
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Egill er augljóslega með andúð á Gunnari Smára Egilssyni fulltrúa Sósíalistaflokksins.
Verið er að misnota Ríkisútvarpið til að hygla tilteknum pólitískum skoðunum um leið og hlustun mín er trufluð.

Það fór ekki fram hjá áhorfendum að fyrstu kappræðum RÚV að annar þáttastjórnandinn, Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, gjammaði framan í stjórnarandstöðuna á meðan herra aðal fékk að flytja sitt mál án truflana. Hegðun Jóhönnu kom þannig í veg fyrir hlutlausa og lýðræðislega umræðu í sjónvarpi landsmanna. Egill Helgason bætti um betur og var með pólitískar stungur frá hægri í Silfri helgarinnar.
Egill er augljóslega með andúð á Gunnari Smára Egilssyni fulltrúa Sósíalistaflokksins. Misfór með nafn hans og beindi pólitískum hægri áróðir að honum án þess að hann fengi að svara á móti. Ef ég man rétt þá hefur Egill áður opinberað óbeit sína á Gunnari Smára í skrifum sínum. Óþol Egils er af persónulegum toga og á ekkert erindi inn í sali Ríkisútvarpsins. Með réttu þá átti Egill að hafa vit á því að stjórna ekki þætti helgarinnar.
Á ferðinni er grafalvarlegt mál.
Síðan var stórundarlegt að sjá Egil stjórna þætti þar sem einn gestanna er vinnufélagi Egils til margra ára, ef ekki áratuga. Þeir deila mötuneyti og öðrum húsakynnum í vinnunni. Eru kannski saman í lokuðum spjallhópum á ýmsum samfélagsmiðlum. Þarna var tilefni til að fá hlutlausan utanaðkomandi aðila til að stjórna þættinum. Nei, Egill er stofnun inn í stofnun og lætur ekki bifa sér.
Vegna þess að mér blöskrar skipanin og hlutdrægnin þá sendi ég útvarpsstjóra tvívegis ábendingu um að þetta yrði að lagfæra hið snarasta í nafni lýðræðis og jafnra stöðu þátttakenda. Afstaða stjórans er óviðunandi. Í svari til mín segir orðrétt „Þau atriði sem þú vísar til kalla ekki á viðbrögð eða frekari skoðun af minni hálfu“. Sem sagt, starfsmenn Ríkisútvarpsins hafa það í hendi sér að stunda pólitískan áróður í þáttum á vegum RÚV. Ég er ansi hræddur um að ef hallað hefði á Sjálfstæðisflokkinn í þessum efnum að þá væri nú þegar búið að boða til stjórnarfundar RÚV og kalla útvarpsstjóra á teppið.
Ég greiði nauðugur útvarpsgjald og geri því kröfu að brugðist verði við athafnaleysi útvarpsstjórans. Á ferðinni er grafalvarlegt mál. Verið er að misnota Ríkisútvarpið til að hygla tilteknum pólitískum skoðunum um leið og hlustun mín er trufluð. Ég vil fá að heyra hvað allir frambjóðendur setja fram, en ekki hvaða skoðun þáttastjórnendur kunni að hafa. Er til of mikils ætlast?