- Advertisement -

Veruleikafirring Þorsteins

Sem sagt, öll verðbólga á Íslandi síðastliðin þrjátíu ár er láglaunafólki að kenna.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Þorsteinn Víglundsson fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og þingmaður Viðreisnar pönkast á láglaunafólki í ógeðfelldu viðtali í hinu síminnkandi Fréttablaði. Blaðinu sem ræðst reglulega á launþega landsins. Þorsteinn opinberar yfirgripsmikið þekkingarleysi á gengismálum í viðtalinu, ruglar saman orsök og afleiðingu. Hann hikar ekki við að varpa allri ábyrgð á snarvitlausri krónu yfir á forystufólk launþegahreyfinga. Hann beinir skotum sínum sérstaklega að nýrri forystu innan launþegahreyfinga. Allir vita við hverja er átt eða fulltrúa þeirra sem lægstu launin hafa í samfélaginu. Vinnuslitnar konur eru þar í meirihluta. Konurnar sem fullnýta sjúkraúrræði VIRK starfsendurhæfingarsjóðs. Eymingjalegri gat Þorsteinn ekki verið.

Orðrétt í viðtalinu þá segir Þorsteinn „Ísland verður að hafa krónu á meðan vinnumarkaðurinn hagar sér með jafn óábyrgum hætti og raun ber vitni. Gengisstöðugleiki næst aðeins í gegnum breytt vinnubrögð á vinnumarkaði“. Síðan heldur hann áfram og segir „Vandinn er að verkalýðshreyfingin, og sér í lagi ný forysta í verkalýðshreyfingunni, hafnar efnahagslegum veruleika“. Og áfram heldur sá firrti „Frá þjóðarsáttinni fyrir um þremur áratugum hafi laun hérlendis hækkað ríflega tvöfalt á við hin Norðurlöndin og verðbólgan sömuleiðis. Slíkar hækkanir leiða annað hvort til mikils atvinnuleysis eða falls krónunnar“. Sem sagt, öll verðbólga á Íslandi síðastliðin þrjátíu ár er láglaunafólki að kenna og aðallega forystufólki sem tók við fyrir fáeinum árum síðan. Og Þorsteinn kann bara tvö efnahagsúrræði, sem bæði eru úr sér gengin.

Þú gætir haft áhuga á þessum

…steypufyrirtæki fjölskyldu Þorsteins fór á hausinn vegna láglaunafólks, en ekki vegna lélegs rekstrar…

Þegar krónan hrundi í fjármálahruninu árið 2008 og verðbólga rauk upp í 18 prósent og hélst há í nokkur ár þá var það láglaunafólki aað kenna. Aðallega þó vinnuslitnum konum. Fólkinu sem tók á sig kjaraskerðingar og missti heimili sín vegna hrunsins. Orsakanna var ekki að finna hjá þeim sem græddu á daginn og grilluðu á kvöldin. Og steypufyrirtæki fjölskyldu Þorsteins fór á hausinn vegna láglaunafólks, en ekki vegna lélegs rekstrar, rangra ákvarðana í fjárfestingu og fjármögnun. Íslenska Dómínós pizzakeðjan er í viðvarandi rekstrarvanda vegna þess að unga fólkið, sem bakar pizzurnar, fær laun sem ekki er hægt að framfleyta sér af. Offjárfesting keðjunnar og há laun stjórnenda er ekki orsakavaldur. Aukin samkeppni á pizzamarkaði hefur heldur ekkert með málið að gera. Gjaldþrot bankanna og Seðlabanka er láglaunafólki líka að kenna. Láglaunafólk er svona stjarnfræðilegt svarthol sem hægt er kenna um allt sem fer úrskeiðis hjá landsfrægum kvöldgrillurum.

Innkoma Costco á dagvörumarkað þar sem til dæmis er hægt að kaupa risapizzu á verði sem hefur aldrei sést á Íslandi er láglaunafólki að kenna. Já, og offjárfesting í hótelbyggingum er láglaunafólki að kenna og vanfjárfesting í íbúðarhúsnæði er líka láglaunafólki að kenna. Gjaldþrot WOW air var láglaunafólkinu að kenna, en ekki offjárfestingu og dýru kampavíni. Listinn er endalaus. Nú þegar Þorsteinn er aftur orðinn forstjóri steypufyrirtækis þá vellur steypan upp úr honum. Alveg eins og kvikan rennur úr gígum Geldingahrauns. Maður spyr sig, mun yfirstandandi eða væntanlegur rekstrarvandi steypufyrirtækisins vera láglaunafólki að kenna.

Hvað með að fá hæfara fólk til að reka fyrirtækin í stað aðila sem valdir eru vegna þess að það er í elítu-klíkunni. Getur verið að íslenskir fyrirtækjastjórnendur séu lélegir, kunna bara rekstur í meðbyr? Þegar Pálmi í Hagkaup stofnaði sitt fyrirtæki og hóf að reka það eins og hvert annað heimili þá fóru mörg illa rekin verslunarfyrirtæki á hausinn. Þar á meðal var SÍS og fjölmörg kaupfélög. Almenningur saknar þeirra ekki. Þorsteinn er sorglegt eintak fyrirtækjastjórnanda sem ræðst á láglaunafólk til að breiða yfir sjálfan sig.     

Þorsteinn er sorglegt eintak fyrirtækjastjórnanda sem ræðst á láglaunafólk til að breiða yfir sjálfan sig.   


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: