- Advertisement -

Værum ekki í sömu stöðu og Grikkir

Nátttröllið í íslenska seðlabankanum snéri upp á sig og afþakkaði kostaboð.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Því hefur oft verið haldið ranglega fram og nú í nýrri grein á Miðjunni að Ísland væri í sömu stöðu og Grikkir ef Íslendingar hefðu ekki farið það sem sumir kalla „íslensku leiðina“ eftir hrun. Í þessu samhengi hefur verið sagt að Grikkir hafi „orðið“ að þiggja aðstoð Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins (AGS) og Evrópusambandsins (ESB) og skuldsett sig ógurlega í staðinn. Svo hefur því einnig verið haldið fram ranglega að AGS hafi viljað þvinga einhverju ofan í kok Íslendinga. Skoðum þessar staðhæfingar örstutt.

AGS kom hingað til lands að beiðni Íslendinga og færðu okkur björgunarhringi og farsæla ráðgjöf. Sjóðurinn þvingaði engu upp á okkur, en lánaði okkur fullt af gjaldeyri þegar hann var ekki til í landinu. Erlend greiðslumiðlun var að miklu leyti lokuð eða í besta falli mjög treg. Ísland var einangrað og erlend viðskipti voru í uppnámi! Ekki gleyma þessu ástandi.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Sauma varð fyrir blæðandi slagæðar landsins.

Með aðkomu AGS þá fékk Íslandi rúmlega fimm milljarða Bandaríkjadala að láni eða rúmlega 700 milljarða króna. Það er álíka fjárhæð og núverandi varasjóður Seðlabankans. Með komu AGS var mögulegt að taka krónuna af frjálsum markaði. Stöðugt gengi var frumforsenda þess að hafa hemil á innlendu verðlagi og verja skuldir heimila og fyrirtækja. Þið munið að þessir aðilar voru hlaðnir af erlendum lánum og því varð að stöðva blæðinguna sem frjálst gengi olli. Sauma varð fyrir blæðandi slagæðar landsins.  Aðkoma AGS  opnaði einnig fyrir viðræður við erlenda seðlabanka um lánalínur og skipti samninga á gjaldeyri. Án aðkomu AGS þá hefði allt ofangreint ekki hafist, í besta falli tafist úr hófi fram. Jafnvel mörg ár. Ekki vera fljót að gleyma að búið var að loka á Ísland.

Ástandið á Grikklandi á sér áratuga langan aðdraganda og er landið í raun búið að vera gjaldþrota um langa hríð. Í hruninu kom í ljós að opinberar hagtölur voru falsaðar og landið var búið að lifað um efni fram um áratugaskeið. Kom til dæmis í ljós að skuldir Grikklands vor margfalt meiri en þarlend yfirvöld höfðu upplýst! Markaðurinn missti tiltrú og hætti að lána til Grikklands. Það var þá sem AGS, ESB og fleiri stigu inn og björguðu málum með ítrekuðum  neyðarlánum, en það þurfti að grípa til sársaukafullra aðgerða samhliða vegna óráðsíu í fortíðinni. Síðan var fimmtíu prósent af skuldum einkabanka afskrifaðar árið 2011. Efnahagsleg hörmungarsaga Grikkja undanfarna áratugi hefur ekkert með AGS, ESB eða evruna að gera og ekki heldur hrunið. Þetta endurspeglast í því að landið hefur ekki valið að yfirgefa evruna því þá væri staðan endanlega ónýt. Gengisfellingartrikk var og er ekki efnahagslausn. Það þurfti einfaldlega að taka í taumana.

Davæið Oddsson og Geir H. Haarde.

Íslenska leiðin gekk út á að tryggja innlend innlán, en ekki erlend innlán. Þið munið að íslensku bankarnir opnuðu útibú í Hollandi og Bretland (Kaupthing Edge Icesave og fl.) og tóku við sparifé þarlendra aðila. Þegar vandamál fór að gera vart við sig þá setti Breski seðlabankinn sig í samband við Davíð Oddsson þáverandi seðlabankastjóra. Sá breski bauðst til að taka íslensku útibúin undir sinn verndarvæng. Ísland réði ekki við umfangið var sagt því Bretland er svo miklu stærra land. Nátttröllið í íslenska seðlabankanum snéri upp á sig og afþakkaði kostaboð. Þetta er líklega heimskulegasta ákvörðun sem Seðlabanki Íslands hefur tekið! Svo kom hrunið og ekkert var við ráðið. Ríkisstjórn Geir Haarde ákvað að skilja erlenda sparifjáreigendur eftir út í kuldanum. Er það sanngjarnt eftir að Íslenskir aðilar höfðu tekið við sparifé fólksins í þessum löndum? Svari nú hver fyrir sig.

Í kjölfarið voru sett hryðjuverkalög á Ísland og þið þekkið framhaldið. Sem betur fer tókst eftir fjöldamörg ár að endurgreiða erlendum sparifjáreigendum með sölu hrunabankaeigna. En skaðinn var samt mikill fyrir erlendu aðilana og orðspor Íslands beið hnekki.

Það er rangt að bera Ísland og Grikkland saman á krísutímum. Og það er ekki eitthvað til að stæra sig af að hafa skilið erlenda sparifjáreigendur eftir út í kuldanum. Það má þó segja að eftir svaðilför Íslands í hruninu að þá hafi sparifé einstaklinga fengið aukinn sess þegar bankakrísur koma upp á kostnað áhættufjárfesta. Það er ávinningur! Hvort það er Íslandi að þakka sérstaklega er til heimabrúks.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: