- Advertisement -

Vilhjálmur yfirbullar!

Og hver myndi borga milljarða tapið aðrir en landsmenn.

 Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness er með Landsvirkjun á heilanum. Ræðst reglulega á fyrirtækið, en sjaldnast að vel ígrunduðu máli. Nýjasta útspil hans er komið í hreint yfirbull og málflutningurinn farinn að líkjast þráhyggju.

Núna ber kappinn saman þróun hagnaðar og eiginfjár hjá Landsvirkjun annars vegar og álrisans Rio Tinto hins vegar yfir sjö ára tímabil. Kemst hann að þeirri niðurstöðu að uppsafnaður hagnaður og aukning eiginfjár hjá Landsvirkjun sé í beinu sambandi við hækkun raforkuverðs til álvinnslunnar Rio Tinto. Þessi fullyrðing er órökstudd.

Af orðum Vilhjálms má ætla að allt sem aflaga fer hjá álvinnslunni sé Landsvirkjun að kenna.

Vilhjálmur vill einnig meina að lækkandi eigið fé og taprekstur álvinnslunnar sé í beinu sambandi við hærra raforkuverð. Sakar Vilhjálmur Landsvirkjun um óbilgirni og græðgi. Þetta er einnig órökstutt, en er alveg rangt.  Vilhjálmur pælir lítið í hvort Rio sé kannski illa rekið fyrirtæki eða skorti nægjanlega stærðarhagkvæmni. Hvoru tveggja þættir sem Landsvirkjun stjórnar ekki! Af orðum Vilhjálms má ætla að allt sem aflaga fer hjá álvinnslunni sé Landsvirkjun að kenna. Næsta útspil Vilhjálms gæti verið að ljósboginn sem stöðvaði álframleiðslu í öðrum kerskála Rio Tinto nýlega og veldur taprekstri sé á ábyrgð Landsvirkjunar. Já, allir vegir liggja til orkufyrirtækisins.

Á endanum er það alltaf spurningin af hverju álvinnslan heldur áfram sínum taprekstri í stað þess að hætta álframleiðslu á Íslandi. Málið er að auðhringurinn Rio Tinto skapar virðisauka úr álinu frá Íslandi annars staðar sem gerir meira en að vega tapið upp á Íslandi.  

Skoðum ásakanir Vilhjálms um að Landsvirkjun sé gráðugt og óbilgjarnt þegar kemur að umsömdu raforkuverði. Nafnarðsemi eiginfjár Landsvirkjunar undanfarin sjö ár var ekki nema 3,9% og raunávöxtun lauslega reiknað í kringum 1,4%. Það flokkast ekki undir græðgi og er í raun óviðunandi árangur. Steindauður bankareikningur gaf meira af sér síðastliðin 7 ár. Niðurstaðan er að Landsvirkjun hefur ekki arðrænt álvinnsluna né gengið hart fram í samningum um raforkuverð.

Ef Landsvirkjun væri rekin eftir viðhorfi Vilhjálms þá væri milljarða taprekstur á firmanu. Og hver myndi borga milljarða tapið aðrir en landsmenn. Getur Vilhjálmur réttlætt það fyrir okkur landsmönnum? Það væri gaman að sjá það! Ég tel að Vilhjálmur þurfi að róa sig niður og gaumgæfa hlutina betur. Ísland er ekki nýlenda erlendra auðhringa þar sem hægt er að ganga á náttúruauðlindir án sanngjarns endurgjalds. Og við viljum alls ekki niðurgreiða starfsemi stóriðjufyrirtækja. Raforkuverð til stóriðja er enn þá of lágt að mínu mati.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: