- Advertisement -

Vilhjálmur í vígahug

Helsti ósómi verðtryggingar á lengri lán er gríðarleg eignatilfærsla frá skuldaþrælum til lánara.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Vilhjálmur Bjarnason, ótitlaður starfsmaður Seðlabanka Íslands, ritaði fífldjarfa grein í Moggann 12. apríl. Hann er með allt á hornum sér vegna nýgerðs kjarasamnings. Hann gengur svo langt að líkja nýrri forustu launamanna við sjálfan Jesú.

Allt í lagi Vilhjálmur, frómur maður sagði einu sinni að það væru mannréttindi að verða sjálfum sér til skammar og það mörgum sinnum á einu bretti. Verra er þó þegar menn eru með falskan áróður. Svona eins og Donald Trump sem segir iðulega rangt frá og helst aldrei meira en hálfsannleik.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Vilhjálmur  hefur miklar áhyggjur því banna á löng verðtryggð lán. Hann hefur líka áhyggjur að lífeyrissjóðir kunni ekki að bregðast við nýjum markaðsaðstæðum.

Ótti Vilhjálms er alveg ástæðulaus. Hann þarf ekki að berjast við framtíðina né nýja hugsun sem finna má í nýgerðum kjarasamningum og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar

Vandamál Vilhjálms er nefnilega að hann er fastur í gömlu viðhorfi. Hér áður fyrr féllust launþegar auðmjúklega á sína skulda-fangelsisvist til margra áratuga til að eignast eigin íbúð. Nú segja launþegar hingað og ekki lengra. Skilningur á ömurlegum afleiðingum verðtryggingarinnar hefur almennt aukist.

Helsti ósómi verðtryggingar á lengri lán er gríðarleg eignatilfærsla frá skuldaþrælum til lánara. Sumir kalla það eignaupptöku eins hrunið bar með sér. Vilhjálmur er kannski búinn að gleyma afleiðingum hrunsins eða náði það ekki inn í Garðabæinn

Það er ekki að ástæðulausu að verðtrygginguna er hvergi að finna á öðru byggðu bóli nema ef vera skyldi í Ísrael. Það hefði verið ágætt ef Vilhjálmur hefði svarað því í grein sinni af hverju engin önnur þjóð apar snilldina eftir Íslandi.

Í grein sinni segir Vilhjálmur réttilega að afborgunarbyrgði lengri lána muni hækka efir jarðsetningu verðtryggingarinnar. En hér er bara hálf sagan sögð.

Áfram verður til dæmis hægt að taka óverðtryggð lán til 40 ára.

Hér á Miðjunni þá hef ég birt útreikninga (sjá grein mín Kyrkingaról Mammons) um að í jafnri 6% verðbólgu til 40 ára þá muni skuldari greiða 100 milljónir aukalega til lánara vegna 30 milljón króna láns ef lánið er verðtryggt. Vilhjálmur lætur það alveg vera að fjalla um þessa eignatilfærslu frá skuldaranum. Með óverðtryggðu láni forðast skuldarinn þennan þjófnað á sér.

Í reiknidæmi mínu miðaði ég við 6% verðbólgu vegna þess að frá aldamótum hefur verðbólga verið yfir 6% að jafnaði samkvæmt Hagstofu Íslands. Vilhjálmur styðst við 3% verðbólgu, svona til að fegra sína áróðursmynd.

Vilhjálmur kvartar yfir að kjánar eins og ég taki ekki tillit til tímavirði peninga. Ég ætla því að bæta snarlega úr því hér og nú. Ofangreindar 100 milljónir eru að núvirði 31 milljón króna eignatilfærsla frá skuldaranum vegna verðtryggingarinnar. Það er hærri fjárhæð en sjálfur höfuðstóll lánsins í dæminu. Vilhjálmi finnst þetta bara eðlileg eignatilfærsla. Hann þolir augljóslega ekki að launþeginn geti gert betur við sig og sína með þessar auka 31 milljónir. Fjárhæðin er ekki lítil og er til dæmis ígildi lítillar íbúðar á Akureyri.

Í ljósi þess að Vilhjálmur Bjarnason starfar hjá seðlabankanum er vert að spyrja hvort viðhorf hans endurspegli viðhorf bankans til nýgerðra kjarasamninga?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: