Fréttir

Valdið færist til fólksins

By Miðjan

October 31, 2019

Þingmenn Flokks fólksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að valdið yfir lífeyrissjóðunum verði í höndum eigenda þeirra, fólksins.

„Mikilvægt er því að færa valdið aftur til sjóðfélaga og setja um það skýrar reglur. Er því lagt til að í frumvarpi því sem lagt verði fyrir Alþingi verði m.a. kveðið á um að stjórn lífeyrissjóða boði til félagsfunda í samræmi við samþykktir sjóðanna og atkvæðisréttur sjóðfélaga á félagsfundi fari eftir áunnum og framreiknuðum iðgjöldum þeirra eftir nánari ákvæðum í samþykktum sjóðanna. Eðlilegt er þó að sjóðfélagi geti veitt öðrum skriflegt umboð til að fara með atkvæði sitt á félagsfundum. Þá telja flutningsmenn rétt að lögfesta ákvæði sem tryggi að kosning stjórnar sé tekin fyrir á hverju ári,“ segir í greinargerðinni.

Þar segir einnig: „Nauðsynlegt er að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra með skýrari reglum um að stjórnarmenn megi ekki eiga eignarhlut eða stunda viðskipti fyrir eigin reikning í fyrirtækjum sem lífeyrissjóðurinn á hlut í eða stundar viðskipti við. Jafnframt þarf að tryggja að opinbert eftirlit sé með hagsmunum stjórnarmanna og framkvæmdastjóra lífeyrissjóða svo að grípa megi til aðgerða ef kemur til hagsmunaárekstra. Því er lagt til að í frumvarpinu verði Fjármálaeftirlitinu falið að halda skrá um fjárhagslega hagsmuni og trúnaðarstörf stjórnarmanna og framkvæmdastjóra lífeyrissjóða og jafnframt að hafa eftirlit með því að þeir hagsmunir og þau trúnaðarstörf myndi ekki hagsmunaárekstra gagnvart hagsmunum lífeyrissjóðs og sjóðfélaga.“