- Advertisement -

Vilja losna við Ragnar Þór

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Þegar ég hafði verið formaður Eflingar í nokkra mánuði fékk ég símtal frá blaðamanni Morgunblaðsins. Hún spurði að því hvort uppnám hjá nokkrum manneskjum sem starfað höfðu hjá félaginu yfir valdatöku minni væri ekki sönnun á því að ég og Viðar Þorsteinsson ætluðum að nota „digra sjóði fé­lags­ins upp á 12 millj­arða króna“ til að gefa sósíalistum. Ég var algjörlega forviða á spurningunni og öðrum ásökunum blaðamanns. Tveimur dögum seinna var „frétt“ um þetta svo slegið upp á forsíðu Morgunblaðsins. Inn í blaðinu var svo í „fréttaskýringu“ vitnað í ýmsa ónafngreinda viðmælendur og með því var hægt að fara fram með ógeðslegum lygum og staðhæfulausum fullyrðingum um þjófs-eðli mitt. Þessi lyga-frétt var upphafið að fjölmörgum tilefnum skíta-dreifara hægrisins til árása. Til dæmis notaðist fyrrum dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, við þessar lygar oftar en einu sinni í deleringum um mig og Eflingu í bloggi sínu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ég hef aldrei verið beðin afsökunar á þessum rógburði.

Í morgun birti Fréttablaðið á forsíðu sinni lygar um Ragnar Þór, formann VR. Hann er líka ógeðslegur þjófur, veiði-þjófur sem stelur frá Seðlabankanum! Blaðamaður hefur náð í Ragnar og borið á hann sakirnar, Ragnar svarar: „Ég lagði ekki nein net þarna, mér finnst með algjörum ólíkindum að það sé verið að draga mig inn í mál sem er mér óviðkomandi.“ En það hefur auðvitað engin áhrif á blaðamann Fréttablaðsins. Ákveðið hefur verið að „fréttin“ skuli birt, ákveðið hefur verið að Ragnar Þór skuli kallaður þjófur á forsíðunni og ekkert skal stoppa það. Það er vegna þess að brátt verða formannskosningar í VR og ekkert þrá þau meira sem telja sig eigendur Íslands, lífeyrissjóðanna, og okkar allra, en að losna við Ragnar Þór. Til að reyna að knýja á um að það verði að veruleika er og verður einskis svifist.

Nú hefur lögreglan svarað því að Ragnar Þór hafi hvorki stöðu sakbornings né vitnis í tengslum við málið sem um ræðir. Og lögmaður Ragnars segir að þetta hafi Fréttablaðið vitað þegar fréttin var unnið. Lögmaðurinn segir að með fréttaflutningi sínum hafi Fréttablaðið brotið gegn siðareglum blaðamanna og ákvæði fjölmiðlalaga. En auðvitað hefur þetta engu máli skipt þegar ákvörðunin var tekin og mun ekki skipta máli. Af því að tilgangurinn helgar meðalið. Og tilgangurinn er að sverta mannorð Ragnars Þórs  af því hann vill ekki bara hlýða og halda kjafti, og er þess vegna stórhættulegur hagsmunum þeirra sem telja sig eigendur alls.

Ég auðvitað vona að Fréttablaðið biðjist afsökunar. En ég held samt að það muni ekki gerast. Það tíðkast ekki hjá íslenska hægrinu að biðja fólk afsökunar á lygum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: