- Advertisement -

„Verkin tala“ segir Bjarni Ben – er með mestu verðbólguna og mest atvinnuleysi

„Að láta verk­in tala. Að vera djörf og ákveðin, hafa trú á tæki­fær­um og mögu­leik­um þjóðar­inn­ar, sýna þraut­seigju og sækja kraft í sam­stöðuna. Það skipt­ir aldrei meira máli en í sterk­um mót­byr.“

Þetta er að finna í nýrri Moggagrein Bjarna Benediktssonar. En hver eru verkin. Jóhann Þorvarðarson skrifaði fyrir fáum dögum:

„Minnisstæð er rangfærsla fjármálaráðherra sem sagði verðtryggð lán veita meira skjól gagnvart verðbólgu en óverðtryggð lán. Meira sniðugt hefur síðan þá komið úr ranni ráðherrans. Á dögunum þakkaði ráðherrann íslenskri krónu fyrir að skuldir ríkissjóð hafi á árunum 2011-2019 lækkað meira en hjá öðrum þjóðum, að peningavextir væru í sögulegu lágmarki og að verðstöðugleiki væri þokkalegur. Hljómar bærilega, en er hrein vitleysa að þakka krónunni fyrir.

Af óþekktum ástæðum þá ræddi ráðherrann ekki hver hlutur stöðugleikaframlaga var í niðurgreiðslu á erlendum lánum eða uppbyggingu á gjaldeyrisvarasjóðnum. Um er að ræða eignir sem féllu ríkinu í skaut við uppgjör á fjármálahruninu. Eitthvað sem hafði ekkert með íslenska krónu að gera. Ráðherrann sleppti síðan að fjalla um sveltistefnu Sjálfstæðisflokksins sem ríkt hefur í landinu frá því hann sjálfur tók við fjármálaráðuneytinu fyrir allt of mörgum árum. Útgjöld Íslands til velferðarmála eru aðeins 17 prósent af landsframleiðslu á meðan hin Norðurlöndin beina á bilinu 25 til 29 prósent hlutdeild af sinni landsframleiðslu í málaflokkinn. Auðvitað er hægt að grynnka á erlendum skuldum hraðar en annars staðar með því að færa umönnunar álagið inn á heimili landsmanna. Eitthvað sem út af fyrir sig er þjóðhagslega óhagkvæmt, leiðir til sóunar. Sveltistefnan hefur aftur á móti ekkert með íslensku krónuna að gera.

Hliðarveruleiki fjármálaráðherra er í besta falli skemmtiefni á mannamótum.

Uppsöfnuð verðbólga á árabilinu 2000 – 2019 var 24,25 prósentustigum hærri á Íslandi en í heiminum öllum. Inn í heimsverðbólgunni er að finna tölur frá há-verðbólgulöndum þar sem tveggja stafa  verðbólgutölur eru regla frekar en undantekning. Ef ég myndi afmarka samanburðinn við evrusvæðið þá var uppsöfnuð verðbólga 63,88 prósentustigum hærri á Íslandi á tímabilinu 2000 til apríl 2021. Árlegur samanburður við evrusvæðið er sýndur á myndinni sem fylgir. Rauða lína hreinlega öskrar á mann. Síðan er almennt atvinnuleysi á Íslandi miklu meira en allt í kringum okkur og þar hefur krónan haft sitt að segja. Á því er enginn vafi því íslensk örmynt hindrar fjölþættingu íslensks atvinnulífs.

Ráðherrann talar um að vextir séu í sögulegu lágmarki á Íslandi, en sleppir að nefna að vextirnir eru samt sem áður miklu hærri en allt í kringum okkur. Hann sleppti síðan að fjalla um að mikill lóðaskortur hjá sveitarfélögum, sem stjórnað er af Sjálfstæðisflokknum, hefur leitt til mikilla verðhækkana á húsnæði. Alþýðunni til vandræða. Þannig að sögulega lágir vextir eru kannski ekki að gagnast þeim sem eru að kaupa íbúðarhúsnæði þegar upp er staðið. Svo mun há íslensk verðbólga fyrr en seinna kalla á vaxtahækkun. Þetta tvennt gæti étið ávinning upp ef ekki verður tekin upp ný efnahagsstefna hér á landi með nýtt fólk í brúnni. Hliðarveruleiki fjármálaráðherra er í besta falli skemmtiefni á mannamótum. Svo er það hin vandræðalega hlið málsins því ekki er langt síðan að fjármálaráðherra var talsmaður þess að taka upp evru. Gekkst við því að íslenska krónan væri sérstakt efnahagsvandamál. Það stóð ekki lengi því hann var tuktaður til af innvígðum og innmúruðum klíkubræðrum í sérhagsmunadeild Sjálfstæðisflokksins. Í dag þá er fjármálaráðherra á sömu slóðum og hinn ósannsögli Sigmundur Davíð í myntmálum. Skattaskjólsvinirnir Wintris og Falson syngja ljótan kórsöng.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: