- Advertisement -

Úr Gráskinnu hinni meiri / Höggin í Efstadal

Á síðastu áratugum 19. aldar bjó í Efstadal í Ögursveit við Ísafjarðardjúp bóndi sá, er Guðmundur hét. Hann var Egilsson. Konan hans hét Margrét Jónsdóttir. Þau hjón áttu 17 börn, og var elztur þeirra Jón, síðar útgerðarmaður í Ögurnesi. Efstidalur stendur nokkuð langt frá aðalbyggðinni, og er tveggja tíma gangur þaðan að Laugabóli sem er næsti bær. Svo var húsum háttað í Efstadal, þegar Guðmundur Egilsson bjó þar, að baðstofa var portbyggð og stofa undir baðstofugólfi, en göng alllöng frá baðstofuuppgöngu til útidyra.

Það var einn dag veturinn 1884-85, að Guðmundur bóndi var inni í baðstofu, en eldri börnin voru að leika sér í stofunni niðri. Þau voru 6 saman, og var Jón meðal þeirra, þá 10 ára gamall. Stórhríðarveður var úti.

Börnin voru ærslafull mjög, eins og títt er með börn, þegar þau eru mörg saman, og var því því hávaði mikill í stofunni, en þau með hugann allan við leik sinn. Allt í einu er rekið svo mikið högg á útidyrahurðina, að Jóni virtist allt húsið hristast, en öllu sló í dúnalogn í stofunni. Fylgdi nú hvert höggið og fóru ekki minnkandi. Vissu börnin ekki, hverju þetta sætti, og greip þau ótti mikill, svo þau ruddust upp í baðstofuna, þar sem faðir þeirra var fyrir, og fóru svo geyst sem þau máttu. En höggin héldu áfram þar til komin voru átján.

Þegar um kyrrðist, gekk Guðmundur út og litaðist um, en sá engin verksummerki, og engan mann, enda voru höggin miklu meiri en svo, að af mannavöldum gæti verið.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Maður, sem Guðmundur hét, hafði áður verið vinnumaður í Efstadal. Hafði hann oft gert börnunum smáglettur, þegar ólæti þeirra þóttu ganga úr hófi. Hann réri þennan vetur í Bolungarvík.

Skömmu eftir að höggin heyrðust í Efstadal, fór Guðmundur niður að Laugabóli og frétti hann þar, að nafni hans hafði drukknað í fiskiróðri sama daginn sem höggin heyrðust.

(Skrásett af Konráði Erlendssyni á Laugum eftir frásögn Margrétar, dóttur Jóns í Ögurnesi, sem var einn af þeim, sem högginheyrðu, en hún hafði oft heyrt föður sinn segja frá þessum atburði).


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: