
Jóhann Þorvarðarson:
Daglegar upphrópanir um háa verðbólgu án þess að ræða rót vandans sýnir og sannar að umræðan er á villigötum. Og enginn axlar ábyrgð, ekki frekar en áður!
Frá árinu 1970 og fram til ársins 1991 þá var íslensk verðbólga agalaus, en á tíunda áratugnum og fram undir aldamót þá var hegðun hennar til nokkurs sóma og hún að jafnaði lægri en hjá nágrönnum okkar. Þann árangur má þakka ákvörðun um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu og gerð þjóðarsáttar gegn verðbólgu árið 1990. Um aldamótin þá fór aftur að syrta í álinn þegar Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson fengu hér öll völd til að grafa undan heilbrigðri landsstjórn. Hefur verðbólga ætíð síðan verið umtalsvert hærri en hjá samkeppnislöndum okkar. Verst var þó ástandið í aðdraganda og í kjölfar fjármálahrunsins árið 2008 eftir einkavinavæðingu bankakerfisins.
Það sem er einkennandi fyrir tímabilið frá 1970 er að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn hafa gjarnan farið með stjórn efnahagsmála þó með fáum veigamiklum undantekningum. Ólafur Ragnar Grímsson var til dæmis fjármálaráðherra þegar þjóðarsáttin var gerð og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fór með stjórn efnahagsmála í kjölfar hrunsins. Í bæði skiptin náðist að siða verðbólguna til. Segja má að þessir aðilar hafi þurft að hreinsa upp eftir ólifnað og sérhagsmunagæslu Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.
Frægt er til dæmis þegar Árni M. Mathiesen sagði á Alþingi að þeir sem væru með áhyggjur sæju bara ekki fylleríið sem væri í gangi og ættu bara að fá sér einn sterkan. Og jafnfrægt er þegar kúlulánadrottningin hún Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði erlendum prófessor að sækja sér endurmenntun því Ísland væri efnahagsundur, sem hann hefði ekki skilning á.
Krónan var tekin af markaði og björgunarhringir sóttir til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.
Þegar fjármálamarkaðurinn hrundi þá var ekki nóg að skipta bara um ríkisstjórn heldur þurfti einnig að moka stjórnendum út úr Seðlabanka Íslands til að endurbyggja tiltrú erlendra aðila og endurreisa hagkerfið. Krónan var tekin af markaði og björgunarhringir sóttir til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Þannig má segja að skipt hafi verið um áhöfn á flestum vígstöðvum enda þykir ekki ásættanlegt að brennuvargar komi aftur á vettvang til að slökkva bál sem þeir sjálfir stofnuðu til. Annað dæmi um það þegar skipti er um áhöfn með góðum árangri er þegar Jón Baldvin og Ólafur Ragnar tóku við fjármálaráðuneytinu af Þorsteini Pálssyni og úr varð hin fræga þjóðarsátt sem áður var nefnd.
Staðan í dag hvað verðbólguna varðar er verri en hún var fyrir fjármálahrunið þegar bólgan fór úr 8,6 prósentum árið 2006 og uppi í 18,6 prósent árið 2008 eftir að hafa hjaðnað nokkuð árið 2007. Í dag þá gengur það ekki heldur að sama fólkið og horft hefur aðgerðarlaust á verðbólguna slíta af sér beislið sjái um að koma ólum aftur á skepnuna. Sagan kennir okkur nefnilega að það er hvorki trúverðugt né líklegt til árangurs. Lausatökin yrðu áfram allsráðandi enda eru hendur núverandi valdhafa löðrandi í sleipiefni.
Víkja þarf sérhagsmunagæslu og endurnýjaðri græðgisvæðingu landsins til hliðar, en það verður ekki gert með núverandi valdhafa í stafni. Það hljómar til dæmis skelfilega þegar bróðir utanríkisráðherra hefur tekið forystu um að koma hér á launaauka- og bónuskerfi sem jafnast á við hryllinginn sem geisaði fyrir fjármálahrunið. Og það virkar eins og skæður höfuðverkur þegar Jón Ásgeir er byrjaður að mæra sjálfan sig fyrir að taka snúninga innan gamalgróins fyrirtækis með eigin skyndihagsmuni að leiðarljósi.
Hjarðhegðun og hagfræðilegt ólæsi virðist ráða ríkjum innan banka.
Horfa verður djúpt niður í gin verðbólguskrattans því það nægir ekki að gera einungis breytingar á áhöfn ríkisstjórnar og Seðlabanka. Sjálfsgagnrýnin verður að ná til bæði banka og hagfræðideilda háskóla landsins. Kennsla og þjálfun við deildirnar er augljóslega ábótavant þegar kemur að djúpgreiningu og hagspám. Þetta staðfesta síendurteknar og kolrangar verðbólguspár undanfarin misseri. Mikilvægasti eiginleiki hagstjórnar er nefnilega spáhæfni, en hún byggir á ályktunargetu þeirra sem að spám standa.
Auðvelt er að að spá fyrir um þróun verðbólgunnar þegar verðlagsstöðugleiki ríkir í heiminum eins og lengi var eftir hrunið, en þegar aðstæður verða öðruvísi þá reynir á umrædda hæfni og reynslu greiningaraðila. Í þessu samhengi þá hafa bankarnir fallið á prófinu enda hafa þeir ítrekað sagt að verðbólgan verði allt önnur en raunin síðan varð. Við erum ekki að tala um 1-3 spár heldur langvarandi og ítrekuð feilskot. Hjarðhegðun og hagfræðilegt ólæsi virðist ráða ríkjum innan banka. Villurnar fleyta sér síðan áfram yfir á hagkerfið allt þar sem heimili, fyrirtæki og opinberar stofnanir líta mjög til banka varðandi leiðsögn um framtíðina. Reiknivélarnar eru dæmi um síkt.
Spávillurnar hafa einnig haft afgerandi áhrif á mótun krafna í kjarasamningum. Þannig að það er geipilega mikilvægt fyrir hagkerfið að hagfræðideildir háskólanna girði sig í brók og skili af sér nemendum sem eru vel þjálfaðir í djúpgreiningu hagtalna og gerð hagspáa.
Ákvarðanatakar og aðstoðarfólk getur ekki allt komið frá sömu rótinni.
Fólkið sem framkvæmir greiningarnar hjá bönkunum kemur allflest frá hagfræðideildum íslenskra háskóla. Það sama á við um Seðlabankann og kennarar fjölmargra starfsmanna hans eru sumir hverjir skipaðir í peningastefnunefnd. Ákvarðanir nefndarinnar eru síðan byggðar á greiningum fyrrum nemenda sumra nefndarmanna þannig að þetta er samansúrraður kokteill þar sem fólki með sömu vangetuna er grautað saman. Úr verður einhver súr kokteill sem ákvarðanatakar sötra saman á og svamla um í sömu greiningarvillunni. Þessa skipan er nauðsynlegt að brjóta upp. Ákvarðanatakar og aðstoðarfólk getur ekki allt komið frá sömu rótinni. Ekki frekar en að það sé skynsamlegast að geyma öll eggin í sömu körfunni.
Ef Íslendingar ætla að taka sig alvarleg í hagstjórnarlegu tilliti þá verður ekki hjá því komist að gera miklar bragarbætur á því hvernig fólk velst til verka og gera verður kröfu um árangur, marktæka reynslu og að axla ábyrgð þegar illa fer eins og í dag. Klíkuskapur er raunverulegt efnahagslegt vandamál og í því samhengi má spyrja hvað núverandi seðlabankastjóri hefur ráðið marga til Seðlabankans sem koma úr hans eigin klani frá tíma hans við HÍ og Kaupþing banka?
Því miður þá tröllríður viðbragðsstjórnun öllu á Íslandi í stað fyrirhyggjusemi.
Einnig þarf að huga að því hvort skipan prófessora við hagfræðideildir háskóla landsins eigi að vera tímabundnar í stað æviráðninga. Núverandi skipan veldur því að aðilar lokast inn í akademískum fílabeinsturnum þar sem litla sem enga praktíska reynslu er að finna. Mesta þekkingin og besta hæfnin fæst með því að starfa út á akrinum. Spyrjið bara bóndann að þessu.
Því miður þá tröllríður viðbragðsstjórnun öllu á Íslandi í stað fyrirhyggjusemi. Ég fullyrði að ef þessu væri öfugt farið að þá væri ekki verið að ræða nýja þjóðarsátt því verðbólgan væri önnur og miklu lægri. Daglegar upphrópanir um háa verðbólgu án þess að ræða rót vandans sýnir og sannar að umræðan er á villigötum. Og enginn axlar ábyrgð, ekki frekar en áður!