- Advertisement -

Vælukjóinn Þorsteinn Már

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Lubbamennið Þorsteinn Már var í örviðtali hjá Fréttablaðinu. Hafði ekkert málefnalegt fram að færa, en vældi ógurlega um að hann ætti að fá að vera í friði með að græða eins  mikið og honum þóknast á einkaaðgangi sínum að sjávarauðlind landsins. Reyndi síðan að búa til úlfúð gagnvart þeim Norðmönnum sem stunda laxeldi í sjó við Ísland. Sagði þá voðalega stóra og yfirgengilega. Það er einmitt eitthvað sem Þorsteinn Már hefur næmt auga fyrir samanber mútumálið í Namibíu, upphreinsun smárra útgerðarfyrirtækja hringinn í kingum landið og skattasvindlið í Færeyjum svo fátt eitt sé nefnt.  

Í viðtalinu talar lubbataskurinn um að sjávarútvegurinn þurfi fyrirsjáanleika til margra ára. Þarna var Þorsteinn Már með misheppnaðan brandara enda sagt að Samherji hafi lofað Ísfirðingum að Guggan yrði gerð áfram út frá Ísafirði. Fólkið átti að halda störfum sínum og gæti treyst á fyrirsjáanleika Þorsteins Más. Það gæti áfram borgað af lánum og alið börn sín upp í sóma. Þetta reyndist lygi, margir urðu atvinnulausir og kynntust örbirgð. Flosnaði jafnvel upp og þurfti að flytja búferlaflutningum landshluta á milli, ef ekki til útlanda, til að finna vinnu.

Síðan segir lubbamennið að Samherji hafi fjárfest voða mikið á undanförnum árum, en sleppir að telja upp allar fjárfestingar eigenda Samherja í alls óskyldum rekstri vegna ofsagróða Samherjaveldisins af einkaaðganginum. Þar má til dæmis nefna að einn hluthafi Samherja á eitt stykki miðbæ á Selfossi. Af viðtalinu að dæma þá er Þorsteinn Már samt fátækur því óburðug eru siðferðilegu gildin, sem hann speglar þjóðina í með viðtalinu.