- Advertisement -

Verðum að rannsaka alla söguna

Við verðum að ná um allan hópinn, og ekki síst þau sem eru kúguð, fátæk og bjargarlaus.

Gunnar Smári skrifar:

Ánægjulegt að forsætisráðherra og borgarstjóri eru slegnir yfir meðferð á varnarlausu fólki á Arnarholti fyrir fimmtíu árum og vilji láta rannsaka nú. Ég er sammála að það sé þarfaverk og tek undir með Héðni Unnsteinssyni, formanni Geðhjálpar, að rannsaka ætti alla söguna, draga fram þá meðferð sem fólk með geðraskanir hefur mátt þola af yfirvöldum og samfélagi síðustu 100 árin plús (eða hvar sem fólk vill setja mörk nútímasamfélags á Íslandi).

Og eins og fram kemur í umfjöllun um Arnarholt var þar ekki aðeins fólk með geðraskanir heldur líka fólk með þroskahömlun, áfengis- og vímuefnasjúklingar og flogaveikir. Við þekkjum frá síðari árum upplýsingar um hörmulega meðferð á varnarlausum börnum af fátækum heimilum. Svona rannsókn, einskonar sannleiksnefndar-samantekt til að lækna hugmyndir landsmanna um samfélagið, sem er mengað af upplýsingaóreiðu yfirstéttarinnar sem sífellt heldur á lofti eigin sigursögu til að breiða yfir ofbeldi sitt gagnvart þeim sem ekki fljóta ofan á mannhafinu; ætti að verða stofninn að nýjum Íslendingasögur um hin fátæku og valdalausu, um hin kúguðu, forsmáðu og fordæmdu.
Við, ef við eigum að geta notað þetta hugtak í almennri umræðu um landsmenn, getur ekki aðeins innifalið valdastéttina og þau sem dregin eru upp að henni til að þjóna henni. Við verðum að ná um allan hópinn, og ekki síst þau sem eru kúguð, fátæk og bjargarlaus.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Héðinn Unnsteinsson formaður Geðhjálpar.
Skjáskot: Kastljós.

Samkvæmt Íslandssögu hinna sterku, þeirri Íslandssögu sem hömruð hefur verið á sama steðja og var og er grunnur þjóðernisstefnu víða um heim, sögu sem aðeins segir sögu þeirra sem ná að krafsa sig upp á baki samferðafólksins, er í raun ofbeldissaga. Sjálfur grunnur sögunnar, matið á hver er verðugur og hver ekki, felur í sér útilokun, þöggun og kúgun. Ef þið standið innan hennar verðið þið sannfærð um að saga hinna bjargarlausu, fátæku og valdalausu muni skemma söguna, draga þau niður sem fengið hafa skjól innan hennar; að Íslandssagan verði skítug og sár og dragi niður kjark landsmanna til að sækja fram. En til hvers að keyra á slíkum krafti sem eðli síns vegna viðheldur kúgun, útilokun og þöggun um kjör fjöldans sem verður undir framgangi þessarar sögu. Sjálf sagan er þannig ofbeldistæki, ekki bara hvernig hún útilokar fjöldann heldur líka vegna þess að samfélag sem lifir innan slíkrar sögu heldur ofbeldinu áfram, er blint gagnvart þeim hópum sem skilgreind eru „hin“ þar sem þau fá ekki að vera með í „við“.

Rannsókn á Arnarholti ætti því að falla inn í stóra rannsókn um kjör hinna kúguð frá vistarböndum sveitasamfélagsins, í gegnum kúgun sjávarbyggða á frumbýlingsárum kapítalismans, yfir uppbyggingartímabil nútímasamfélags sem litað var að kúgun stjórnmálaklíka og allt að okkar nútíma. Markmiðið á ekki að vera að finna einstaka sökudólga, fólk sem mótað er af sögu hinna sterku og telur sig því hafa rétt á að beita hin veiku ofbeldi í krafti þess að þau séu ekki „við“ heldur „hin“. Það er öllum ljóst sem vilja sjá að þetta ofbeldi er kerfisbundið og inngróið í samfélagið, er félagslegt mein samfélagsins miklu fremur en persónulegt mein einstaka starfsmanna.

Katrín Jakobsdóttir og Dagur B. Eggertsson.

Ef við stöndum innan sögu hinna sterku óttumst við slíka rannsókn, það er skrifað inn í hana að saga þeirra sem verða undir miskunnarleysi hinna fáu sem fljóta ofan á, muni grafa undan sögunni. En það er blekking. Við getum aðeins byggt upp sterkt samfélag ef við eigum sögu sem inniheldur alla landsmenn; konur, börn, gamalmenni, fátæka, valdalausa, kúgaða, leigjendur, innflytjendur, sjúka og fatlaða, samkynhneigða, róttæka, ódæla.
Við getum ekki byggt upp gott samfélag á grunni Íslandssögu hinna sterku, þeirra sem náð hafa beygja annað fólk undir sig. Eina leiðin til að byggja upp gott samfélag er að byggja á sögu hinna veiku, kúguðu og útilokuðu; byggja samfélag á sögu þeirra, kröfum, vonum og væntingum.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: