- Advertisement -

Vernda eða ráðast á?

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Samantekið, þá er Seðlabanki Íslands eins og ofbeldisfullt foreldri, sem lemur skuldara, á meðan sá evrópski er umhyggjusamur  um alla fjölskylduna.

Ólíkt hafast þeir að. Annar lifir í einangrun svörtulofta á meðan hinn skoðar stóru myndina, heildarhagsmunina.

Röksemdir Seðlabanka Íslands fyrir ítrekuðum vaxtahækkunum eru að ráðast þurfi að hækkandi verðlagi og vaxandi verðbólguvæntingum. Ákvarðanir bankans eru teknar án tillits til áhrifa á fjárhag skuldugra heimila og fyrirtækja. Og án mats á því hvað veldur verðbólgunni. Síðan er sagt að vextir séu nú ekki svo háir í sögulegu samhengi svona til að sefa skuldara.

Seðlabanki Evrópu deilir ekki viðhorfum og nálgun Seðlabanka Íslands og hefur því haldið stýrivöxtum á evrusvæðinu óbreyttum þrátt fyrir að glíma við sama verðbólguvanda og Ísland. Og hver ætli séu rök bankans að hreyfa ekki stýrivextina. Fyrir það fyrsta þá segir Seðlabanki Evrópu að hækkun vaxta muni draga úr kaupgetu fólks nú þegar hækkandi orkuverð bítur fast í buddu neytenda. Einnig segir bankinn að vaxtahækkun muni auka kostnað fyrirtækja, sem geri þau þróttminni í leið að efnahagsbata.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ég bíð spenntur eftir töfrabrögðunum.   

Seðlabanki Evrópu veit að hærri vextir ráðast ekki að rót verðbólguvandans, sem er vöruskortur og hækkandi olíuverð. Síðan er það hið augljósa að hærri vextir muni ekki auka flutningsgetu skipafélaga. Þriðja atriðið er að háar verðbólgumælingar í dag eru líka vegna óvenju lágrar verðbólgu á síðasta ári. Grunnáhrifin af því eru sterk árið á eftir, en muni fjara fljótt út. Bankinn segist á sama  tíma vera á varðbergi gagnvart því að há verðbólga og vaxandi verðbólguvæntingar festi sig í sessi.

Það er ekki bara rangt stöðumat Seðlabankans á Íslandi sem veldur hækkun vaxta heldur spilar ótrúverðug króna stóra rullu. Síðan er það hin landlæga sérhagsmunagæsla fyrir íslenska elítu. Mikill meirihluti almennings geldur það því dýru verði að hafa ósjálfstæðan og ósyndan íslenskan gjaldmiðil. Samantekið, þá er Seðlabanki Íslands eins og ofbeldisfullt foreldri, sem lemur skuldara, á meðan sá evrópski er umhyggjusamur  um alla fjölskylduna.

Í lillabláa stjórnarsáttmálanum segir lamasess-stjórn Katrínar Jak að hún ætli að stuðla að lágum vöxtum án þess að það sé útlistað nánar. Einnig segir að innganga í Evrópusambandið sé ekki á dagskrá. Sem sagt, ríkisstjórnin lumar á einhverjum töfrasprota sem enginn hefur áður séð. Ég bíð spenntur eftir töfrabrögðunum.   


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: