- Advertisement -

Varúð hætta á ferð!

Ef farið er aðeins aftar í tíma þá töpuðu lífeyrissjóðir skrilljónum á fjármálahruninu þegar áhættusæknin tröllreið öllu.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Í megindráttum þá er hlutverk lífeyrissjóða það eitt að ávaxta lífeyrissparnað launafólks til að standa undir sem mestum lífeyri fólks á efri árum. Í samhenginu þá ber sjóðum að lágmarka áhættu miðað við gefna ávöxtunarkröfu. Fjárfestingar sjóðanna þurfa því að vera fjölbreyttar og traustar. Dreifast víða. Alveg eins og eggjabóndinn sem hleður ekki of mörgum eggjum í sömu körfuna. Það minnkar hnjask og tjón.

Vel reknir lífeyrissjóðir dreifa því eignasafninu milli ólíkra tegunda verðbréfa og milli ólíkra hagkerfa heimsins. Í sinni einföldustu mynd þá skiptast verðbréfin milli vaxtaberandi skuldabréfa og hlutabréfa. Verðbréfin bera mismikla áhættu og ræðst ávöxtunarkrafa þeirra meðal annars af mældri áhættu. Af þessum ástæðum þá þurfa lífeyrissjóðir að velja hvern fjárfestingarkost af kostgæfni. Og valið skal eingöngu vera út frá hagsmunum sjóðfélaganna. Vandaðir sjóðir styðjast því við viðurkenndar aðferðir við ákvörðun um samsetningu eignasafns.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Einn farsælasti lífeyrissjóður veraldar rekur sögu sína í gegnum tvær heimsstyrjaldir, Allianz. Fjárfestingarstefna sjóðsins er íhaldssöm. Að uppistöðu þá er meira en 85 prósent fjárfestinga örugg skuldabréf gefin út vítt og breitt um veröldina. Afgangur safnsins er bein og óbein fjárfesting í ráðsettum hlutabréfum og fasteignum. Löng og farsæl saga Allianz byggir á öguðum vinnubrögðum, hófstilltri áhættu, stefnufestu og kunnáttu. Margt af þessu vantar inn í íslensku lífeyrissjóðina. Bæði meðal starfsmanna og stjórna. Í heiminum þá líta margir sjóðsstjórar á Allianz sem fyrirmynd að vel reknum fjárfestingarsjóð.

Með þetta í forgrunninum þá voru nýleg skrif Halldórs Benjamíns Þorbergssonar í Samherjablaðið óábyrg. Á einum stað stendur orðrétt „Nauðsynleg ávöxtun næst ekki einungis með kaupum á ríkisskuldabréfum og fjármögnun á fasteignakaupum sjóðfélaga. Þar verður að koma til verðbréf og eignarhlutar sem bundin eru í atvinnulífinu – fjölbreyttum fyrirtækjum innanlands og utan. Með þátttöku í alls kyns atvinnurekstri geta lífeyrissjóðirnir náð að tryggja almenningi sæmandi lífeyri“. Halldór Benjamín minnist alveg sérstaklega á þátttöku lífeyrissjóða í nýsköpun þó hún sé ekki hlutverk lífeyrissjóða. Málflutningurinn var ekki rökstuddur eins við var að búast. Umorða má vilja hans í eina stutta setningu: „Lífeyrissjóðir eiga að tefla lífeyri landsmanna í tvísýnu“.

Samantekið, þá er viðhorf Halldórs Benjamíns hrein firra.

Eins og vitað er þá verður lítið brot af nýsköpunartilraunum að tekjuaflandi rekstri. Ágætt dæmi er leikjaframleiðandinn Plain Vanilla. Nýsköpunarfyrirtæki sem flaug á hausinn með miklu brambolti. Neytendur vildu ekki vöruna sem fyrirtækið bauð upp á. Annað dæmi úr sömu átt er Teatime ehf, sem varð gjaldþrota á síðasta ári. Stofnandinn í báðum fyrirtækjum gekk út með hundruð milljóna króna, skaðlaus af öllu. Þekkt er að nokkrir lífeyrissjóðir töpuðu stórt á kísilmálminum í Helguvík. Kolaspúandi mengarinn á Húsavík er stopp. Síðan þekkja allir sögu WOW air og Iceandair. Ef farið er aðeins aftar í tíma þá töpuðu lífeyrissjóðir skrilljónum á fjármálahruninu þegar áhættusæknin tröllreið öllu. Tap sem kallað á niðurfærslu lífeyrisréttinda.  Samantekið, þá er viðhorf Halldórs Benjamíns hrein firra.

Í hlutafjárútboði Síldarvinnslunnar um daginn þá græddu fáeinir einstaklingar hundruð milljóna króna á nokkrum vikum án þess að verðmætasköpun fyrirtækisins hafi aukist. Gróði þeirra kemur úr vösum landsmanna í gegnum fjárfestingu lífeyrissjóðanna í vinnslunni. Útboðsgengið var svo hátt að ekkert má út af bregða í umhverfi Síldarvinnslunnar. Viðkomandi ganga hlæjandi frá borði. Þetta er það sem Halldór Benjamín er að tala fyrir. Vildarvinir Samtaka atvinnulífsins og Sjálfstæðisflokksins eiga víst að fá að ganga um lífeyrissjóðina eins og hvert annað spilavíti. Þegar Halldór Benjamín mælir þá verður mér alltaf hugsað til umferðarmerkisins „varúð hætta á ferð“.  


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: