Það líkist krossviðarfleka, brotið á hliðum og upp úr því stendur eitthvað. Gæti verið hluti af gólfi úr flugvél.“

Varðskipið Ægir var þá statt í sex mílna fjarlægð, og kom það nú á vettvang. Kastaði björgunarflugvél frá Keflavíkurflugvelli út fljótandi blysi til þess að merkja staðinn, þar sem flökin voru. Fann Ægir brátt reköldin og auk þess eitt björgunarbelti. Kom hann með þetta til Reykjavíkur.“

Fyrir tíu árum, þegar sextíu ár voru frá slysinu, fjallaði Morgunblaðið um afdrif Glitfaxa. Þar kom fram að slysið skildi eft­ir sig stórt skarð. Áhöfn og farþegar létu eft­ir sig alls fjöru­tíu og átta börn og tvö í móðurkviði.

Dagana eftir flugslysið var margt reynt til að finna flak Glitfaxa og líkamsleifar þeirra sem fórust. Í frétt í Tímanum, fáum dögum eftir slysið, segir af merkri tilraun, sem bar svo ekki árangur.

„Verði veður hagstætt í dag, mun Fanney fara til leitar að flakinu af Glitfaxa með nýjan útbúnað. Er það segull og sjókíkir, ásamt ljóskeri, er nú á að nota við leitina að flakinu. Að sjálfsögðu verður engu spáð um árangur af þessari leit, en rétt þótti, að þessi tilraun yrði gerð, ef vera mætti, að hún bæri árangur.

Segullinn sem verður við leitina, er fenginn frá Kaupfélagi Árnesinga, og var notaður til þess að leita að bílunum, er hröpuðu í Ölfusá, þegar Ölfusárbrúin gamla brotnaði.  Tókst að finna bílana með segulstáli þessu. — Þess er þó að gæta, að hér horfir öðru vísi við, þar eð stórt svæði er um að ræða, er flak flugvélarinnar getur verið á, en bílarnir hlutu að vera á tiltölulega afmörkuðu svæði í ánni.

Segullinn verður notaður þannig, að honum er rennt í sjóinn, og er hann kemur í námunda við málm, eins og flak flugvélarinnar, þyngist hann vitaskuld til muna vegna aðdráttarafls segulstálsins. En þess aðdráttarafls gætir þó ekki, ef segullinn er fjær málminum en 1 —2 metra.

Eins var notast við sjókíki. Sjókíkirinn, sem notaður verður, er fenginn frá Vitamálaskrifstofunni. Verður honum rennt út yfir borðstokkinn, og jafnframt haft ljósker til þess að lýsa í sjónum. En til þess, að þetta komi að notum, verður að vera kyrrt í sjó.

Sem fyrr segir varð enginn árangur af þessari viðleitni til að finna flakið af Glitfaxa sem fórst með tuttugu manns síðasta dag janúarmánaðar 1951.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: