- Advertisement -

Tvísýnir tímar – varúð

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Seðlabankinn á alltaf að vera stjórnað af landsliðsfólki, en svo er ekki í dag. Bankinn er aukreitis undir óeðlilegum áhrifum úr Borgartúninu. Þar er fólk sem hefur almannahagsmuni ekki í heiðri og það bitnar á endanum á atvinnulífinu.

Töluleg munstur segja sögu, senda skilaboð. Góð, sem slæm. Hjálpa að lesa í aðstæður, spá fyrir um mögulega þróun mála og benda á stjórnunarmistök. Núna er munstur uppi sem vekur athygli mína samanber myndirnar tvær. Sú fyrri sýnir þróun verðbólgu í janúar í valdatíð ríkisstjórna Katrínar Jakobsdóttur. Verðbreytingar janúar segja mér talsvert um undirliggjandi krafta bólgunnar vegna þess að þetta er útsölu mánuður og neysla dettur niður eftir jólaeyðsluna.

Árið 2018 er fyrsta fjárlagaár fyrri stjórnar Katrínar og rauk bólgan upp um 0,74 prósent, sem er það næst mesta á öldinni í janúar. Síðan datt hún niður árið 2019 á sama hátt og hún gerði árið 2002. Árin þrjú þar á eftir þá hækkar verðlag jöfnum og áhyggjufullum skrefum. Á seinna tímabilinu þá var Katrín búin að skipa Ásgeir Jónsson sem seðlabankastjóra (sonur Jóns Bjarnasonar fyrrum ráðherra Vinstri grænna), en á því fyrra höfðu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sinn manninn hvor meðal seðlabankastjóra: Davíð Oddsson og Jón Sigurðsson heitinn. Þannig að skemmandi pólitísk tengsl hafa ekki vikið þrátt fyrir fögur fyrirheit.  

Þú gætir haft áhuga á þessum

Árið 2006 var hófstillt eins og árið 2019, en það reyndist einungis vera undanfari hækkandi verðlags þó tímavíddin sé ólík. Að græða á daginn og grilla á kvöldin að hætti græðgisafla var búið að skjóta rótum á fyrr tímabilin. Átti það eftir að setja landið á hliðina tveimur árum síðar í kjölfar hratt vaxandi verðbólgu. Hlutabréfamarkaðir í heiminum í dag einkennast einnig af óraunsæi og eru komnir í langvarandi leiðréttingarfasa. Þunginn í verðlagsbreytingum janúar mánaðar undanfarin tvö ár er mun minni en á fyrra tímabilinu, en mikill undirliggjandi þrýstingur er fyrir hendi nú þegar kjarasamningar renna sitt skeið á enda.

Mörgum fannst þeir búa við auðlegð…

Á fyrra tímabilinu þá styrktist krónan ótæpilega án þess að haglegar forsendur væru þar að baki. Styrkinguna má til dæmis rekja til lántöku í erlendum gjaldeyri og þess að bankarnir voru þá þegar byrjaðir að fjármagna sig með erlendum innlánum (t.d. Icesave og Kaupthing Edge) vegna fjármögnunarvanda á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Einkaneysla á Íslandi var í miklum hæðum á sama tíma og alls konar fólk orðið bæði fjárfestar og millar, svona út á við allavega. Mörgum fannst þeir búa við auðlegð vegna sýndarveruleika sem myndaðist á bólukenndum hlutabréfamarkaði. Allt hrundi eins og spilaborg vegna undirstaðna á sandi. Krónan lenti undir miklum þrýstingi á árinu 2008, en við sjáum ekki viðlíkan þrýsting í dag. Hann er svo sannarlega undirliggjandi fari hið minnsta úr skorðum eða ef Seðlabankinn ákveði að halda sig til hlés í inngripum til lengri tíma litið.

Einkaneysla jókst um 7,4 prósent að jafnaði á árunum 2005 til 2007 á föstu verðlagi á meðan vöxturinn var að jafnaði 2,6 prósent á árabilinu 1990 til 2020 samanber seinni myndin. Ekki ósvipað munstur í vexti einkaneyslu var á árunum 2016 og 2017 þegar hún var að jafnaði um 7,3 prósent.

Ég tel að fyrri og núverandi ríkisstjórn Katrínar Jak hafi, og haldi enn, ranglega á málum.

Það er full ástæða til að bera þessi tímabil saman þó allt aðrir kraftar séu að verki í dag. Fallið getur verið með öðrum hætti en á fyrra tímabilinu, en skellurinn, ef af verður, leggst ekki eins hratt yfir. Áfallið getur engu að síður orðið álíka þegar upp er staðið. Há og vaxandi verðbólga getur leitt af sér aukið og langvinnt grunnatvinnuleysi og kaupmáttarskellurinn mögulega orðið stórtækur. Ef við horfum á samdrátt einkaneyslunnar árið 2020 þá var hann meiri en árið 2001. Spurning núna er hvort hann nálgist lágpunktinn árið 2009 eða hvort viðsnúningur verði á næstu misserum. Ég hef áhyggjur því efnahagsráðstafanir á kóvít tímum voru ósjálfbærar og nýjustu fjárlögin byggja á óskhyggju. Síðan eru miklar vaxtahækkanir á dagskrá ef að líkum lætur vegna mögulegs taumleysis verðbólgunnar.  

Í fjármálahruninu þá voru það óhaldbærir skuldabréfavöndlar (subprime mortgages) sem komu hruninu af stað. Í dag þá er kastljósið á fjármálamörkuðum heimsins farið að færast í auknu mæli yfir á viltar rafmyntir. Áður var engin fylgni á milli verðmætis rafmynta og hlutabréfvísitalna, en þetta hefur breyst. Fylgnin milli Bitcoin og SP hlutabréfavísitölunnar orðin umtalsverð samkvæmt Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Á tölfræðilegan mælikvarða þá mælist hún vera 0,36. Áhyggjur manna eru að hrun í verðmæti rafmynta geti dregið hlutabréfaverð með sér niður. Þannig að við búum enn og aftur við áður óséð áhættutengsl, sem gæti valdið miklum skaða. Síðan veit enginn hvernig mál á Krímskaga vendast. Eitt er þó víst að margir neikvæðir efnahagskraftar eru að verki í dag.  

Ég tel að fyrri og núverandi ríkisstjórn Katrínar Jak hafi, og haldi enn, ranglega á málum. Of mörg mistök hafa verið gerð. Og sú ákvörðun að skipa getulítið fólk til að taka grundvallarákvarðanir upp í Seðlabanka er risastór orsakavaldur hærri verðbólgu hér á landi en þekkist á öðrum Notðurlöndum. Seðlabankinn á alltaf að vera stjórnað af landsliðsfólki, en svo er ekki í dag. Bankinn er aukreitis undir óeðlilegum áhrifum úr Borgartúninu. Þar er fólk sem hefur almannahagsmuni ekki í heiðri og það bitnar á endanum á atvinnulífinu.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: