- Advertisement -

Veldur auknum verðbólguvæntingum og ógnar fjármálastöðugleika

Jóhann Þorvarðarson:

Ef dugur væri í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur þá færi hún fram á afsögn Ásgeirs ellegar verði sett brottrekstrarlög. Ástandið er grafalvarlegt og afleikir Ásgeirs of margir.

Tiltrú er hugtak sem fjármálamarkaðir og fjármálahagfræði vinna út frá enda hefur hún bein áhrif á ávöxtunarkröfuna. Að öllu öðru óbreyttu þá lækkar vaxtarstigið með aukinni tiltrú og hækkar með þverrandi trausti. Áhættuálag vaxta mótast því í mikilvægum atriðum af tiltrú markaðarins til háttsemi og aðgerða stjórnvalda.

Gott dæmi um rándýrar afleiðingar slælegra vinnubragða embættis- og stjórnmálamanna kemur frá Bretlandi þegar ríkisstjórn Liz Truss lagði fram glórulaust fjárlagafrumvarp á breska þinginu í haust. Markaðsvextir ruku upp og tiltrúin hvarf. Ný lán til íbúðarkaupa stöðvuðust og afborgunarok íbúðalána með breytilega vexti rauk upp. Breskir fjármálamarkaðir léku á reiðiskjálfi og Liz sagði af sér. Markaðir róuðust og vextir lækkuðu vegna tiltrúar um betri stefnu og bætta starfshætti. Vextir hafa aftur á móti tekið til við að hækka á ný samhliða minnkandi tiltrú vegna hlálegrar tiltektar Íhaldsflokksins. Mun það því koma í hlut kjósenda að hreinsa til á breska þinginu og koma skikk á málin.

Þegar Ásgeir Jónsson var skipaður í embætti seðlabankastjóra af Katrínu Jakobsdóttur þá var tiltrú til hans ekki upp á marga fiska nema þá helst hjá Vinstri grænum. Ásgeir tók við fínu búi af Má Guðmundssyni og stýrivextir voru þá þegar á niðurleið. Sú leið hélt áfram og með kóvít-19 faraldrinum þá var vöxtum húrrað niður undir 1 prósentustig. Vegna þessa þá jukust vinsældir Ásgeirs til skamms tíma litið enda var hann duglegur að ganga í augun á fólki með óhaldbærri fullyrðingu um að vextir væru komnir til með að vera lágir og að verðtryggingin væri gengin sér til húðar. Fjölmörg heimili töldu sig þá hafa efni á íbúðarkaupum en eru í raun fórnarlömb faglegrar óhæfni seðlabankastjóra.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Á skipunartíma Ásgeirs þá hefur þjóðin þurft að horfa upp á endurteknar sápuóperur…

Samhliða lágum vöxtum þá tók Seðlabankinn ákvörðun í mars 2020 um að auka útlánagetu banka um 12 prósent með einu pennastriki án þess að setja fjárgirðingar utan um féð. Féð hljóp allt í sama fjárhólfið með tilheyrandi mikilli verðbólgu á fasteignamarkaði, sem enn er með myndarlegt framlag til verðbólgunnar.

Á skipunartíma Ásgeirs þá hefur þjóðin þurft að horfa upp á endurteknar sápuóperur þar sem hann er í aðalhlutverki: ólögmætt markaðssamráð á gjaldeyrismarkaði, rökstuddar ásakanir fræðimanna um ritstuld og ósannsögli tengt málunum, aflátsbréf keypt af vini, bolabrögðum beitt til að koma í veg fyrir að Siðanefnd Háskóla Íslands fjalli faglega um ritþjófnaðinn, hjólað í nafngreinda forystumenn launþegahreyfinga með ósmekklegum hætti, gert lítið úr mótmælum á Austurvelli og trúnaður brotinn við aðra embættismenn svo fátt eitt sé nefnt.

Ásgeir hefur einnig tekið afstöðu með Samtökum atvinnulífsins þegar kjarasamningar hafa verið í gangi og hann bretti síðan upp ermarnar að beiðni Halldórs Benjamíns hjá Samtökunum þegar VR vildi skipta út stjórnarmanni í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna þó bankinn hefði enga lagaheimild til afskipta. Svo hefur Ásgeir lýst yfir að nýlegir kjarasamningar séu hófsamir bara til að þurfa að draga það álit sitt til baka stuttu síðar vegna utanaðkomandi þrýstings. Ringulreiðin, tortryggnin og uggurinn í kringum Ásgeir veldur aukaálagi á umrædda ávöxtunarkröfu og kostnaðurinn af því kemur beint úr vasa skuldara.

Bendir hann skuldugum heimilum á að lengja í lánum eða færa sig yfir í verðtryggð eignaupptökulán…

Ásgeiri hefur mistekist að byggja upp tiltrú eftir að hann var skipaður seðlabankastjóri og er á sama stað og þegar Kaupþing banki féll með refsiverðum hætti. Það blasir bara við að Ásgeir ræður ekki við starf seðlabankastjóra enda skortir hann faglega getu, grandsemi, óhæði, hæversku og geðró til að gegna starfinu. Allt eru þetta eiginleikar góðs seðlabankastjóra, en Ásgeir hefur ítrekað sýnt að hann býr ekki yfir eðlisþáttunum. Því miður fyrir þjóðina því Ásgeir klæðist iðulega fallegum klæðskerasaumuðum jakkafötum. Þannig að umbúðirnar eru í lagi.

Skortur á tiltrú til starfa Ásgeirs er farin að hafa áhrif á verðbólguvæntingar á Íslandi með þeim afleiðingum að vextir eru allt of háir. Á sama tíma og buddur fjölmargra heimila blæðir út krefur hann sömu aðila um að axla ábyrgð á hans eigin axarsköftum. Bendir hann skuldugum heimilum á að lengja í lánum eða færa sig yfir í verðtryggð eignaupptökulán, sem hann hafði áður sagt vera barn síns tíma. Úrræðið lækkar framtíðarafkomu heimila að óbreyttu á meðan Ásgeir makar krókinn skeytingarlaus um eigin gjörðir.

Vera Ásgeirs í stóli seðlabankastjóra ógnar einnig fjármálastöðugleika landsins þar sem vaxtafesta margra heimila er annað hvort liðin eða að losna á næstu mánuðum, skuldahengja vofir yfir landinu. Ef dugur væri í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur þá færi hún fram á afsögn Ásgeirs ellegar verði sett brottrekstrarlög. Ástandið er grafalvarlegt og afleikir Ásgeirs of margir. Tjalda þarf öllu til í baráttunni við verðbólgudrauginn og tiltrú til Seðlabankans spilar þar afar mikilvægt hlutverk.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: