- Advertisement -

Viðreisn boðar vistarband

Vegna tímalengdar óvissunnar þá er framlenging hlutabóta vanhugsuð.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Formaður Viðreisnar kynnti í dag hugmyndir flokksins vegna efnahagsvandans sem gengur yfir. Allar nema ein eru því marki brenndar að virka eftir mjög langan tíma. Einnig er að þær koma í veg fyrir nauðsynlega endurskipulagningu atvinnulífsins. Ein hugmyndin er áframhald á hlutabótaleiðinni, sem gerir ekki annað en að skerða hreyfanleika launafólks úr ferðaþjónustu yfir í aðrar atvinnugreinar. Bindur launafólk einskonar vistarbandi við ferðaþjónustuna. Í Þýskalandi, þar sem úrræðið á uppruna sinn, þá eru farnar að renna tvær grímur á menn vegna þess mikla fjölda sem er á úrræðinu. Yfir 10 milljónir manna eru hnýttir kirfilega við ferðaiðnaðinn án þess að nægjanleg eftirspurn sé fyrir hendi.    

Viðreisn kallar hugmyndapakkann „Atvinnuleysiskreppu“, en þarna liggur mikill misskilningur. Allir framleiðsluþættir hagkerfisins, og þar með framboðshliðin, eru í góðu ástandi. Tiltekinn hluti þess varð aftur á móti fyrir eftirspurnaráfalli, en atvinnutækifærin eru þarna þegar eftirspurnin kemur til baka. Tímasetning endurheimtunnar er aftur á móti háð mikilli óvissu. Samstaða virðist þó vera um það á heimsvísu að það taki nokkur ár að byggja upp áþekkt ástand innan ferðaiðnaðarins  og var fyrir Covid-19.  Nær hefði því verið að nefna hugmyndapakkann „Eftirspurnarkreppu“ enda lýsir hugtakið ástandinu betur en nokkuð annað.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hleypa þarf hæfara fólki að, hugsandi konum.

Vegna tímalengdar óvissunnar þá er framlenging hlutabóta vanhugsuð. Hún viðheldur bara vistarbandinu og dregur atvinnuleysi á langinn. Sú aðgerð sem er farsælust og fljótvirkust er að hækka atvinnuleysislaunin myndarlega og tímabundið að hætti Bandaríkjamanna. Fólk losnar þar með við að vera taglhnýtingar óvissunnar og fer þess í stað á almenna atvinnuleysisskrá. Aðgerðin hefur strax víðtæk áhrif þvert á atvinnugreinar um allt land. Hreyfanleiki milli greina eykst samhliða. Viðreisn er eins og aðrir stjórnarandstöðuflokkar hlynnt hækkun atvinnuleysislauna, en aðeins um nokkra þúsund krónur seðla. Þannig nánasar hugmynd gefur ekki byr í seglin, en viðleitnin var ágæt. Ríkisstjórnin hafnaði öllum manneskjulegum hugmyndum í þessa veru við atkvæðagreiðslu á Alþingi í dag eftir að hafa sjálf þegið nýlega 115 þúsund krónur í kauphækkun á mánuði. Katrín forsætisráðherra fékk þó meira en aðrir ráðherrar eða um 220 þúsund krónur í launahækkun. Þessi ríkisstjórn ræður ekki við það verkefni að koma í veg fyrir langvinnt atvinnuleysi tugþúsundir manna. Hleypa þarf hæfara fólki að, hugsandi konum.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: