- Advertisement -

Vændur um launaþjófnað og brot á lögum um ársreikninga

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Óreiðan var svo yfirgengileg að löggiltir endurskoðendur fengust ekki til að endurskoða né staðfesta ársreikninga búsins með áritun.

Sundrungaraflið Ásmundar Einar Daðason og fjölskylda sukkuðu Þverholtabúið á Mýrum í þrot þrátt fyrir að hafa þegið ríkisstyrki upp á hundruð milljónir króna. Óreiðan var svo yfirgengileg að löggiltir endurskoðendur fengust ekki til að endurskoða né staðfesta ársreikninga búsins með áritun. Sá endurskoðandi sem þó náði að klambra saman ársreikning án undirritunar undir það síðasta lýsti yfir að  búið væri órekstrarhæft og skuldum vafið.

Glundroðinn endaði með því að Kaupfélag Skagfirðinga tók búið yfir í gegnum Fóðurblönduna eftir að hafa tekið á sig stórfellt tap vegna viðskipta og lánveitinga til Þverholtabúsins. Um leið voru dagar Ásmundar Einars í stjórnmálum þar nyrðra taldir. Hrökklaðist hann í burtu og ætlast óreiðumaðurinn nú til að Reykvíkingar kjósi hann á laugardaginn. Áður hafði hann klofið Vinstri græn í sinni heimasveit, Dalabyggð.

Ársreikningar margra fyrirtækja fjölskyldu ráðherrans eru ekki í samræmi við lög um ársreikninga. Skil á ársreikningum inn til ársreikningaskrár er einnig í ósamræmi við lögin. Viðurlög við brotum á lögum um ársreikninga getur varðað allt að 6 ára fangelsi svo alvarleg þykja brot á þessum lögum vera. Svo er uppi grunur um að ákveðið fyrirtæki í eigu og umsjón fjölskyldu ráðherrans hafi gerst brotlegt við 262. grein hegningarlaga. Greinin fjallar um undanskot frá skatti. Sjálfur fullyrði ég ekkert varðandi þetta atriði og vísa alfarið í umfjöllun Kvennablaðsins frá árinu 2016. Það er aftur á móti fullt tilefni að fram fari opinber rannsókn á bókhaldi og ársreikningum fyrirtækja í eigu og umsjón fjölskyldu Ásmundar Einars.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Lenti hann í vanda fyrir vikið.

Í kingum Þverholtabúið kom upp fréttaflutningur að fyrirtækið hafi stundað launaþjófnaði gagnvart starfsmanni sínum. Upp um komst þegar viðkomandi vinnumaður hugðist sækja sér styrk hjá stéttarfélaginu sínu til að afla sér réttinda til að stjórna lyftara. Kom þá í ljós samkvæmt fréttum að Þverholtabúið hafði greitt laun undir lágmarkstaxta og ekki gert skil á stéttarfélagsgjaldi vinnumannsins. Lenti hann í vanda fyrir vikið.

Þessi frétt hefur ekki verið hrakin, en Ásmundur Einar sýndi aftur á móti af sér lítinn manndóm þegar hann reyndi að koma sökinni yfir á ónafngreindan endurskoðanda. Sá hefur aldrei stigið fram. Samkvæmt opinberum gögnum þá var það eiginkona Ásmundar Einars sem fór með fjármálastjórn búsins í gegnum prókúru sem hún hélt utan um.

Eftir að hafa gert ítarleg skil á viðskiptasögu Ásmundar Einars og fjölskyldu hér á Miðjunni þá sendi ég Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra opið bréf samanber hér „Skrifar Katrínu vegna Ásmundar Einars“. Spurning mín var hvort það væri siðferðilega verjandi að Ásmundur Einar gegni ráðherraembætti á meðan hann getur ekki borið af sér ásakanir um launaþjófnað og brot á lögum um ársreikninga. Svar forsætisráðherra má finna hér „Forsætisráðherra á undanhlaupum“. Katrín bandaði allri ábyrgð frá sér og sagði að siðferðileg ásjóna ríkisstjórnarinnar sé ekki á hennar ábyrgð. Ásmundur Einar situr enn í ríkisstjórn, sem segir allt um siðferðisvitund Vinstri grænna og Framsóknarflokksins.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: