Tónlistarmaðurinn Valgeir Guðjónsson fagnaði nýverið sjötugsafmæli sínu. Í fyrra greindist Valgeir með alvarlegt eitlakrabbamein og var um tíma í mikilli hættu.
Hann segir frá þessu í viðtali við Morgunblaðið.
„Ég var búinn að vera svolítið skrítinn og svo fann ég hnúð í náranum í fyrravor. Ég fór í bæinn og fór fyrst í sneiðmyndatöku og svo fleiri myndatökur og loks var ég skorinn til að taka sýni úr náranum til að greina þetta æxli,“ segir Valgeir.

Í ljós kom að meinið var illkynja og Valgeir var settur í jáeindaskanna; þar uppgötvaðist að meinið hefði dreift sér í alla eitla og inn í merg.
„Mér var ekki illt en ég var slappur og ég finn enn að ég er ekki alveg á fullu gasi. Áður en meðferðin hófst vorum við það lánsöm að samtal var strax á milli sérfræðinga á Landspítalanum og okkar mæta krabbameinslæknis hér á Suðurlandi,“ segir Valgeir og bætir við að „þetta er banvænn sjúkdómur og okkur var strax gert það ljóst. “
En jákvæðar fréttir bárust um áramótin þess efnis að Valgeir hefði komist yfir það versta.

Var Valgeir hræddur um að deyja?
„Nei, ég tók þann pól í hæðina að einhvern veginn myndi þetta allt ganga. Svo fengum við upphringingu rétt fyrir áramótin um að meðferðin hefði skilað góðum árangri og að eitlarnir væru nú hreinir,“ segir Valgeir – en eðlilega verði áfram fylgst með honum; til að ganga úr skugga um hvort krabbameinið taki sig upp á nýjan leik.
Valgeir segir um veikindin að „ég er ekki jafn einbeittur og ég hef verið og ég upplifði ekki sorg.“
En hvað með framtíðarplönin? Er helgur steinn í sjónmæli?
„Nei, ég hef bara ekki fundið þann stein ennþá.“